Tengdamamma táraðist og mamma fékk gæsahúð
Fjóla Katrín Ásgeirsdóttir var heima á Akranesi þegar hún frétti í fjölmiðlum að Þórdís Kolbrún dóttir hennar hefði heimsótt SOS barnaþorp í Malaví. Fjóla hefur verið SOS-foreldri stúlku í þessu barnaþorpi síðan 2012 en það vissi Þórdís ekki fyrr en eftir heimsóknina þegar hún fékk skilaboð þess efnis frá móður sinni til Malaví. Þórdísi tókst að gera sér ferð aftur í barnaþorpið til að hitta stúlkuna. Teknar voru myndir og lagði Þórdís þar grunn að frumlegri jólagjöf sem móðir hennar mun aldrei gleyma.
Í þessu stórkemmtilega myndbandi segja þær mægður frá því hvernig þetta allt atvikaðist og hver viðbrögðin urðu þegar Fjóla opnaði jólagjöfina sem öll fjölskyldan vissi af, nema Fjóla.
Malaví er elsta samstarfsríki Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og nær samstarfið allt aftur til ársins 1989. Þórdís Kolbrún Reykjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, fór í vinnuheimsókn til Malaví í desember 2022 og heimsótti þar m.a. SOS barnaþorpið í höfuðborginni, Lilongve.
Andstæðan við stofnun
„Ég hélt að þetta [barnaþorpið] væri stofnanavætt sem það er það bara alls ekki. Þær [SOS mömmurnar] leggja rosalega mikið upp úr því að reka heimili. Þar eru börn, stundum eru blóðsystkini, nokkrir krakkar inni á heimili. Það voru mjög jákvæð hughrif að sjá umgjörðina. Þetta eru heimili, það eru máltíðir, þeim gefst kostur á að læra, leika og læra á lífið. Það var ótrúlega merkilegt að upplifa þetta svona með beinum hætti. Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast en þetta var mjög fallegt,“ segir Þórdís Kolbrún um þessa fyrstu heimsókn sína í SOS barnaþorp.
Frétti af heimsókninni í fjölmiðlum
Fjóla Katrín vissi að dóttir sín væri að fara til Malaví en hafði ekki hugmynd um að heimsókn í þetta barnaþorp væri á dagskrá. „Ekki fyrr en ég sá í fjölmiðlum hvar hún var stödd. Og þá bara, vá, þetta er þar sem stúlkan mín er. Þannig að sendi bara allar upplýsingar í SMS og svo fæ ég bara svarið; ó, ég sem var þar í gær,“ segir Fjóla sem spurði svo hvort Þórdís gæti ekki farið aftur í barnaþorpið. Og það er einmitt það sem Þórdís gerði, en án þess þó að segja móður sinni frá því.
Ólíkar tvíburasystur
„Það var þétt dagskrá þessa daga sem við vorum í Malaví en Inga Hrefna aðstoðarmaður minn, gengur almennt kröftuglega til verks og sagði bara; við leysum þetta, við finnum út úr þessu,“ rifjar Þórdís upp og úr varð að hún fór aftur í barnaþorpið þar sem hún hitti stúlkuna og tvíburasystur hennar sem einnig býr á sama heimili og á líka SOS-foreldri á Íslandi, nánar tiltekið á Skagaströnd.
„Þær eru ótrúlega ólíkar týpur. Systir hennar er mjög opin og frökk og ætlar að verða hjúkrunarfræðingur, gengur um í kjólum og hælum, á meðan stelpan hennar mömmu er mjög hlédræg. Ég ákvað að segja mömmu ekki frá því að ég hefði farið aftur. Ég lét taka myndir af okkur og sýndi henni myndir af mömmu og fjölskyldunni.“
Þá lít ég á tengdamömmu sem situr í horninu og það eru komin tár, og mamma fékk gæsahúð. Þórdís Kolbrún
Hélt myndinni leyndri fram á aðfangadagskvöld
Þórdís sá þarna tækfiræri til að gefa mömmu sinni frumlega og ógleymanlega jólagjöf. Mynd af sér með stúlkunni sem Fjóla styrkir. Þessu tókst Þórdísi að halda leyndu fyrir móður sinni þar til á aðfangadagskvöld en þá vissi öll fjölskyldan af því hvað leyndist í litlum pakka sem Fjóla opnaði. Allir iðuðu af eftirvæntingu. „Það var mikill spenningur, þetta var aðalgjöfin,“ segir Þórdís en Fjóla gerði sér ekki strax grein fyrir því að styrktarbarnið hennar til síðustu 10 ára væri á myndinni með Þórdísi.
