SOS sögur 7.febrúar 2020

„Upplifum hana sem eina af okkur“

„Upplifum hana sem eina af okkur“

Pálína Sigurðardóttir í Reykjavík hefur verið SOS-foreldri tveggja barna í SOS barnaþorpinu Greenfields á Indlandi í 20 ár. Hún styrkti fyrst dreng í 13 ár sem er orðinn fullorðinn og frá árinu 2013 hefur hún styrkt stúlku sem er á fjórtánda aldursári í dag og heitir Suman.

Pálína vinnur á ungbarnaleikskóla og á tvær dætur með eiginmanni sínum, 11 og 13 ára. „Dætur mínar líta eiginlega á Suman sem systur sína þó þær hafi aldrei hitt hana. Við bara upplifum hana sem eina af okkur,“ segir Pálína.

Myndband um heimsókn okkar til Greenfields barnaþorpsins má sjá hér fyrir neðan. Í því er rætt við bæði Pálínu og Suman.

Foreldrarnir gátu ekki hugsað um hana

„Ég kom í barnaþorpið af því að foreldrar mínir gátu ekki séð um mig eða sent mig í skóla. Ég var 5 ára,“ segir Suman. Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS á Íslandi, hitti Suman og ræddi við hana þegar hann heimsótti SOS barnaþorpið í Greenfields í janúar sl. 

Heillar Pálínu upp úr skónum

Pálína fær bréf tvisvar á ári frá barnaþorpinu með fréttum og myndum af Suman og fær þannig að fylgjast með uppvexti hennar. „Ég sé Suman fyrir mér sem mjög lífsglaða stelpu. Hún er listræn, hefur gaman að því að mála, syngja og dansa. Ég hlakka alltaf til að fá að vita hvernig henni gengur. Hún heillar mig alveg upp úr skónum,“ segir Pálína.

Á níu SOS-systkini

Greenfields er fjölmennasta SOS barnaþorpið á Indlandi af 32 þorpum sem í landinu eru. Þarna búa yfir 190 börn í 20 SOS-fjölskyldum. „Ég á 9 systkini hérna, þetta eru sjö bræður og tvær systur. Ég er mjög hamingjusöm í svona stórri fjölskyldu vegna þess að við gerum margt skemmtilegt saman,“ segir Suman.

Veit að einu barni líður betur

Pálína segir að hún hafi byrjað að styrkja barn hjá SOS árið 2000 vegna þess að hún gat það, vildi láta gott af sér leiða og hafði engan að hugsa um nema sjálfa sig á þeim tíma.

„Það mikilvægast við að styrkja Suman er að þá veit ég alla vega að einu barni líður betur. Það eru allt of mörg börn sem eiga ekki þak yfir höfuðið. Að hún hafi heimili, menntun, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og allt þetta sem við höfum. Mér finnst að allir sem eru aflögufærir ættu að gera þetta.“

Suman finnst einna skemmtilegast að teikna. Suman finnst einna skemmtilegast að teikna.

Ætlar að verða raunagreinakennari

Suman hefur nú verið í barnaþorpinu í Greenfields í nærri 9 ár en hefur fært sig um set yfir á ungmennaheimili á vegum þorpsins eins og venjan er hjá jafnöldrum hennar í barnaþorpunum. Á ungmennaheimilunum eru kynin aðskilin og ungmennin hefja hinn eiginlega undirbúning fyrir fullorðinsárin, læra að hugsa um sig sjálf.

„SOS Barnaþorpin gáfu mér móður, fjölskyldu, bræður og systur, menntun, heimili og allt það sem ég þarfnast í lífinu. Hér líður mér vel og ég er hamingjusöm,“ segir Suman sem vill verða kennari þegar hún verður fullorðin. „Mig langar að kenna raungreinar.“

Ígildi einnar góðrar rauðvínsflösku á mánuði

„Ég hef nú verið styrktarforeldri í 20 ár, þetta eru ein, tvær bíóferðir eitthvað svoleiðis, ein góð rauðvínsflaska á mánuði. Það hefur gefið mér mjög mikið að geta fylgst með tveimur börnum vaxa úr grasi í góðum höndum,“ segir Pálína að lokum.

Íslendingar styrkja um níu þúsund börn

Íslendingar eru SOS-foreldrar yfir níu þúsund barna í 433 barnaþorpum í 107 löndum. Flestir Íslendingar styrkja börn í SOS barnaþorpum á Indlandi, eða 779 Íslendingar. Þessi börn voru áður umkomulaus en eiga nú heimili, fjölskyldu og fá menntun.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði