Opnuðu útisnyrtistofu og söfnuðu fyrir SOS
Við fengum heldur betur ánægjulega heimsókn á skrifstofuna okkar í gær. Hingað komu tvær 6 ára dömur, Hildur og Antonía, með 5.500 krónur sem þær söfnuðu fyrir SOS Barnaþorpin. Þær settu á laggirnar snyrtistofu úti í garði heima hjá annarri þeirra í Hlíðahverfinu í Reykjavík og máluðu og naglalökkuðu konur í hverfinu sem greiddu 500 krónur fyrir snyrtinguna.
„Við bönkuðum upp á hjá fólki, sögðum að við hefðum verið að opna snyrtistofu og spurðum hvort þau vildu koma," sagði Antonía sem hefur þó ekki sett stefnuna á snyrtifræði í framtíðinni. „Ég ætla að verða atvinnumaður í fótbolta og hárgreiðslukona. Eða flugmaður eins og pabbi."
Við þökkum hinum hugmyndaríku Hildi og Antoníu kærlega fyrir að hugsa svona hlýtt til barna í erfiðum aðstæðum úti í heimi. Framlagi þeirra verður varið í Fjölskyldueflingu SOS á Tulu Moye svæðinu í Eþíópíu sem Fjölskylduvinir SOS á Íslandi fjármagna.
Nýlegar fréttir

Seinna SOS-blað ársins komið út
Seinna SOS-blað ársins er komið út og er það að venju aðgengilegt rafrænt hér á sos.is. Þetta er í annað sinn sem blaðið kemur út með breyttu fyrirkomulagi á dreifingu til styrktaraðila.

Viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna í Marokkó
Líf þúsunda barna breyttist þegar jarðskjálfti reið yfir Marokkó 8. september sl. og munu afleiðingarnar hafa áhrif á landið um ókomna tíð. Hér má lesa um útfærslu á viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna ...