Fréttayfirlit 24. júlí 2025

500 dagar frá dramatískri rýmingu barnaþorpsins á Gaza



Í dag eru sléttir 500 dagar liðnir síðan SOS Barnaþorpin í Palestínu þurftu að rýma barnaþorpið í Rafah á Gaza. Frá árinu 2000 höfðu yfirgefin og munaðarlaus börn fengið þar nýtt heimili, fjölskyldu, skólagöngu og öllum hefðbundnum þörfum sínum mætt.

68 börn, 11 umönnunaraðilar og fjölskyldumeðlimir lögðu í spennuþrungna ferð yfir landamætin til Egyptalands, þaðan í gegnum Ísrael yfir á Vesturbakkann í SOS barnaþorpið í Bethlehem. Þessi rýming var nauðsynleg vegna yfirvofandi landhernaðar og var talinn tímabundin ráðstöfun til að fjarlægja börnin frá beinu hættusvæði. Eftir rýminguna var barnaþorpið í Rafah gjöreyðilagt í loftárásum Ísraela og jafnað við jörðu.

Svona var umhorfs í barnaþorpinu þegar það var fullt af lífi og gleði. Svona var umhorfs í barnaþorpinu þegar það var fullt af lífi og gleði.
Svona lítur barnaþorpið út í dag eftir að það var jafnað við jörðu. Svona lítur barnaþorpið út í dag eftir að það var jafnað við jörðu.

Yfir 19 þúsund börn hafa misst foreldra

Á Gaza hafa meira en 19.000 börn misst annað eða báða foreldra sína síðan stríðið hófst og nú stefnir í hungursneyð. Hjálparsamtök, þar á meðal Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, vara við fjöldadauða vegna hungurs á Gaza. Yfir hundrað manns hafa látið lífið úr hungri á undanförnum vikum, þeirra á meðal 80 börn. Þrátt fyrir vaxandi þörf hefur mannúðaraðstoð verið hervædd og aðgengi að henni haldist mjög takmarkað.

Mörg þeirra barna sem voru flutt frá Rafah fyrir 500 dögum höfðu þegar misst fjölskyldumeðlimi og upplifað áföll vegna stríðsátaka. En þrátt fyrir mikinn missi tala sum þeirra um að endurreisa líf sitt og elta drauma sína.

Tjaldbúðir SOS Barnaþorpanna á Gaza. Tjaldbúðir SOS Barnaþorpanna á Gaza.

Dreymir enn um að verða læknar, kokkar eða kennarar

Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu, segir að þrátt fyrir erfiðleikana tali mörg börnin og ungmennin enn með vonarfullum hætti um framtíðardrauma sína.

„Þau vilja verða læknar, kokkar, kennarar, verkfræðingar, listamenn – í hlutverkum þar sem þau geta hjálpað öðrum. Þau dreymir um frið, að komast aftur heim til Gaza og finna öryggi til að byggja upp líf sitt. Sum ungmennin hjá okkur vilja halda áfram námi og dreyma um þann dag að þau geti haldið áfram námi og fengið skólastyrki. Það sem þau þurfa mest er stöðugleiki og vernd sem gerir draumana mögulega,“ sagði hún.

Óstöðugleiki í öryggismálum á Vesturbakkanum hefur einnig valdið áhyggjum, sérstaklega frá og með janúar sl. Reglulegar hernaðarinnrásir hafa vakið upp fyrri áföll, einkum hjá börnum sem tengja hernaðarveru við eldri áföll á Gaza.

Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu. Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu.

Flutningur barnanna mögulegur með diplómatískum leiðum

SOS Barnaþorpin unnu í gegnum diplómatískar leiðir með öllum viðkomandi yfirvöldum til að koma börnunum til Betlehem, Vesturbakkans, þangað sem þau komu örugg 11. mars 2024. Börnin voru á aldrinum tveggja til fjórtán ára og höfðu misst forsjá foreldra sinna fyrir stríðið.

Þegar börnin komu fyrst í barnaþorpið í Bethlehem hóf starfsfólkið hvern dag á morgunverði  með þeim, en börnin hikuðu við að borða allt af diskunum. Þau voru nefnilega vön að deila litlu magni af mat og skildu ekki að þeim væri leyfilegt að borða allt saman.

