Systkini byggja upp nýtt líf eftir óbærilega barnæsku
Ana* er 17 ára í dag og býr með yngri systur sinni Sam* og bróður þeirra Dito* hjá SOS fjölskyldu í Mósambík. Þau voru fyrstu börnin til að flytja í SOS barnaþorpið í Chimoio þegar það opnaði árið 2011. Í þeirra huga er heimilið tákn um nýtt upphaf og betri tíma.
Horfði á pabba myrða mömmu
Systkinin misstu foreldra sína árið 2009. Faðir þeirra var alkóhólisti sem beitti móður þeirra grófu ofbeldi reglulega. Ana var aðeins 5 ára gömul þegar hún skelfingu lostin varð vitni að því þegar hann misþyrmdi móður hennar svo hrottalega að hún lést af völdum áverkanna. Ana hljóp út til að sækja hjálp en það var of seint. Faðir Önu dó svo nokkrum dögum síðar.
Ofbeldi og matarleysi
Systkinin fluttu heim til frænda síns sem gat með engu móti mætt grunnþörfum þeirra auk þess sem eiginkona hans kærði sig ekki um að hafa börnin. Þau voru vanrækt, beitt ofbeldi og fengu oft ekki að borða í marga daga. Ana betlaði á götum úti og Dito flúði á brott og bjó á götunni. „Ég var svo sorgmæddur hjá frænda og ég grét mikið vegna þess hversu veikar systur mínar voru. Okkur langaði að eignast vini en börnin í hverfinu vildu ekki leika við okkur. Ég strauk til að leita að mat í ruslatunnum," segir Dito sem í dag er 16 ára.
„Leit ekki út eins og manneskja"
Heil tvö ár liðu þangað til félagsmálayfirvöld björguðu loks systrunum sem voru þá afar illa á sig komnar. Þær fengu heimili í SOS barnaþorpinu þar sem SOS mamman Matende gekk þeim í móðurstað. „Þær voru vannærðar og sýktar af sandfló á fótum, fingrum og í kringum augu og eyru. Þær voru í lífshættu," segir Matende þegar hún rifjar upp þessa átakanlegu komu systranna fyrir 10 árum.
Sandfló nagar sig í gegnum húðina og verpir þar eggjum sem geta valdið lífshættulegri sýkingu. „Ana var lítil og horuð með litað hár og leit í rauninni ekki út eins og manneskja," segir Matende. Dito kom ekki með systrum sínum í barnaþorpið. Hann lifði áfram hættulegu lífi á götunni.
Sársaukafull veikindi
Ana minnist þess þegar þær systur komu í barnaþorpið. „SOS mamma faðmaði okkur þegar við gengum inn um dyrnar. Hún setti okkur í bað og ég man að við grétum af sársauka við baðið því neglurnar voru uppétnar af sandflónni." SOS móðirin Matende þurfti því næst að fara með systurnar á spítala því flóin var út um allt á stúlkunum. „Þær voru ekkert smeykar við mig og það gaf mér hugrekki til að annast þær," segir Matende.
Hófu nýtt líf
Ana man vel eftir því þegar hún kom til SOS mömmu sinnar því það voru tímamótin sem breyttu lífi hennar til hins betra. „Ég varð loksins hrein þegar ég flutti til SOS fjölskyldu minnar og það gladdi mig mjög. Ég fann að ég skipti máli og að ég tilheyrði heimili sem er góð tilfinning. Herbergið mitt er fallegt. Ég gleymi því aldrei að ég fékk steiktan fisk og hrísgrjón daginn sem við komum. Við vorum svo hamingjusamar yfir því að eiga móður sem var annt um okkur og verndaði," segir Ana.
Systkinin sameinuð á ný
Dito flutti til systranna fjórum mánuðum eftir að þær komu í SOS barnaþorpið. Frændi þeirra hjálpaði félagsmálayfirvöldum að finna drengin sem glímdi einnig við sandfló eins og systur sínar. Dito er 16 ára í dag og hefur svo sannarlega dafnað hjá SOS fjölskyldunni sinni. „Hér finn ég væntumþykju og ég hef eignast nýja vini sem hafa hjálpað mér í baráttunni við sjúkdóminn. Svo er ég í skóla," segir Dito sem langar að verða rafvirki. „Ég gerði við rafmagnsketilinn og viftuna og þau virka fullkomlega núna," sagði hann stoltur.
Systkini í umsjón SOS Barnaþorpanna eru aldrei aðskilin og þess vegna flutti Dito í húsið til systra sinna. „Ég varð hissa því ég vissi í raun ekki þær byggju hérna en það gladdi mig ólýsanlega. Við deilum kvalarfullri fortíð en hér erum við hamingjusöm."
Lífið heldur áfram
Hjá SOS Barnaþorpunum fá systkinin sálfræðiaðstoð til að vinna úr áföllum æsku sinnar og þau líta nú björtum augum til framtíðarinnar. „Mig langar helst að gleyma því sem gerðist á milli foreldra minna og halda áfram með lífið. Í draumum mínum er ég að byggja hús þar sem ég mun búa heimilislausum börnum nýtt heimili og halda systkinum saman," segir Ana sem á bersýnilega erfitt með að tala um fortíðina. „Ég er svo þakklát fyrir að líf okkar tók viðsúning.
*Nöfn barnanna eru skálduð af persónuverndarástæðum.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.