Söfnuðu rúmlega milljón fyrir börn í neyð á Gaza
Nemendur í Kársnesskóla héldu sinn árlega góðgerðardag nú á dögunum þar sem þeir söfnuðu rúmlega einni milljón króna fyrir börn í neyð á Gaza. Nemendur og starfsfólk skólans höfðu undirbúið daginn vel og buðu upp á metnaðarfulla dagskrá fyrir gesti og gangandi.
Kusu hjálparsamtök með lýðræðislegum hætti
Á hverju ári halda nemendur Kársnesskóla góðgerðardag í samstarfi við foreldrafélag skólans. Góðgerðgerðdagurinn er fjáröflunarverkefni þar sem börn safna fyrir börn. Með verkefninu vilja nemendur nýta sköpunarkrafta sína til að láta gott af sér leiða.
Það var metnaðarfull dagskráin hjá skólanum í aðdraganda góðgerðardagsins. Fyrst kusu nemendur í 7. bekk með lýðræðislegum hætti hvaða hjálparsamtök þau vildu styrkja í ár og svo skiptu nemendur sér upp í alls konar hópa til að undirbúa daginn sjálfan.
Velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna
Viku fyrir góðgerðardaginn heimsóttu þær Eva Ruza Miljevic, velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna og Hjördís Rós Jónsdóttir, fræðslufulltrúi SOS, nemendur Kársnesskóla. Þær sögðu þeim frá starfsemi samtakanna og hvernig aðstoð samtökin væru að veita á Gaza svæðinu. Börnin voru mjög áhugasöm og fylgdust einstaklega vel með.
Fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá
Nemendur höfðu föndrað og útbúið fjölbreyttan varning eins og sjá má á myndunum. Það er auðséð að krakkarnir eru afar skapandi og allir nemendur og starfsfólk skólans voru mjög virkir þátttakendur í undirbúningnum.
Á sjálfum góðgerðardeginum, sem haldinn var 23. maí, var fullt út úr dyrum enda höfðu nemendur boðið fjölskyldum sínum, vinum og hverfinu öllu í skólann. Í lok dags kom í ljós að nemendur höfðu safnað hærri upphæð en nokkru sinni fyrr eða kr. 1.052.883 fyrir SOS Barnaþorpin og neyðaraðgerðir samtakanna á Gaza. Nokkrir fulltrúar skólans, þau Ljósbjörg, Lovísa, Valdimar og Helgi, komu í heimsókn á skrifstofu SOS Barnaþorpanna ásamt kennaranum sínum, Guðnýju Jónsdóttur og afhentu starfsfólki SOS afrakstur dagsins.
SOS Barnaþorpin senda nemendum, foreldrum og starfsfólki Kársnesskóla innilegar þakkir fyrir alla þá vinnu sem þau lögðu í viðburðinn og framlag þeirra til barna í neyð.
SOS foreldri barna á Gaza
SOS foreldri barna á Gaza
Sem SOS foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur þorpsins svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem þar búa og fer þeim nú fjölgandi. Einnig er hægt að greiða stakt framlag í neyðarsöfnun SOS.