„Snertir okkur djúpt að sjá börnin brosa og hlæja“

Frá rýmingu SOS barnaþorpsins á Rafah hafa börnin aðlagast vel skipulagðri daglegri rútínu, meðal annars skólagöngu, útivist um helgar, og skapandi og afþreyingarlegum athöfnum eins og íþróttum, listþjálfun, tónlistarnámskeiðum og söngtímum.

Um stöðu þeirra barna sem voru flutt á brott og líðan þeirra í dag segir Ghada Hirzallah:

„Við sjáum þau nú taka þátt í athöfnunum með gleði. Í skugga ótta og óstöðugleika snertir það okkur djúpt að sjá börnin brosa og hlæja. Þetta staðfestir mikilvægi nærveru okkar og verkefnaáætlana og minnir okkur á að jafnvel í hamförum er bati mögulegur með réttum stuðningi.“

Börnin sem voru flutt til Bethlehem stunda þar nám í barnaþorpinu. Börnin sem voru flutt til Bethlehem stunda þar nám í barnaþorpinu.

Verði tryggður réttur á endurkomu heim til Gaza

Önnur stór áskorun fyrir börnin er að yfirstíga djúpa tilfinningalega álagið sem fylgir því að vera aðskilin frá ættingjum eftir að þau misstu forsjá foreldra og þurftu að þola lífshættulegar aðstæður á Gaza. Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna hafa staðfastlega kallað eftir því að öllum flóttamönnum frá Gaza – þar með talið brottfluttu börnin og starfsfólk – verði tryggður réttur á endurkomu heim til Gaza svo þau geti endurreist líf sitt í öryggi og með reisn.

Börn sem ekki tókst að flytja frá Gaza, ásamt fleiri einangruðum börnum sem samtökin hafa nú umsjón með, búa í tjaldbúðum SOS Barnaþorpanna í Khan Younis, þar sem eldflaugar lenda svo nálægt sem 800 metrum frá þessu bráðabirgðavist þeirra.

Sjá einnig: Þetta vitum við um stöðuna hjá SOS í Palestínu

Svör við algengum spurningum

Við fengum Reem Alreqeb, verkefnastjóra SOS Barnaþorpanna á Gasa, til að svara nokkrum af fleiri helstu spurningum styrktaraðila.

1. Hvar eruð þið og börnin stödd núna?

Við erum nú í flóttamannabúðum í Khan Younis á Gasa. Við fluttumst hingað eftir að við urðum að yfirgefa barnaþorpið Rafah átakanna. Búðirnar voru settar upp sem bráðabirgðaskýli í neyð.

2. Hvernig er daglegt líf ykkar?

Hver dagur er barátta fyrir lífi. Við byrjum á að meta helstu þarfir, tryggja öryggi barnanna, reyna að útvega nægan mat og hreint vatn, og bregðast við heilsufars- eða sálrænum neyðartilfellum. Stór hluti dagsins fer í að leita að nauðsynjum eins og grænmeti eða brauði, oft á uppsprengdu verði, og sinna velferð barnanna í mjög streituvaldandi aðstæðum. Við lifum við stöðugan kvíða, fylgjumst stöðugt með öryggisástandinu á meðan sprengingar og fréttir af innrásum nálgast landið í kringum okkur.

3. Hve mörg börn eru undir ykkar umsjón og hvað eru þau gömul?

Við sjáum nú um 46 börn, allt frá nokkurra mánaða aldri og upp í 17 ára. Sum þeirra voru á flótta með okkur, en öðrum var vísað til okkar, þar á meðal börn sem hafa misst alla fjölskyldu sína eða voru aðskilin í rýmingum.

4. Hvers konar umönnun veitið þið þessum börnum?

Við veitum alhliða umönnun: skjól, næringu eftir fremsta megni með þeim úrræðum sem við höfum (ásamt kærleiksríkum umönnunaraðilum), sálræna skyndihjálp og tilfinningalegan stuðning. Við reynum einnig að skapa daglega rútínu með skipulögðum leik- og námsstundum – jafnvel undir tjaldi – því stöðugleiki skiptir miklu fyrir tilfinningalegan bata barnanna. Í teyminu okkar eru umönnunaraðilar, sálfræðingar og félagsráðgjafar sem leggja sig alla fram þrátt fyrir afar takmarkaðar bjargir. Við leitum einnig uppi ættingja barnanna og vinnum að fjölskyldusameiningu þar sem það er mögulegt.

