„Sýrlendingar missa aldrei vonina“
Nú í mars eru sex ár liðin frá því að stríðið í Sýrlandi hófst en SOS Barnaþorpin hafa starfað í landinu í meira en þrjátíu ár. Neyðaraðstoð samtakanna hefur aldrei verið kröftugri. 450 börn voru tekin inn á heimili fyrir einsömul börn í Damaskus árið 2016 og 213 börn fengu þar aðstoð við að sameinast fjölskyldum sínum.
Þá eru samtökin með starfandi nokkur barnvæn svæði þangað sem börn geta komið og fengið mat, menntun, skemmtun og fleira. Einnig sinna samtökin matarúthlutun, útvega heilbrigðisþjónustu og menntun. Þá eru þrjú SOS Barnaþorp í landinu þar sem um 500 börn búa.
Alia Al-Dalli er framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Hún svaraði fyrir okkur nokkrum spurningum um stöðuna í Sýrlandi.
Nú eru uppi vonir um að það náist vopnahlé í Sýrlandi. Ertu hrædd um að alþjóðasamfélagið gleymi Sýrlandi ef það næst?
Já, það gæti hugsanlega gerst. Stríðið hefur haft gríðarleg áhrif í Sýrlandi og landsmenn kljást við áfallastreituröskun, heimilisleysi og sorg vegna missi. Þetta fólk mun ekki jafna sig á einni nóttu þó stríðinu ljúki. Það er þörf á gríðarlegri uppbyggingu eftir stríð og þá er ég ekki að tala um byggingar heldur sýrlenskar fjölskyldur og andlegt ástand barna.
Sex ár eru liðin frá því að stríðið hófst. Er einhver von fyrir Sýrlendinga?
Ótrúlegt en satt eru Sýrlendingar mjög vongóðir. Þegar við tölum við fjölskyldurnar og börnin sem fá aðstoð hjá SOS, heyrum við hversu mikið þau vilja fá líf sitt til baka. Þau vilja frið og stöðugleika. Foreldrar óska þess á hverjum degi að börnin sín fái að alast upp í friði. Sýrlendingar missa aldrei vonina.
Hvað getur alþjóðasamfélagið gert meira til að hjálpa Sýrlendingum?
Alþjóðasamfélagið og hjálparsamtök líkt og SOS Barnaþorpin hafa unnið hörðum höndum til að útvega aðstoð í erfiðum aðstæðum. Stærsta spurningin er í raun hvað gerist næst í Sýrlandi. Friður þarf að komast á ef eitthvað endurreisnarstarf á að eiga sér stað. Ef það gerist getur alþjóðsamfélagið hjálpað til við margt, til dæmis að opna skóla og heilsugæslur á ný.
Hver er mesta þörfin í Sýrlandi?
Stríðsátökin hafa haft áhrif á alla sýrlensku þjóðina. Ég tel þó mikilvægast að fjölskyldum sem hafa misst heimili sín sé hjálpað. Þær þurfa að fá tækifæri til að lifa friðsælu og innihaldsríku lífi. Þegar litið er til lengri tíma þurfa sýrlensku börnin alla okkar aðstoð. Þau eru framtíðin. Börn hafa upplifað skelfilega atburði. Þau hafa misst heimili sín, fjölskyldumeðlimi, vini og ekki komist í skóla. Að veita börnunum andlega aðstoð verður eitt stærsta verkefnið næstu árin.
Engin hjálparsamtök ná til allra og engin samtök geta mætt öllum þörfum. Þess vegna reynum við að vinna með alþjóðasamfélaginu og öðrum hjálparsamtökum. Sem dæmi má nefna að við erum í samvinnu með Unicef að útbúa kennslustofur fyrir börn í Tartous. Þá vinnum við með sýrlenskum samtökum þegar kemur að matarúthlutunum.
Ef þú gætir fengið eina ósk uppfyllta fyrir sýrlensku þjóðina, hver væri hún?
Þessi er auðveld. Ég myndi óska mér friðar. Að Sýrland yrði friðsælt land á ný þar sem börn geta alist upp við öryggi, með fjölskyldum sínum og farið í skóla.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.