SOS sögur 2.október 2018

Sýrland: Fundu gleðina aftur í nýja barnaþorpinu

Undanfarið höfum við lagt mikla áherslu á að fá upplýsingar um gang mála í verkefnum okkar í Sýrlandi til að deila með íslenskum barnaþorpsvinum og styrktarforeldrum. Yfir 70 börn eru nú búsett í nýju SOS barnaþorpi sem opnaði í Damaskus fyrir sléttu ári og þaðan berast okkur nú fréttir af vel heppnuðu starfi.

Framlag ykkar til SOS Barnaþorpanna í Sýrlandi er mikils virði og hjálpar fjölmörgum börnum í þessu landi sem hefur mátt þola miklar stríðshörmungar undanfarin sjö ár. Meðal þeirra eru systurnar Sham og Nour sem nýlega fluttu í nýja barnaþorpið. Þær hafa ekki geta leikið sér utandyra í langan tíma því þær bjuggu áður á mjög stríðshrjáðu svæði. Móðir þeirra var myrt og faðir þeirra er alvarlega veikur. Þær flúðu ásamt yngri bróður sínum og fundu skjól í bráðabirgðamiðstöð umönnunar á vegum SOS Barnaþorpanna. Hér má sjá stutt myndskeið með viðtali við Sham og SOS móður í barnaþorpinu.

 

Systkinin voru aðskilin

„Það var mjög erfitt hjá okkur. Við vorum aðskilin. Ég bjó hjá frænda mínum, systir mín hjá frænku okar og bróðir okkar var hjá pabba.“ segir eldri systirin Sham. Þau systkinin hafa nú flutt í nýja barnaþorpið í Damaskus sem verður þeirra nýja heimili. Þar hefur Sham hengt upp á vegg myndir af þeim systkinum ásamt móður þeirra og Sham finnst sársaukafullt að rifja upp fortíðina. Þetta eru þó hennar dýrmætustu minningar.

Barnaþorpið er í útjaðri Damaskus. „Hérna er allt nýtt og það er mikil breyting á lífi barnanna. Þetta er alvöru hús og börnin eiga nú alvöru heimili. Þetta hús stendur fyrir stöðugleika og öryggi. “ segir Muntaha Majar, SOS móðir í þorpinu.

Sham kann vel við sig í þorpinu. „Já mög svo. Ég elska að hér er allt nýtt og að hafa eignast nýja vini.“ segir Sham.

Sálfræðingar aðstoða börnin í þorpinu og hjálpa þeim að vinna úr erfiðri lífsreynslu. Sham og systir hennar eru líka loksins komnar aftur í skóla enda er nám mikilvægur þáttur í að endurheimta aftur eðlilegt líf.

Styrktarforeldrar og barnaþorpsvinir óskast fyrir Sýrland

SOS Barnaþorpin á Íslandi geta bætt við barnaþorpsvinum og styrktarforeldrum fyrir þorpin í Sýrlandi. Styrktarforeldrar greiða 3.900 krónur á mánuði sem fara í framfærslu eins barns. Sem styrktarforeldri færðu reglulega fréttir af barninu þínu og þér er velkomið að heimsækja það og/eða senda því bréf og gjafir.

Um 300 Íslendingar eru SOS barnaþorpsvinir þorpanna okkar í Sýrlandi og greiða 3.400 krónur á mánuði. Framlagið fer í að greiða ýmsan kostnað við rekstur þorpsins svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem þar búa.

HÉR ER SKRÁNING FYRIR STYRKTARFORELDRA OG BARNAÞORPSVINI

Yfir 300 börn og ungmenni

Nærri 8 ár eru síðan stríðið hófst í Sýrlandi en vonir standa til að nú hilli undir lok þess. Yfir 300 börn og ungmenni eru í búsetu á vegum SOS Barnaþorpanna á Damaskus svæðinu. 107 börn búa í þorpinu sem opnað var árið 1981 og 73 börn búa á nýja heimilinu sem opnaði í fyrra. Þá eru þarna einnig fimm SOS ungmennaheimili þar sem 48 ungmenni búa og samtökin reka einnig annað heimili fyrir miðlungs sjálfstæð ungmenni sem eru nú 75 talsins á því heimili.

Fyrsta SOS barnaþorpið í Sýrlandi var opnað í Damskus árið 1981 og annað þorpið í Aleppó árið 1998. Rýma þurfti þorpið í Aleppó haustið 2012 vegna stríðsástandsins og börnin 60 sem þar bjuggu voru flutt í öryggið til Damaskus.

Ýmislegt gengið á - tímalínan

  • Mars 2011 - Stríðið hefst í Sýrlandi.
  • September 2012 - SOS Barnaþorið í Aleppó rýmt og börnin flutt til Damaskus.
  • Apríl 2016 - Vegna vaxandi ólgu í Aleppó eru 24 börn flutt af bráðabirgðastöð umönnunar SOS til Damaskus.
  • Desember 2016 - Undirbúningur hefst fyrir opnun nýs SOS Barnaþorps í Damaskus með 10 íbúðum fyrir allt að 80 börn.
  • Október 2017 - SOS fjölskyldur flytja inn í nýja þorpið.
  • Október 2018 - Yfir 70 börn eru nú búsett í nýja barnaþorpinu í Damaskus, ári eftir opnun þess.
SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði