Fréttayfirlit 21. desember 2020

6 ára safnaði 40 þúsund krónum með Instagram ákalli

6 ára safnaði 40 þúsund krónum með Instagram ákalli

Elena Mist, 6 ára í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ, er að fylgjast með Öðruvísi jóladagatali SOS Barnaþorpanna í fyrsta sinn. Að venju gefst börnum kostur á að safna pening fyrir SOS Barnaþorpin með ýmsum hætti í tengslum við jóladagatalið og vildi Elena ganga í hús til að safna. Henni fannst það þó ekki ráðlegt í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu en dó ekki ráðalaus.

Elena Mist tók upp vídeóávarp þar sem hún hvatti fólk til að gefa í söfnunina og fékk móður sína, Svanhildi Mar, til að birta það á samfélagsmiðlum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og safnaði Elena Mist 40 þúsund krónum.

„Fólk tók mjög vel í þetta og lagði inn á reikninginn. Það tók bara fjóra daga að safna þessari upphæð. Henni fannst mjög leiðinlegt að geta ekki gengið í hús svo hún fór í baukinn sinn og gaf úr eigin sjóði. Hún átti þrjá þúsundkalla í bauknum og ég spurði hana hvort hún vildi gefa einn af þeim til SOS Barnaþorpanna. Hún vildi gefa tvo þúsundkalla en eiga einn sjálf. Hún sagði að börnin úti í heimi þyrftu meira á þeim að halda," sagði Svanhildur í samtali við heimasíðu SOS.

Þótt ung sé að árum er Elena Mist vön því að láta gott af sér leiða. „Hún hefur líka verið að gefa föt og leikföng til Rauða krossins. „Hún er með svo stórt hjarta," sagði Svanhildur.

SOS Barnaþorpin þakka Elenu Mist fyrir þetta hjartahlýja framtak. Öll framlög sem safnast í jóladagatalinu í ár fara í verkefni SOS Barnaþorpanna í Tógó sem berst gegn ofbeldi og kynferðislegri misneytingu á börnum, þá sérstaklega stúlkum, þar í landi. Verkefnið nær til 40.000 íbúa á svæðinu auk þess sem 640 barnafjölskyldur fá sérstakan stuðning og fræðslu.

Stakt framlag

Gefa stakt framlag

Stakt framlag

Þú getur styrkt starf SOS Barnaþorpanna með frjálsum, stökum framlögum þegar þér hentar. Þannig tekur þú þátt í að skapa þann fjárhagslega grunn sem gerir samtökunum kleift að byggja ný barnaþorp, sinna uppbyggingu og halda úti umbótaverkefnum um heim allan. SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármagna fjölmörg verkefni víða um heim með frjálsum framlögum - allt í þágu barna!

Styrkja