Fréttayfirlit 22. nóvember 2024

Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum

Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum

Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Markmið herferðarinnar er að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til að láta rödd sína heyrast í þeim tilgangi að krefjast friðar og verndar fyrir börn á stríðshrjáðum svæðum.

Að „stappa fyrir friði“ er tilvísun í þá tilhneigingu barna að stappa niður fótunum þegar þau verða mjög reið og eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Það er þeirra leið til að tjá sig og krefjast þess að á þau sé hlustað.

Sjá einnig: Af hverju stappa börn niður fótunum?

Fullsetinn salur

William Freyr Huntingdon-Williams, sendiráðunautur í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sat viðburð SOS Barnaþorpanna í New York á þriðjudag, 19. nóvember. Hann segir að viðburðurinn hafi verið vel sóttur og fullsetið í salnum.

„Þar var lögð áhersla á að hlusta á raddir og skilaboð barna, m.a. frá Íslandi, sem kalla eftir friði og stöðugleika í heiminum og vernd og virðingu fyrir réttindum barna. Þá voru langvarandi áhrif ófriðar á líf barna rædd og hvað alþjóðasamfélagið geti gert til að koma í veg fyrir og bundið enda á stríðsátök. Þá var einnig minnt á þá sérstöðu sem Barnasáttmálinn hefur, þ.e. að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu,“ segir William.

Viðburðurinn góð áminning

Hann bætir við að á meðal helstu áherslna Íslands í mannréttindamálum séu mannréttindi og velferð barna. „Fastanefndin í New York fylgir stefnu Íslands í mannréttindamálum eftir með virkum hætti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem miðar m.a. að því að standa vörð um réttindi barna. Því var það fastanefndinni sannarlega ljúft og skylt að taka þátt í viðburði dagsins og ljá málefninu áframhaldandi lið og stuðning.  Viðburðurinn var góð áminning um að vinna áfram saman að réttindum og hag barna sem og að stuðla að friði og stöðugleika í heiminum,“ segir William.

Íslensk börn í herferðinni

Börn hafa fengið nóg af stríði og í herferðinni „Stappað fyrir friði“ krefjast þau þess að börn á stríðshrjáðum svæðum njóti verndar eins og þau eiga rétt á samkvæmt Barnasáttmálanum. Íslensk börn eru þátttakendur í alþjóðlegu herferðinni.

Bóas og Hugrún í 7. bekk í Hofsstaðaskóla sögðu frá hugleiðingum sínum um stríð og börn í sjöundu bekkjum Hlíðaskóla stöppuðu fyrir friði. Börn hafa fengið nóg af stríði og í herferðinni Stappað fyrir friði krefjast þau friðar og að börn njóti verndar samkvæmt Barnasáttmálanum.

Ég hugsa oftast að það er rosalega gott að búa á Íslandi, það er ekki oft gott veður en það er oftast gott að búa á Íslandi. Af því að það er ekki stríð. Hugrún, 12 ára í Hofsstaðaskóla
Ég hugsa stundum hvað myndi gerast ef það kæmi [stríð] til Íslands. Maður geti verið úti að leika sér og allt í einu kæmu sprengjur eða eitthvað. Bóas, 12 ára í Hofsstaðaskóla

Nýlegar fréttir

SOS blaðið 2024 komið út
28. nóv. 2024 Almennar fréttir

SOS blaðið 2024 komið út

SOS-blað ársins er komið út og er það aðgengilegt öllum rafrænt hér á vefsíðu okkar. Í blaðinu er viðtal við hina tíbetsku Sonam Gangsang sem ólst upp í SOS barnaþorpi á Indlandi og heimsótti fyrrvera...

Af hverju stappa börn niður fótunum?
20. nóv. 2024 Almennar fréttir

Af hverju stappa börn niður fótunum?

Alþjóðlegur dagur barnsins er í dag á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. SOS Barnaþorpin ýttu í dag úr vör herferð með þeim tilgangi að útvega börnum þann vettvang sem þau eiga rétt á til...