Söfnun hafin vegna neyðaraðgerða á Gaza
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa hrundið af stað neyðarsöfnun fyrir SOS í Palestínu vegna aðgerða á Gaza. Áætlað er að á bilinu 19 til 25 þúsund börn á Gaza hafi misst annað eða báða foreldra sína og neyðin eykst með hverjum degi. SOS Barnaþorpin hafa starfað í Palestínu í 56 ár og þekkja aðstæður vel. SOS barnaþorpið í Rafah, á suðurhluta Gaza, tekur á móti fylgdarlausum börnum sem hafa misst umönnun foreldra vegna stríðsins.
Sjá einnig: Fékkstu símtal frá SOS?
Aðgerðir SOS á Gaza
Með aðgerðum okkar í Palestínu hjálpum við fjölskyldum sem orðið hafa viðskila að sameinast á ný og tökum að okkur börn sem misst hafa foreldra sína. Við veitum börnum áfallahjálp og hlúum að geðheilsu þeirra eftir þær miklu hörmungar sem þau hafa upplifað.
Til stendur að veita fjárstuðning við skyldmenni sem hafa tekið að sér börn látinna ættingja. Margt fólk kemur reglulega að barnaþorpinu í Rafah og biður um að tekið sé við börnum sem það getur ekki séð fyrir. Þetta er oft skyldfólk sem tók að sér börn látinna ættingja en getur ekki lengur framfleytt börnunum.
Við útvegum illa stöddum barnafjölskyldum matvæli, vatn og aðrar nauðsynjar til fólks á svæðinu í samstarfi við önnur virt, sjálfstæð og vottuð hjálparsamtök.
Að auki veita SOS Barnaþorpin:
- Beina mannúðaraðstoð við fjölskyldur sem verst hafa orðið úti til að forðast frekari aðskilnað barna við fjölskyldur sínar
- Neyðaraðstoð fyrir fylgdarlaus börn, m.a. auðkenning barna, skráning og vistun í öruggu umhverfi
- Áfallahjálp, sérstaklega fyrir börn og umönnunarfólk okkar, til að hjálpa þeim að takast á við áföll og tilfinningalega vanlíðan
- Fjárhagslegan stuðning við fjölskyldur sem glíma við erfiðleika
Aukið hjálparstarf SOS
Í fyrsta fasa neyðaraðgerða okkar á Gaza eftir að stríðið braust út í október náðum við til 220 barnafjölskyldna og yfir þúsund einstaklinga. Áætlað er að styðja þannig við tvö þúsund einstaklinga í fyrsta áfanga og þrjú þúsund einstaklinga í þeim næsta. Hjálparstarf SOS beindist fyrst að fátækum barnafjölskyldum en nú höfum við aukið stuðning við fleiri börn og fjölskyldur í samfélaginu.
Aðstoðin felur í sér m.a. matarmiða í samstarfi við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og matvæla- og fjárstuðning við brothættar fjölskyldur í verkefnum okkar. Fjölskyldur geta tekið pening út úr rafrænu veski í símanum sínum og keypt nauðsynjar.
Alþjóðleg vottun neyðarhjálparsamtaka
Aðgerðir okkar á staðnum lúta ströngu eftirliti alþjóðasamtaka SOS Children´s Villages sem hlotið hafa hina alþjóðlegu CHS vottun sem neyðarhjálparsamtök með tilheyrandi ströngum verkferlum og eftirliti. Fagmennska í neyðaraðgerðum skiptir öllu máli.
SOS Barnaþorpin hafa verið til staðar fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn í Palestínu frá 1968 og hafa því yfirgripsmikla þekkingu á aðstæðum.
Neyð á Gaza
Neyð á Gaza
Styrktu neyðaraðgerðir SOS fyrir börn og fjölskyldur þeirra á Gaza í Palestínu. Þar ríkir mikil neyð. Tugþúsundir hafa látið lífið og fjöldi barna misst foreldra sína. SOS Barnaþorpin starfa á Gaza og eru í góðri aðstöðu til að hjálpa börnum þar. Þú getur annað hvort gefið stakt framlag eða gerst mánaðarlegur neyðarvinur.
Veldu eitt af boxunum hér fyrir neðan. Athugaðu að þú getur breytt fjárhæðinni (lágmarksupphæð er 1.000 krónur.)