SOS sögur 21.febrúar 2018

Skíðastjarna horfir bjartsýn til framtíðar

Sedina Muhibic er 26 ára gömul kona frá Sarajevó. Hún kynntist skíðaíþróttinni þegar hún var aðeins sex ára gömul og varð dolfallin. Árið 2013 lenti hún í alvarlegu slysi sem endaði skíðaferilinn snögglega en fimm árum síðar er Sedina mætt aftur á skíðin.

--------

Móðir Sedinu yfirgaf hana eftir fæðingu og eyddi litla stúlkan fyrstu mánuðunum á munaðarleysingjaheimili í Sarajevó. Þegar stríðið í Bosníu og Hersegóvínu skall á var hún flutt til Þýskalands en snéri aftur til heimalandsins fimm ára gömul.

„Þegar ég snéri aftur til Sarajevó árið 1997 eignaðist ég nýtt heimili í SOS Barnaþorpinu,“ segir Sedina. „Ég man ekki margt en mér skilst að SOS mamma mín hafi strax byrjað að tala við mig bosnísku þar sem ég kunni hana ekki.“

„Ég er afar heppin að hafa fengið hana sem móður. Móðir er ekki kona sem fæðir þig, heldur sú sem elur þig upp. Mamma kenndi mér muninn á réttu og röngu og að það allra mikilvægasta í lífinu er að vera góð manneskja. Hún hefur alltaf stutt mig í öllu sem ég geri,“ segir Sedina.

Sedina er stolt af sjálfri sér og hvaðan hún kemur. „Ef ég ætti að lifa lífi mínu aftur, myndi ég velja SOS Barnaþorpin á ný. Fjölskyldan mín í SOS Barnaþorpinu er mér allt og barnæska mín var ótrúlega falleg eftir að ég kom þangað. Ég ólst upp í heilbrigðu umhverfi þar sem ég átti vini, fór í skóla, spilaði fótbolta, fór á skíði, söng í karíókí, fór í ferðalög og svo margt fleira.“

Skíðaíþróttin hefur verið stór partur af lífi Sedinu frá því að hún kom fyrst í þorpið. „Ég sá skíðakeppni í sjónvarpinu og límdist við skjáinn. Þá langaði mig til að prófa að æfa og boltinn rúllaði. Ég æfði mikið, keppti og náði góðum árangri. Draumurinn var að næla í verðlaun á Ólympíuleikunum,“ segir hún.

Draumurinn hvarf skyndilega þegar Sedina lenti í alvarlegu skíðaslysi árið 2013 og slasaðist illa á hægra hné. „Læknarnir sögðu að ég væri heppin að vera á lífi en ég var í áfalli. Draumurinn um að verða meistari hvarf á einu augabragði. Læknarnir sögðu mér að gleyma skíðunum og einbeita mér að því að læra að ganga á ný. Ég hef farið í þrjár aðgerðir síðan þá og er öll að koma til. Ég veit að ég mun kannski ekki keppa á meðal þeirra fremstu á ný en mig langar samt að vera hluti af skíðaíþróttinni á einhvern hátt,“ segir hún.

Sedina segist vera ákveðin manneskja og mun hún aldrei gefast upp á draumum sínum. „Ef mér mistekst þá var þetta bara ekki réttur draumur,“ segir hún og brosir. „Ég tel mig mjög ríka og er þakklát fyrir að hafa fengið öll þessi tækifæri. Ef ég hefði ekki eignast nýtt heimili í SOS Barnaþorpinu væri ég líklegast á allt öðrum stað í lífinu.“

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 4.500 kr Styrkja tvö börn 9.000 kr Barnaþorp fyrir 4.500 kr