Fréttayfirlit 24. febrúar 2022

Börn og fjölskyldur flutt til vestur Úkraínu

Börn og fjölskyldur flutt til vestur Úkraínu


Eins og þú hefur eflaust tekið eftir í fréttum réðist rússneski herinn inn í Úkraínu í nótt og hafa sprengjuárásir verið gerðar um nánast allt landið. Á upplýsingafundi með framkvæmdastjóra SOS Barnaþorpanna í Úkraínu kom fram að eftir því sem best er vitað séu allir skjólstæðingar SOS Barnaþorpanna, börn og starfsfólk, heil á húfi en ástandið er þó viðkæmt og grafalvarlegt.

Flúðu í sprengjubyrgi hjá barnaþorpinu

SOS barnaþorp er í bænum Brovary í útjaðri höfuðborgarinnar Kænugarðs þar sem sprengjuárás var gerð í morgun og allir sem þar voru komust í skjól í sprengjubyrgi. Barnaþorpið hefur nú verið rýmt. Um 80 börn og fjölskyldur þeirra í Luhanks héraði í austurhluta landsins hafa verið flutt um set til vestur Úkraínu til að tryggja öryggi þeirra og draga úr hættunni á að þau upplifi ótta og kvíða.

SOS í Rússlandi og Úkraínu í sama liði

„Við upplifum okkur algerlega hjálparlaus. Forgangsmál okkar núna eru að vernda eins mörg börn og við getum," segir Serhii Lukashov, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Úkraínu. „Ég er í nánu sambandi við SOS Barnaþorpin í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Við erum í sama liði - í liði með börnunum. Við munum halda áfram að vernda börnin fyrir hryllingi stríðsins."

50 Íslendingar styrkja börn í Úkraínu

50 Íslendingar eru SOS-foreldrar barna í Úkraínu en þar eru um 150 börn og ungmenni í umsjá SOS. Þau búa ýmist með fósturfjölskyldum sínum í barnaþorpinu í Brovary eða hjá fósturfjölskyldum sem studdar eru af SOS Barnaþorpunum og eru undir eftirliti samtakanna og á ábyrgð þeirra.

Starfsemi SOS í Úkraínu

Starfsemi SOS Barnaþorpanna í Úkraínu hófst árið 2003 með fjölskyldueflingu og árið 2010 var barnaþorp sett á laggirnar í Brovary sem er í útjaðri höfuðborgarinnar Kænugarðs. Árið 2012 hófst svo starfsemi SOS í Lugansk í austurhluta Úkraínu. Starfsemin er mjög víðtæk og nær til um um 2.300 einstaklinga, allt í þágu barna.

Neyðaraðstoð frá Íslandi

Áætlað er að á þriðja milljón Úkraínumanna muni leggja á flótta eða verða á vergangi í heimalandi sínu. Ljóst er að SOS Barnaþorpin í Úkraínu munu þurfa mikla aðstoð á næstunni og eru landssamtök SOS víða um heim að undirbúa söfnun. Þó börn og starfsfólk SOS hafi ekki orðið fyrir líkamstjóni er fólk í áfalli og mun SOS m.a. veita sálræna aðstoð.

Stjórn SOS á Íslandi hefur þegar ákveðið að leggja til 5 milljónir króna í neyðaraðstoð til SOS í Úkraínu og á morgun föstudag hefjum við formlega neyðarsöfnun þar sem almenningi gefst kostur á að leggja sitt af mörkum.

Við höldum áfram að fylgjast með þróun mála.

Nýlegar fréttir

Sumarbúðir fyrir stríðshrjáð börn í Úkraínu
8. okt. 2025 Almennar fréttir

Sumarbúðir fyrir stríðshrjáð börn í Úkraínu

SOS Barna­þorp­in fjár­magna fjöl­mörg umbóta- og mannúðarverk­efni í þágu velfarðar barna og ungmenna víða um heim með stuðningi Íslendinga. Nú í september lauk vel heppnuðum sumarbúðum í Úkraínu fyr...

Svör við algengum spurningum styrktaraðila vegna Gaza
17. sep. 2025 Almennar fréttir

Svör við algengum spurningum styrktaraðila vegna Gaza

Íslenskir styrktaraðilar vilja eðlilega vita hvort og hvernig framlög þeirra eru að nýtast í þeim aðstæðum sem ríkja á Gaza. Að venju viljum við halda Íslendingum upplýstum um nýtingu á framlögum þeir...