Fréttayfirlit 23. september 2019

Svala aðstoðar í kennslustofu í Katmandú



Svala Davíðsdóttir, 18 ára Kópavogsmær, hefur nú verið í þrjár vikur í SOS barnaþorpinu í Jorpati í Katmandú, höfuðborg Nepal. Hún er búsett hjá bróður sínum í borginni og á daginn vinnur hún sem kennari í sjálfboðaliðastarfi í barnaþorpinu. Þar búa fötluð börn sem eitt sinn voru umkomulaus en eiga nú ástríka SOS-fjölskyldu og heimili.

„Starf mitt felst í aðstoð í kennslustofunni. Við erum fimm kennarar með 14 börn. Krakkarnir eru í skóla alla daga frá kl. 10-16 nema laugardaga. Þau læra að lesa og skrifa auk þess sem þau læra landafræði, vísindi, ensku, stærðfræði og á tölvur,“ segir Svala sem leyfir Íslendingum að fylgjast með sér í Nepal á Instagram síðu SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Frá einni kennslustofunni í Jorpati„Hér búa eingöngu börn sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar. Í þorpinu eru 6 hús og búa 8 börn í hverju og SOS - mamma. Það er dásamlegt að sjá hve vel er hugsað um börnin. Þau búa í fallegu húsnæði, lifa fjölskyldulífi og fá tækifæri til að mennta sig.“

Íslendingar styrkja í Jorpati

Eitt barn í þorpinu á styrktarforeldri á Íslandi og tveir Íslendingar eru SOS-barnaþorpsvinir Jorpati þorpsins. Styrktarforeldrar taka þátt í framfærslu barnsins og fá reglulega af því fréttir og myndir. Barnaþorpsvinir taka þátt í rekstrarkostnaði þorpsins.

Svala verður næstu mánuðina í Katmandú og mun líka starfa í SOS barnaþorpinu í Sanothimi. Hún mun einnig sinna fimleikakennslu en hún hefur æft fimleika hjá Gerplu í 14 ár og séð þar um þjálfun barna. „Mig hefur lengi dreymt um að fá tækifæri til að sinna hjálparstarfi. Ég er svo þakklát fyrir tækifærið að fá að vinna með börnunum í SOS barnaþorpunum.“

Svala_Nepal kort.jpg

Nýlegar fréttir

Snerpa styrkir íþróttaiðkun barna í SOS Barnaþorpunum í Bosníu
19. ágú. 2025 Almennar fréttir

Snerpa styrkir íþróttaiðkun barna í SOS Barnaþorpunum í Bosníu

Íslenska fótboltaakademían Snerpa coaching hefur skrifað undir samning við SOS Barnaþorpin á Íslandi þess efnis að akademían styrkir íþróttaiðkun barna hjá SOS Barnaþorpunum í Bosníu.

500 dagar frá dramatískri rýmingu barnaþorpsins á Gaza
24. júl. 2025 Almennar fréttir

500 dagar frá dramatískri rýmingu barnaþorpsins á Gaza

Í dag eru sléttir 500 dagar liðnir síðan SOS Barnaþorpin í Palestínu þurftu að rýma SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza. Frá árinu 2000 höfðu yfirgefin og munaðarlaus börn fengið þar nýtt heimili, fjölskyl...