Fréttayfirlit 25. júní 2021

SOS birtir skýrslu um gömul barnaverndarmál

SOS birtir skýrslu um gömul barnaverndarmál

SOS Barnaþorpin leggja ríka áherslu á að tala á opinskáan og heiðarlegan hátt um starfsemi samtakanna. Við segjum ekki aðeins frá öllu því jákvæða sem áunnist hefur heldur einnig frá erfiðum málum og áskorunum. Það sem skiptir okkur mestu máli, og er jafnframt ástæðan fyrir tilvist samtakanna, er að börnin og fjölskyldurnar sem við hjálpum njóti öryggis. Þrátt fyrir það höfum við undanfarnar vikur komist að raun um að börn og ungmenni í okkar umsjá hafa ekki alltaf fengið þá vernd og umönnun sem þau eiga rétt á.

Lærum af mistökum fortíðar

Árið 2017 óskaði alþjóðastjórn SOS Barnaþorpanna eftir því við bresku samtökin Keeping Children Safe (KCS), óháð alþjóðleg eftirlitssamtök með barnaverndarmálum, að kanna stöðu barnaverndarmála í nokkrum aðildarlöndum SOS, mörg ár aftur í tímann. Þetta gerðum við til að læra af mistökum fortíðar og koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Niðurstaða þessarar úttektar liggur nú fyrir og dregur skýrsla KCS fram ýmislegt sem farið hefur úrskeiðis í barnaverndarmálum SOS í fjórum löndum í mismunandi heimsálfum yfir langt tímabil. SOS Barnaþorpin hafa birt þessa skýrslu og er hún aðgengileg hér á ensku á heimasíðu alþjóðasamtakanna.

Skýrslan leiðir m.a. í ljós vanrækslu og ofbeldi á börnum og að skýrum reglum um vinnubrögð í tengslum við barnaverndarmál var ekki framfylgt. Málin sem til umfjöllunar eru snúa ekki aðeins að öryggi og velferð barna og ungmenna heldur koma einnig fram ásakanir um slæma stjórnunarhætti sem varða brot á vinnu- og siðareglum SOS. Til að mynda voru tilkynningar og vitnisburður uppljóstrara virt að vettugi og rannsóknir á tilkynningum voru framkvæmdar en niðurstöðum stungið ofan í skúffu. SOS tilkynnir öll lögbrot til lögregluyfirvalda.

Af persónuverndarástæðum og til verndar þolendum er okkur ekki heimilt að upplýsa um hvaða aðildarlönd SOS er að ræða og biðjum við styrktaraðila SOS vinsamlegast að virða það. Málin sem rannsökuð voru ná sum hver áratugi aftur í tímann, áður en barnaverndarstefna SOS var innleidd árið 2008 og núgildandi siðareglur árið 2011. Hér er rétt að taka fram að frá árinu 2012 hefur alger umbylting orðið í barnaverndarmálum innan SOS og úttektin sem hér um ræðir verður til þess að enn frekar verður skerpt á þeim málum.

Þolendur beðnir afsökunar

Sum þessarra mála sem hér um ræðir voru einnig til umfjöllunar í annarri  óháðri skýrslu um barnaverndarmál sem SOS greindi frá í maí sl. Æðstu stjórnendur alþjóðasamtaka SOS hafa beðið þolendur afsökunar eins og sjá má í þessu ávarpi Ingrid Johansen, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka SOS.

Tillögur að úrbótum þegar komnar til framkvæmda

Ásamt því að framkvæma þessa úttekt leggur KCS fram 46 tillögur að úrbótum sem þegar eru komnar til framkvæmda. Þá hefur alþjóðastjórn SOS skipað óháða fagnefnd sem hefur m.a. umboð til að taka á móti öllum tilkynningum um hugsanleg brot og fylgja þeim eftir. Einn af mikilvægustu þáttunum í átt til úrbóta er að þolendum og uppljóstrurum hefur verið gert mun auðveldara með öruggar tilkynningarleiðir.

Barátta gegn útbreiddu og viðvarandi vandamáli

Ofbeldi gegn börnum er útbreitt og viðvarandi vandamál í heiminum. Menningarvenjur eru víða gerólíkar því sem við eigum að venjast hér á Íslandi og sumsstaðar er beinlínis löglegt að beita börn líkamlegum refsingum. Þá er kynferðisleg misnotkun á börnum víða mikið feimnismál og þar af leiðandi er skortur á að slíkt ofbeldið sé tilkynnt.  

SOS Barnaþorpin líða ekki neinskonar ofbeldi gegn börnum, misnotkun, vanrækslu eða brot á friðhelgi og réttindum barna. Samtökin vinna í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tilmæli um alla umönnun barna. Hjá samtökunum starfar afar öflugur hópur heiðarlegs fólks sem hefur eftirlit með barnavernd að sínu aðalstarfi. Á hverju ári er birt á heimasíðu alþjóðasamtakanna ársskýrsla yfir öll barnaverndarmál sem upp koma innan samtakanna og er hún aðgengileg öllum. SOS Barnaþorpin munu ekki sofna á verðinum. Við munum halda áfram eftir okkar bestu getu að tryggja að börnin í okkar umsjá njóti þeirrar verndar sem þau eiga rétt á.

Hafir þú frekari spurningar um þessa skýrslu er þér velkomið að setja þig í samband við okkur, annað hvort í tölvupósti á sos@sos.is eða með því að hringja í okkur á skrifstofuna í síma 5642910.

Nýlegar fréttir

SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
13. sep. 2024 Almennar fréttir

SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu

Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
10. sep. 2024 Almennar fréttir

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi

SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.