Börnin í Líbanon heil á húfi

Eins og reglulega er greint frá í fréttum ríkir mikill ófriður í Mið-Austurlöndum og stigmagnast nú átökin í Líbanon. SOS Barnaþorpin hafa starfað í Líbanon síðan 1969 og þar eru um 100 börn og ungmenni á framfæri samtakanna allan sólarhringinn. 46 þeirra eru styrkt af SOS foreldrum á Íslandi.
Við getum upplýst íslenska SOS foreldra barna í Líbanon um að öll þessi börn eru heil á húfi. SOS Barnaþorpin í Líbanon fylgjast grannt með þróun öryggismála. Nýlega voru börn og starfsfólk SOS barnaþorpsins í Ksarnaba flutt í SOS barnaþorpið í Kfarhay í norður Líbanon til að tryggja öryggi þeirra. Það er í algerum forgangi hjá SOS Barnaþorpunum að viðhalda öruggu og nærandi umhverfi fyrir börnin og hefur starfsfólk okkar í Líbanon endurskipulagt starfsemina þar að lútandi.
Reynir á börnin
Stríðsástandið hefur reynt talsvert á börnin, sérstaklega þau sem eru frá sex ára aldri og upp úr. Þau hafa áhyggjur af heimilum sínum, vinum og skólagöngu. Vel er hugsað um börnin í okkar umsjá og sem fyrr er áhersla lögð á sálrænan stuðning. Börnin eru og verða áfram á okkar framfæri og framlög SOS foreldra skipta því áfram miklu máli.
Við þökkum íslenskum SOS foreldrum kærlega fyrir stuðninginn við börnin í Líbanon.

Nýlegar fréttir

Ástandið versnar hratt á Gasa - SOS gefur út yfirlýsingu
Mannúðarástandið á Gasa í Palestínu hefur versnað hratt á síðustu dögum og SOS Barnaþorpin eru meðal hjálparsamtaka sem glíma við hindranir í starfi þar.

Súdanir eygja von í mestu mannúðarkrísu í heimi
Rúmlega 500 manns sneru á dögunum aftur heim til sín með aðstoð SOS Barnaþorpanna í Súdan eftir á annað ár á vergangi. Þó þessir flutningar gefi fólki í landinu von er enn langt í land því innviðir la...