Gerast styrktarforeldri

Hvað er styrktarforeldri?
Gerast styrktarforeldri

Já, ég vil bjarga barni og gerast styrktarforeldri

Þú gefur umkomulausu barni fjölskyldu á ástríku heimili sem við höfum byggt. Barnið fer í skóla og fær öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir af barninu þínu og þér er velkomið að heimsækja það og/eða senda því bréf og gjafir. Framlag þitt (3900 kr/mán eða 128 kr á dag) fer í framfærslu þíns styrktarbarns og velferð þess.

85% upphæðarinnar renna óskipt til barnsins. 15% af framlögunum nýtast í umsýslu, eftirlit með þorpunum og öflun nýrra stuðningsaðila. 

Með því að gerast styrktarforeldri leiðir þú illa statt barn í gegnum æskuárin og sérð til þess að það fái tækifæri sem það annars ætti enga möguleika á. Þú kynnist barninu, færð af því myndir og fréttir og átt þess kost að skrifa því, gefa því gjafir og jafnvel heimsækja það.

Barnið fær að vita að þú hjálpar því og stuðlar að betra lífi þess og þú færð kjörið tækifæri til að segja því frá Íslandi í máli og myndum - ef þú vilt.

Með því að gerast styrktarforeldri barns stígur þú mikilvægt skref. Þetta skref mun breyta lífi barns úti í heimi til hins betra og það mun án efa einnig veita þér ánægju.

HVAÐ GERA STYRKTARFORELDRAR?tpa-picture-64544.jpg
Þegar þú ákveður að gerast styrktarforeldri barns verður þú nokkurs konar frændi eða frænka þess í fjarlægu landi sem lætur sig varða velferð þess.

Sumir styrktarforeldrar vilja skrifa börnunum og jafnvel heimsækja þau. Aðrir skrifa aldrei. Þú ræður alveg hvernig þú hagar samskiptum við þitt styrktarbarn.

En allir styrktarforeldrar eiga eitt sameiginlegt: Þeir vilja sjá til þess að barn sem ekki getur búið með sinni eigin fjölskyldu fái upplifað öryggi í SOS fjölskyldu, fái tækifæri til mennta, starfsþjálfun og góðan almennan undirbúning fyrir lífið.

Margir styrktarforeldrar styðja barnið alla leið til sjálfstæðis en ef þú þarft að hætta fyrr af einhverjum ástæðum þarftu ekki að hafa áhyggjur af barninu - við ábyrgjumst áframhaldandi velferð þess og finnum því nýtt styrktarforeldri.

HVAÐA BÖRN VANTAR STYRKTARFORELDRA?tpa-picture-67680.jpg
SOS Barnaþorpin taka við þeim börnum sem misst hafa foreldra sína eða geta ekki búið hjá foreldrum sínum af einhverjum ástæðum. Mörg þessara barna hafa gengið í gegnum hræðilega hluti áður en þau koma til SOS og eru í mikilli þörf fyrir ást, þolinmæði og stuðning fagfólks á borð við sálfræðinga til að lækna sárin.

Barnið fær SOS móður (stundum föður líka) sem annast það eins og það væri hennar eigið. SOS móðirin mætir þörfum barnsins fyrir ástúð og umhyggju og leiðir það í gegnum æskuárin og til sjálfstæðis. Jafnvel eftir að „börnin“ eru flogin úr hreiðrinu og hafa stofnað sínar eigin fjölskyldur snúa þau reglulega aftur „heim“ í barnaþorpið til að heilsa upp á SOS mæður sínar og „ömmur“ barna sinna.

ER HÆGT AÐ VELJA SÉR BARN EFTIR ÚTLITI?63830.JPG
SOS Barnaþorpin virða rétt skjólstæðinga sinna til persónuverndar og því er ekki hægt að skoða myndir á heimasíðu okkar af börnum í neyð og velja sér styrktarbarn eftir útliti. Við birtum heldur ekki nöfn þeirra barna sem þarfnast stuðnings.

