Fréttayfirlit 21. janúar 2021

Rúrik afhenti SOS 1,7 milljónir króna

Rúrik afhenti SOS 1,7 milljónir króna

Rúrik Gíslason, velgjörðasendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi, afhenti samtökunum styrk að upphæð 1,7 milljónir króna í dag á Kjarvalsstöðum. Fjárhæðin er ágóði af sölu á SOS góðgerðarbolnum sem var hannaður af Rúrik Gíslasyni í samstarfi við 66°Norður. Bolurinn var seldur í verslunum 66°Norður í desember síðastliðnum. Þetta er annað árið í röð sem Rúrik hannar góðgerðarbol fyrir SOS og seldist bolurinn einnig upp fyrir jólin 2019. Þá var ágóðinn af sölunni 1,6 milljónir króna.

Styrktarupphæðin rennur til verkefnis í Tógó sem miðar að því að draga úr kynferðislegri misnotkun á börnum þar í landi. Verkefnið hefur verið starfrækt frá því í mars á síðastliðnu ári og hefur þegar náð miklum árangri.  56% stúlkna í Tógó eru fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar og 17,3% stúlkna verða barnshafandi fyrir 18 ára aldur. Ennfremur eru barnagiftingar stúlkna og brottfall unglingsstúlkna úr grunnskólum vegna þungunar aðkallandi vandamál.

Þetta er annað árið í röð sem 66°Norður og Rúrik styðja við starfsemi SOS Barnaþorpanna og hafa samtals stutt félagið um 3,3 milljónir króna.

Gefa stakt framlag

Ánægjuleg vegferð

„Ég er mjög þakklátur að geta lagt mitt af mörkum og stutt þetta frábæra verkefni SOS Barnaþorpanna í Tógó. Það hefur verið ánægjulegt að vinna með 66°Norður að hönnun og framleiðslu góðgerðarbolsins. Þetta hefur verið ánægjuleg vegferð og mín leið að styðja við félagið sem velgjörðasendiherra,“ segir Rúrik Gíslason.

Íslendingar láta sig málefnið varða

„Við erum Rúrik og 66°Norður innilega þakklát fyrir þetta frumkvæði og ánægjulega samstarf. Það gleður okkur mjög að þessi góði bolur hafi selst upp annað árið í röð. Það þykir okkur ekki aðeins til merkis um vel heppnaða hönnun heldur einnig að Íslendingar láti sig varða aðstæður bágstaddra barna. Afraksturinn af sölu bolsins mun sannarlega koma að góðum fyrir okkar þarfa verkefni í Tógó,“ segir Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Skiptir okkur miklu máli

„Það skiptir okkur miklu máli hjá 66°Norður að gefa tilbaka og bjóða okkar viðskiptavinum að taka þátt í að styðja við svona mikilvægt samfélagsverkefni. Starfsemi SOS Barnaþorpanna er til fyrirmyndar og árangur af þeirra verkefnum fjölþættur sem hefur sannarlega áhrif á líðan og tækifæri barna,” segir Fannar Páll Aðalsteinsson markaðsstjóri 66°Norður.

Ragnar framkvæmdastjóri og Hans Steinar Bjarnason upplýsingafulltrúi veittu framlagi Rúriks viðtöku fyrir hönd SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Nýlegar fréttir

Börnin í Líbanon heil á húfi
16. okt. 2024 Almennar fréttir

Börnin í Líbanon heil á húfi

SOS Barnaþorpin í Líbanon hafa staðfest að öll börn og ungmenni á framfæri samtakanna í landinu eru heil á húfi. Stríðsástandið í landinu hefur þó áhrif á börnin sem áfram er hlúð vel að.

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan
8. okt. 2024 Almennar fréttir

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan

Þúsundir Íslendinga hafa lagt neyðarsöfnunum SOS Barnaþorpanna lið á árinu með smærri og stærri framlögum. Nú í október barst rausnarlegt framlag frá félagsskap nokkurra kylfinga í Golfklúbbnum Oddi, ...