„Hún hélt fyrst að þetta væri bara minjagripur frá Malaví og var rosalega ánægð með það. Pabbi situr við borðstofuborðið og spyr hvort þetta sé ekki stelpan á ísskápnum, því hún er með mynd af henni þar.“ Því tók Fjóla ekki trúanlega fyrr en Þórdís staðfesti það og eftir að hafa borið myndirnar saman var hún sannfærð og nærstaddir táruðust.
Tengdamamma táraðist
„Þá lít ég á tengdamömmu sem situr í horninu og það eru komin tár, og mamma fékk gæsahúð,“ segir Þórdís og Fjóla tekur hlæjandi undir. „Þetta er ekki gjöf sem þú býst við. Maður bara klökknaði. Ég held að maður eigi aldrei eftir að upplifa þetta aftur,“ segir Fjóla sem hefur fylgst með uppvexti stúlkunnar í 11 ár en hún er 14 ára í dag.
„Núna get ég sko aldeilis sagt þeim“
Fjóla segist einnig hafa glaðst sérstaklega yfir því að geta slökkt í efasemdaröddum fólks sem treysti því ekki að framlög Fjólu væru að fara á réttan stað. „Það er oft sem ég fæ að heyra, hvað ertu að þessu, þú veist aldrei hvort þetta skilar sér eða ekki. Núna get ég sko aldeilis sagt þeim því mér hefði aldrei dottið í hug að ég fengi svona rosalega sönnun fyrir því að þetta er að skila sér,“ segir Fjóla og Þórdís rifjar hlæjandi upp ummæli móður sinnar. „Það er einmitt það sem hún sagði; nú skal ég sko segja þeim það.“
Fékk oft að heyra að hún væri ekki íslensk
Fjóla minnist þess glottandi að þegar hún var lítið barn hafi hún verið mjög dökk á hörund, ólíkt öðrum íslenskum börnum á þeim tíma. „Í þá daga var ekki mikið af útlendingum á Íslandi. Ég fékk oft að heyra að ég væri ekki íslensk, hvaðan pabbi minn væri og ég væri eitthvað svona... barn,“ segir Fjóla. Þegar hún svo byrjaði að styrkja þriggja ára gamla stúlkuna í SOS barnaþorpinu í Malaví fékk hún mynd af henni og þá hafi systur hennar gantast með líkindin. „Þetta gæti bara verið þú þegar þú varst lítil,“ hefur Fjóla skellihjæjandi eftir systrum sínum.
Styrkir sjálf barn í Perú
Sjálf hefur Þórdís Kolbrún styrkt börn í SOS barnaþorpum í Suður Ameríku frá árinu 2015. Eiginmaður hennar „Maðurinn minn var skiptinemi í Paragvæ þannig að ég stakk upp á því að við myndum styðja við barn þar," segir Þórdís Kolbrún sem vildi fara að fordæmi móður sinnar og láta gott af sér leiða. Síðar þegar það barn flutti úr barnaþorpinu hafa þau hjón styrkt börn í Perú og gera ennþá.
Ísland fékk þróunaraðstoð
Þórdís segir það sjálfsagt að Íslendingar taki þátt í þróunarsamvinnu og styðji við aðrar þjóðir og önnur samfélög sem standa höllum fæti. „Þetta sterka og ríka samfélag sem við búum í, það er ekkert langt síðan að við sjálf vorum að þiggja þróunaraðstoð. Til ársins 1974 vorum við að fá fjármagn í gegnum alþjóðabankann af því að við flokkuðumst sem þróunarríki. Þetta var 1974. Því er mjög auðsvarað, að sjálfsögðu á eitt ríkasta land í heimi að skila sínu í svona verkefni."
Þú færð enga hamingju út úr lífinu nema þú gefir eitthvað af sjálfum þér. Fjóla
Það klárast aldrei að bæta lífskjör fólks
Aðspurð játar Þórdís Kolbrún því að sem utanríkisráðherra heyrði hún einhverja Íslendinga halda því fram að við ættum fyrst að hjálpa bágstöddum hér á landi áður en við hjálpuðum erlendis. „Lífið er flókið, verkefnin klárast aldrei. Það klárast aldrei að bæta lífskjör fólks. Það eru alltaf samfélagsleg vandamál í öllum samfélögum. Þú upprætir þau ekki. Þú gerir það heldur ekki þó þú hættir að taka þátt í þróunarsamvinnu."
Og Fjóla slær botninn í viðtalið með þessum viðeigandi lokaorðum: „Þú færð enga hamingju út úr lífinu nema þú gefir eitthvað af sjálfum þér."
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.