Lilja Írena styrkir 10 börn hjá SOS
Flestir SOS-styrktarforeldar á Íslandi styrkja eitt barn en sumir fleiri. Lilja Írena Guðnadóttir og fjölskylda hennar í Stykkishólmi styrkja samtals tíu börn í SOS barnaþorpum víðsvegar um heiminn. Níu stúlkur og einn dreng.
Lilja er í forsíðuviðtali í nýjasta fréttablaði SOS Barnaþorpanna
Sjáðu myndband með viðtalinu við Lilju Írenu.
Uppeldisgildi fyrir synina
Lilja og eiginmaður hennar, Andrés, eiga þrjá syni, Björgvin Orra 10 ára, Friðrik Bjarna 8 ára og Böðvar Hlyn 4 ára. Lilja byrjaði árið 2003 að styrkja fimm ára dreng í barnaþorpi í Kenía. „Ætli það hafi ekki verið vegna þess að ég tók eftir neyðinni í heiminum og vildi gera eitthvað. Mig hefur alltaf langað til að ferðast um allan heiminn en ef ég þyrfti að velja myndi ég frekar vilja hjálpa um allan heim," segir Lilja sem frá árinu 2016 fór að bæta við sig SOS styrktarbörnum þangað til þau voru orðin alls tíu, fyrr á þessu ári.
„Það gerðist hægt og rólega að ég bætti við börnum en hluti af þessu er að mig langaði til að strákarnir mínir ættu styrktarsystkini úti. Ég paraði þá saman við stelpur úti í heimi sem eru á svipuðum aldri. Sem er mjög krúttlegt." Synir Lilju og Andrésar hafa svipuð áhugamál og styrktarsystur þeirra. Lilja segir að hún hafi sóst eftir því að styrkja stúlkur því þær séu berskjaldaðri fyrir ógn af ýmsu tagi eins og mansali og misnotkun og eigi minni möguleika á menntun. „Og svo fannst mér svolítið skemmtilegt að dreifa þessu um heiminn þannig að í dag erum við að styrkja barn í nánast hverri heimsálfu."
Ígildi tíundar
Það vekur óneitanlega athygli að ein og sama fjölskyldan hér á landi styrki tíu börn í gegnum SOS Barnaþorpin en Lilja vill ekki gera mikið úr því. „Við erum ekkert sérstaklega að tala um það út á við að við séum að styrkja tíu börn. Það er ekki tilgangurinn með þessu. Ég er í svona samfélagi þar sem fólk borgar tíund af sínum tekjum. Ég ákvað í raun að það færi ekki allt í kirkjuna heldur í þetta. Þannig kemur það til. Það skiptir í raun og veru ekki máli fyrir mig hvert peningurinn fer. Þetta er það málefni sem brennur mest á mér. Munaðarlaus börn."
Ekkert verra en að missa móður sína
Lilja varð fyrir miklu áfalli á unglingsárunum sem hún segir að hafi haft mikil áhrif á líf sitt. „Ég sjálf missti mömmu þegar ég var 15 ára og ég veit bara ekkert verra. Ég á rosalega góðar minningar og það sem mér finnst mikilvægast að allir fái að upplifa er góð æska. Ef það er eitthvað sem ég get gert til að gera heiminn betri þá er það að stuðla að því að börn fái að hafa foreldra. Það er bara ofboðslega mikið af börnum eiga enga foreldra og eiga engan að."
Fólk feimið að tala um þetta
Synir Lilju eru með myndir af styrktarsystrum sínum uppi á vegg inni í herbergi og svo er heimskort á vegg á herbergjaganginum þar sem merkingar og myndir eru fyrir hvert og eitt styrktarbarn. Fjölskylda og vinir vita af þessum öfluga stuðningi við SOS Barnaþorpin og eiga það til að undrast hversu mörg börn fjölskyldan styrkir. „Fólk er alveg feimið að tala um það. Ég get ímyndað mér að fólk haldi að við séum ekki að styrkja öll þessi börn á sama tíma. Fólk er feimið við að brydda upp á þessu við okkur. Þetta er eitthvað sem ég held að fólki finnist einkennilegt," segir Lilja en þess má þó geta að um níu þúsund Íslendingar eru að styrkja börn í gegnum SOS Barnaþorpin. „Já, ég rekst oft á fólk sem er að styrkja börn hjá SOS."