HVAÐ FÆ ÉG GAMALT BARN?
Styrktarforeldrar geta átt von á að fá börn á aldrinum 0-14 ára. Liggi sérstakar ástæður að baki geta væntanlegir styrktarforeldrar lagt fram óskir um aldur barns.

BRÉF OG UPPLÝSINGAR FRÁ BARNAÞORPUNUMtpa_picture_35247.jpg
Styrktarforeldrar fá bréf tvisvar á ári frá barnaþorpinu. Fyrra bréfið er yfirleitt sent út á tímabilinu júní – september. Í bréfinu eru upplýsingar um barnið ásamt almennum upplýsingum um barnaþorpið.

Síðla árs fá svo styrktarforeldrar jólakveðju úr barnaþorpinu ásamt fréttum af því helsta sem gerðist í þorpinu það árið ásamt upplýsingum um önnur verkefni samtakanna á staðnum. Í flestum tilvikum fylgir kveðjunni ný mynd af barninu hafi hún ekki borist fyrr á árinu.

Auk ofangreindra bréfa fá styrktarforeldrar fréttabréf SOS Barnaþorpanna á Íslandi þrisvar á ári líkt og aðrir styrktaraðilar samtakanna.

Börnunum sjálfum er frjálst að skrifa styrktarforeldrum sínum og sum þeirra (einkum þau eldri) nýta sér þann möguleika.

AÐ SKRIFA BARNI
Styrktarforeldrum er velkomið að skrifa börnum sínum og þykir börnunum alltaf gaman að fá bréf frá útlöndum. Ekki er þó hægt að senda þeim tölvupóst. Hér eru nokkrar hagnýtar upplýsingar viljir þú senda barni þínu í SOS Barnaþorpi bréf.

  • Þegar þú gerðist styrktarforeldri fékkst þú sendar upplýsingar um barnaþorpið og þar kemur fram á hvaða tungumáli bréfið skal vera og hver utanáskriftin er (einnig er hægt að nálgast utanáskriftina inn á Mínum síðum).
  • Utan á umslagið skrifar þú utanáskriftina. Nafn barnsins skrifar þú hins vegar ekki á umslagið heldur aðeins á bréfið sjálft.
  • Best er að hafa bréfin stutt og á einföldu máli.
  • Þú getur skrifað um daglegt líf á Íslandi, fjölskylduna þína, áhugamál og það annað sem þú heldur að barnið gæti haft áhuga á.
  • Hafðu í huga að menningarheimur barnsins er gjörólíkur þínum (í flestum tilvikum). Gildismat, hefðir og lífsgæði á því svæði sem barnið býr á geta því verið mjög frábrugðin því sem Íslendingar eiga að venjast og biðjum við þig að taka tillit til þess.
  • Gaman er fyrir barnið að fá myndir af þér, fjölskyldu þinni, heimili og umhverfi. Hafðu þó í huga að sums staðar geta myndir af fólki í léttum sumarfatnaði virkað illa á fólk.
  • Barnið getur sent þér bréf ef það vill. Þrátt fyrir að sum börn hafi gaman af því að skrifa styrktarforeldrum sínum bréf á það ekki við um öll börn og biðjum við styrktarforeldra að sýna því skilning.

Landsskrifstofa SOS í hverju landi sér um að samræma starf barnaþorpanna og sér til þess að starfsemi þeirra sé í samræmi við alþjóðlegar reglur samtakanna. Landsskrifstofurnar eru tengiliðir þorpanna við styrktaraðila og sjá um þýðingar á bréfum. Þannig minnkum við álag á starfsfólk barnaþorpanna til mikilla muna.

PENINGAGJAFIR TIL BARNANNAtpa-picture-76968.jpg
Styrktarforeldrar geta gefið börnum sínum peningagjafir fyrir utan föstu mánaðarlegu greiðslurnar. Margir senda börnum sínum slíkar gjafir þegar þau eiga afmæli, þegar skóla lýkur eða í tengslum við hátíðir, t.d. jól.

