Sorgleg örlög Öldu og Kötu
Það enda ekki allar sögur vel og því miður höfum við eina slíka að segja núna. Einhverjir styrktaraðilar SOS á Íslandi muna eftir frásögnum okkar af Kötu, ungri fatlaðri stúlku í Fjölskyldueflingu okkar í Gíneu Bissá sem við sögðum fyrst frá árið 2013.
Vildi drepa dóttur sína
Fyrst skulum við rifja upp sögu Kötu sem veiktist alvarlega þegar hún var þriggja ára og lamaðist í kjölfarið. Pabbi Kötu vildi losa sig við stúlkuna eða taka hana af lífi því hann vildi ekki að standa í að eiga fatlað barn. Alda, móðir Kötu tók það ekki mál og svo fór að maðurinn yfirgaf fjölskylduna og eftir stóð Alda, einstæð og heimilislaus sjö barna móðir.
Fordómar í garð fatlaðra hröktu þau burt
Öldu og Kötu mætti mikið mótlæti frá samfélaginu vegna fordóma gagnvart fötluðum og hraktist fjölskyldan úr hverju leiguhúsnæðinu á fætur öðru af þeim sökum. Loks komst hún í var þegar Öldu bauðst aðstoð gegnum Fjölskyldueflingu SOS sem fjármögnuð var af SOS á Íslandi. Alda fékk lítið herbergi fyrir sig og börnin hjá SOS í Gíneu Bissá og gekk inn í fjölsklyldueflinguna sem gengur út á að aðstoða barnafjölskyldur í sárafátækt til að öðlast sjálfstæði.
Fengu hús með aðstoð Íslendinga
Lánveiting á lágum vöxtum er eitt af því sem stendur skjólstæðingum Fjölskyldueflingar SOS til boða. „Ég vildi óska að ég ætti pening til þess að kaupa mína eigin lóð og ég er að hugsa um að biðja SOS um lán til þess að gera það,“ sagði Alda við Ragnar Schram, framkvæmdastjóra SOS á Íslandi, þegar hann var í eftirlitsferð vegna verkefnisins í Gíneu Bissá árið 2014.
Fyrir tilstilli SOS á Íslandi varð sá draumur að veruleika árið 2016 og gott útlit var fyrir að Alda yrði fjárhagslega sjálfstæð og gæti mætt grunnþörfum barna sinna án utanaðkomandi aðstoðar. Fjölskyldan flutti inn í lítið hús og Kata fékk hjólastól sem auðveldaði henni lífið mikið.
Létust með rúmlega árs millibili
En ógæfan skall á í mars 2017 þegar Alda veiktist skyndilega af lifrarbólgu B og hún lést innan við mánuði síðar. Þetta var mikið áfall fyrir börnin hennar en þó mest fyrir Kötu litlu sem var mjög háð móður sinni. Þó systkini hennar hafi síðan staðið sig vel í að hugsa um Kötu þá helltist yfir stúlkuna mikið þunglyndi sem olli því að hún missti matarlyst. Kata var mjög horuð fyrir og mátti því síst við slíkri vannæringu því hún léttist enn frekar. Þrátt fyrir góða ummönnun systkina sinna varð Kata svo máttfarin að hún lést þann 11. ágúst 2018.
Lífið heldur áfram
Eftirlifandi börn Öldu erfðu húsið og búa þar áfram. Fjölskyldueflingunni er lokið en með þeirri aðstoð náðu systkinin að koma sér á réttan kjöl. Elsta systkinið, Tómas, er múrari og aflar tekna fyrir heimilið. Með því getur hann borgað skólagjöld yngri systra sinna sem sjá um heimilishaldið. Þá þéna þau aukatekjur með því að leigja út hluta af húsinu.
Þessi unga fjölskylda stendur saman í að komast yfir sorgina sem fylgir því að að missa systur sína Kötu og móðurina Öldu. En lífið heldur áfram og systkinin eru staðráðin í að nýta sér þessa aðstoð sem fjármögnuð var af styrktaraðilum SOS á Íslandi til að byggja sér bjarta framtíð.
SOS fjölskylduvinur
Gerast SOS fjölskylduvinur
SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.