Gerir synina víðsýnni
Synir Lilju hafa skrifað bréf til styrktarsystkina sinna og fengið svar til baka og hefur fjölskyldan sérstaklega mikla ánægju af því. Hún segir að það geri mikið fyrir syni sína að taka þátt í stuðningnum við SOS börnin. „Já, mér finnst það uppeldislegs eðlis að tengja þá svona á persónulegan hátt við einhvern sem hefur búið við bág kjör þó viðkomandi geri það ekki lengur. Þeir eru klárlega víðsýnni fyrir vikið."
Hætti að styrkja en fann drenginn aftur
Lilja þarf ekki að fletta upp í neinum möppum þegar hún telur upp SOS stúlkurnar sem hún paraði við syni sína. Hún man nöfnin og löndin utanbókar. Aðspurð finnst Lilju þessi börn standa upp úr af þeim tíu sem fjölskyldan styrkir en hún nefnir líka fyrsta barnið sem hún tók að sér að styrkja fyrir 17 árum. „Svo náttúrulega held ég rosalega mikið upp á hann Eric í Kenía sem var fyrsta styrktarbarnið. Hann var bara 5 ára þegar ég byrjaði að styrkja hann. Hann á svolítið stóran sess." Lilja þurfti að láta af stuðningi sínum við Eric í fjármálakreppunni en þegar birti til bað hún um að fá að halda áfram að styrkja hann. „Mér fannst mjög vænt um að það var hægt að finna hann aftur og ég gat haldið áfram með hann."
Ekki hefur komið til tals að heimsækja börnin í barnþorpin en Lilja var reyndar hársbreidd frá því að hitta Eric árið 2006. Þá var hún með hópi fólks í Kenía og stödd nálægt Eric en hún vildi ekki raska áætlun hópsins. „Svo komum við í borgina hans á leiðinni annað þannig að það var mjög skrýtið að fara ekki að heimsækja hann. Það var ekki hægt að koma því við þá."
Ættleiðingardraumur
Lilja finnur hjá sér mikla þörf fyrir að hjálpa öllum börnum sem á hjálp þurfa að halda þó hún viti að það sé ómögulegt. „Ég hef lengi haft þennan ættleiðingardraum, að geta bjargað öllum heiminum og svoleiðis. En það er takmarkað sem maður getur gert. Það er svo gott fyrirkomulag hjá SOS að það sé fólk í heimalandinu sem getur sinnt þessum börnum."
Forréttindi að vera vesturlandabúi
Þá hefur það líka hjálpað Lilju og fjölskyldu á erfiðum tímum að hugsa til styrktarbarnanna sinna. „Þegar manni finnst allt einhvern veginn erfitt í lífinu, að geta huggað sig við það að maður er að koma einhverju góðu til leiðar. Það eru svo mikil forréttindi að vera vesturlandabúi og hugsandi til þess hvað það er mikil neyð í heiminum þá finnst mér það vera siðferðisleg skylda okkar að aðstoða," segir Lija og nefnir sem dæmi gildismat okkar Íslendinga.
„Við erum að velta fyrir okkur vandamálum eins og að okkur langi svo í hjólhýsi. Þetta er svona atriði sem skiptir engu mái í stóra samhenginu. Mér finnst ég í raun vera að gera ósköp lítið. Mér finnst þetta gera okkur þakklátari fyrir það sem við höfum."
Nýlegar fréttir
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.
Yfir 19 milljónir barna í Súdan ganga ekki í skóla
Framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Súdan segir neyðarástandið í landinu eiga eftir að skilja eftir ör á sál landsmanna. Milljónir eru á flótta vegna borgarastríðs og daglega verða yfir hundrað manns...