Styrktarforeldrar geta haft samband við skrifstofu barnaþorpanna og fengið senda heim gjafagíróseðla sem greiða má í heimabanka eða næsta bankaútibúi.

Einnig má leggja gjafir til barnanna inn á reikning 0334-26-51092, kt.500289-2529. Mikilvægt er að kennitala styrktarforeldris komi fram svo rétt barn fái gjöfina.

Þær peningagjafir sem greiddar eru með gjafaseðlunum fara óskiptar til viðkomandi barns. Peningarnir eru lagðir inn á sparireikning í viðkomandi landi á nafni barnsins og fær barnið svo peninginn þegar það yfirgefur þorpið og fer að standa á eigin fótum.

Þegar styrktarbarni er gefið peningagjöf fær styrktarforeldri sent þakkarbréf frá skrifstofu SOS Barnaþorpanna þar sem staðfest er að gjöfin hafi borist. Bréfið er sent í tölvupósti ef styrktarforeldri er með skráð netfang hjá SOS, annars er bréfið sent í bréfpósti.

Vinsamlegast sendið börnunum ekki peninga í pósti.

PAKKAR TIL BARNANNAtpa-picture-67576.JPG
Við ráðleggjum þeim styrktarforeldrum sem vilja senda börnum sínum gjafir að greiða gjafaseðlana og leggja þannig grunn að fjárhagslegu sjálfstæði barnsins þegar það yfirgefur þorpið. En viljir þú senda pakka til barnsins þá mælum við með litlum gjöfum sem komast fyrir í umslag, s.s. límmiða, hárspennur, ritföng, fatnað o.þ.h.

Það hefur sýnt sig að stórar og dýrar gjafir sem sendar eru með pósti skila sér síður til barnanna. Mörg SOS Barnaþorp eru í löndum þar sem póstþjónustan er dræm og algengt er að pakkar skemmist eða „týnist“. Þá eru víða lagðir háir tollar á slíkar sendingar og kostnaðurinn við að leysa sendinguna út getur orðið meiri en verðmæti innihaldsins. SOS Barnaþorpin hafa ekki tök á að reyna að hafa uppi á póstsendingum sem ekki skila sér í þorpin.

HEIMSÓKN Í SOS BARNAÞORP
Styrktarforeldrar geta heimsótt barnið sitt í þorpið. Það er stór dagur í lífi hvers barns þegar styrktarforeldrar þess koma í heimsókn. Styrktarforeldrar eru þó beðnir um að taka eins mikið tillit til barnsins, fjölskyldu þess og allra í þorpinu og kostur er þegar þeir heimsækja þorpið.

UNDIRBÚNINGUR HEIMSÓKNAR
Mikilvægt er fyrir alla aðila að heimsókn styrktarforeldra í þorpið takist sem best. Því biðjum við styrktarforeldra sem huga á heimsókn að láta skrifstofu SOS Barnaþorpanna á Íslandi vita um fyrirhugaða heimsókn með eins mánaðar fyrirvara.

Skrifstofan veitir þér svo allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir heimsóknina og sér til þess að barnið sé í þorpinu þegar þú kemur og að tekið verði á móti þér. Þú munt einnig fá leiðsögn um þorpið og túlk ef þess þarf. Viljir þú taka með þér gjöf til barnsins eða barnaþorpsins mun skrifstofan afla upplýsinga um hvort einhverjar gjafir séu sérstaklega æskilegar eða óæskilegar.


 
 
(Við afhendum þriðja aðila aldrei persónulegar upplýsingar um styrktarforeldra, þó með þeirri undantekningu að nöfn styrktarforeldra eru send bæði landsskrifstofu SOS í viðkomandi landi og alþjóðaskrifstofunni í Vínarborg í Austurríki, en slíkt er nauðsynlegt til að halda utan um hið mjög svo stóra styrktarkerfi SOS Barnaþorpanna.)