5. Hverjar eru stærstu áskoranirnar sem börnin standa frammi fyrir núna?

Matarskortur og sálræn áföll eru brýnustu málin. Skortur á næringarríkum mat er mjög alvarlegur, sérstaklega fyrir yngri börn. Mörg sýna einkenni vanlíðanar, martraða, einangrunar og tilfinningalegs dofa. Þau hafa misst heimili sín, fjölskyldur og öryggistilfinningu. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er einnig nánast ekkert.

6. Hverjar verða helstu áskoranir barnanna í framtíðinni?

Fyrir utan að lifa stríðið af verður stærsta áskorunin að endurreisa líf sitt – finna ættingja, komast aftur í nám og jafna sig á áfallinu. Fyrir þau sem eiga enga fjölskyldu er óvissan um framtíðarumönnun og vernd mikið áhyggjuefni. Afleiðingar andlegra áfalla verða langvarandi og flóknar.

7. Hefurðu áhyggjur af framtíð þeirra barna sem hafa enga ættingja til að annast þau? Hver væri besti kosturinn fyrir þau?

Já, ég hef miklar áhyggjur. Þetta er eitt það erfiðasta við aðstæður okkar. Sum þessara barna fæddust utan hjónabands, önnur hafa misst alla ættingja í stríðinu. Þau eiga enga að sem geta gripið þau og framtíð þeirra er óviss.

Fyrir þau börn sem eiga einhverja ættingja vinnum við náið með Félagsmálaráðuneytinu að því að meta aðstæður áður en fjölskyldusameining fer fram. Við tryggjum að umhverfið sé öruggt og að umönnunaraðilar geti sinnt börnunum. Eftir að börn eru sameinuð fjölskyldum sínum fylgjum við þeim áfram eftir og grípum inn ef þörf krefur.

Fyrir börn fædd utan hjónabands hefur ráðuneytið heimilað fóstur fyrir þau sem vilja. Við aðstoðum við það ferli, og besti mögulegi kosturinn er að hvert barn fái öruggt og kærleiksríkt heimili þar sem réttindi þess eru virt og tilfinningalegum og þroskalegum þörfum þess sinnt.

8. Hvers konar áskorunum standið þið frammi fyrir við að sameina börn aftur fjölskyldum sínum?

Stríðið hefur gert leitina að ættingjum mjög erfiða. Margir hafa sjálfir verið á flótta eða búa á svæðum sem við náum ekki til. Jafnvel þegar við finnum ættingja er efnahagsástandið svo slæmt að þeir ráða illa við að annast barn. Við reynum að styðja þessar fjölskyldur með nauðsynjum og sálfélagslegum stuðningi í gegnum frændsemisverkefni til að gera fjölskyldusameiningu mögulega.

9. Er eitthvað fleira sem þú vilt að fólk viti um aðstæður ykkar og barnanna sem þið annist?

Þessi börn eru ekki bara fórnarlömb – þau eru seig, skörp og full af möguleikum. En seigla dugar ekki ein og sér. Þau þurfa brýna aðstoð núna – mat, hreint vatn, sálrænan stuðning – og þau þurfa langvarandi vernd og stöðugleika. Við gerum allt sem við getum, en án alþjóðlegs stuðnings og athygli eigum við á hættu að tapa heilli kynslóð til áfalls og vanrækslu. Þetta miskunnarlausa stríð verður að stöðva, og öll börnin eiga rétt á að fá allar grunnþarfir sínar uppfylltar.

Nýlegar fréttir

Ný fjölskylduefling í Úganda
16. júl. 2025 Fjölskylduefling

Ný fjölskylduefling í Úganda

Ný fjölskylduefling er hafin í Úganda sem fjármögnuð er af SOS Barnaþorpunum á Íslandi og styrktarðilum hér á landi, SOS-fjölskylduvinum. Í Úganda hjálpum við barnafjölskyldum út úr sárafátækt og vinn...

Skólasókn barna í Malaví hefur aukist um 227%
1. júl. 2025 Fjölskylduefling

Skólasókn barna í Malaví hefur aukist um 227%

Fjölskylduefling okkar í Malaví hefur gengið vonum framar og barnafjölskyldur í viðkvæmri stöðu hafa orðið sjálfbjarga í meira mæli en væntingar stóðu til um. Skólasókn barna hefur aukist um 227%. Þet...