Ásakanir á hendur stofnanda SOS
Í september s.l. birtu fjölmiðlar í Austurríki fréttir um illa meðferð á börnum í barnaþorpum í Austurríki á árunum 2008 til 2020. Í kjölfarið komu í ljós gamlar ásakanir á hendur stofnanda samtakanna sem lést árið 1986.
Í framhaldi af fréttunum í september setti stjórn austurrísku landssamtakanna á fót óháða rannsóknarnefnd til að skoða málið. Nefndin fékk aðgang að öllum gögnum og komst fljótt að því að austurrísku landssamtökunum höfðu borist ásakanir á árunum 2013 til 2023 á hendur stofnanda samtakanna, Hermann Gmeiner, sem lést fyrir 39 árum. Ásakanirnar snúa að líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi gegn átta drengjum í fjórum barnaþorpum í Austurríki.
Niðurstöður gerðar opinberar
Rannsóknarnefndin upplýsti strax um þessar ásakanir. Hún hefur nú þessi mál til frekari rannsóknar og hefur kallað eftir upplýsingum frá hverjum þeim sem þær kann að hafa. Niðurstöður nefndarinnar verða gerðar opinberar þegar þar að kemur.
SOS Barnaþorpin í Austurríki veittu þolendunum átta stuðning eftir að þeir leituðu til samtakanna og greiddu þeim bætur. Hinsvegar upplýstu landssamtökin ekki um þessi mál, hvorki yfirvöld né alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna líkt og þau hefðu átt að gera.
Í framhaldinu ákvað alþjóðastjórn SOS Barnaþorpanna að víkja austurrísku landssamtökunum úr hreyfingunni tímabundið. Þau starfa þó áfram en njóta ekki sömu réttinda og önnur aðildarlönd.
Mikið áunnist
SOS Barnaþorpin hafa á heimsvísu gengið í gegnum ítrekaðar og ítarlegar úttektir og rannsóknir á undanförnum árum, flestar unnar að beiðni samtakanna sjálfra. Höfum við á Íslandi m.a. beitt okkur í því að fá mál rannsökuð. Send hafa verið út áköll til fyrrum skjólstæðinga SOS Barnaþorpanna um að stíga fram hafi þeir orðið fyrir brotum í umsjá samtakanna.
Ýmislegt miður hefur komið í ljós og má segja að samtökin hafi gengið í gegnum algjöra endurnýjun á síðustu árum hvað skipulag, öryggismál og velferð barna varðar. Þessi gömlu mál hefðu því átt að koma upp miklu fyrr og á þeim tekið af festu og fagmennsku samhliða öðrum brotum fortíðar sem áður hafði verið upplýst um.
Rannsókn þessa máls er sem fyrr segir á hendi óháðrar rannsóknarnefndar í Austurríki og hafa austurrísku landssamtökin þegar brugðist við með ýmsum aðgerðum. Hægt er að kynna sér málið betur á heimasíðu þeirra.
Fyrsta SOS barnaþorpið var reist í Imst í Austurríki. Framkvæmdir við það hófust árið 1949.
Afstaða SOS Barnaþorpanna á Íslandi
Við hjá SOS Barnaþorpunum á Íslandi hörmum mjög að börn í umsjá SOS Barnaþorpanna, hvort sem það er í Austurríki eða annars staðar, skuli hafa verið beitt misrétti og ofbeldi. Slíkt á ekki að gerast og má aldrei líðast. Við fögnum því hinsvegar að þessi mál hafi loks verið gerð opinber og við þeim brugðist á viðeigandi hátt, enda ber starfsfólki okkar að fara eftir lögum og reglum.
Við styðjum ákvörðun alþjóðastjórnar um að víkja austurrísku landssamtökunum úr hreyfingunni tímabundið og vonum að þau noti næstu mánuði til að styrkja sig, sýna fram á að þau séu verðug aðildarsamtök og endurheimta glatað traust.
Um allan heim er starfsfólk SOS Barnaþorpanna harmi slegið vegna þessara atburða úr fortíðinni og að sjálfur stofnandinn skuli hafa misnotað traust barna sem hann og samtökin gáfu sig út fyrir að vernda. Innan samtakanna ríkir eining um að fordæma öll brot gegn börnum og vinna enn betur að því að vernda börnin í okkar umsjá, enda hafa samtökin unnið gríðarlega mikilvægt starf áratugum saman í þágu umkomulausra barna. Sú vinna má ekki leggjast af.
Við viljum, getum, verðum og ætlum að gera betur.
Nýlegar fréttir
Skrifstofan opnar aftur
Skrifstofa SOS Barnaþorpanna í Hamraborg 1 í Kópavogi opnar aftur mánudaginn 3. nóvember. Reykskemmdir urðu á skrifstofu okkar af völdum eldsvoða í byggingunni og þurftum við af þeim völdum að loka sk...
39 þolendur fengu stuðning og sex gerendur voru kærðir
Verkefni SOS Barnaþorpanna í Tógó sem fjármagnað er af Íslendingum, „Efling baráttunnar gegn kynferðislegri misnotkun á börnum í Ogou-héraði“, hefur skilað áþreifanlegum árangri. 39 þolendur fengu stu...