SOS sögur 27.mars 2015

„Nú kyngi ég bara tárunum“

Hassan (12 ára) var eitt sinn hamingjusamur drengur í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. En það breyttist skyndilega þegar stríðið skall á fyrir fjórum árum síðan. Þá var Hassan aðeins átta ára og bróðir hans sex. Skyndilega urðu dauði, eyðilegging og ótti stór hluti af þeirra daglega lífi.

„Frændi minn kom keyrandi og sagði okkur að setjast á pallinn á bílnum," rifjar Hassan upp. Við pökkuðum því helsta ofan í töskur og lögðum af stað. Pabbi sat yst á pallinum til að passa að töskurnar dyttu ekki af. Ég man vel eftir þessum degi. Sprengjur sprungu á veginum á sama tíma og við reyndum að koma okkur burt."

Ein sprengjan sprakk of nálægt bílnum. Pabbi fékk sprengjubrot í sig og skyrtan hans varð blóðug. Hann datt af bílnum og dó.

„Ég öskraði á frænda minn að stoppa bílinn en hann spurði mig þá hvort ég vildi líka deyja. Sprengjurnar voru enn að springa fyrir aftan okkur og hann sagðist ekki geta stoppað bílinn. Við fjarlægðumst pabba smám saman þangað til hann hvarf okkur sjónum."

Móðir Hassans kom drengjunum fyrir hjá ömmu þeirra og hefur ekki sést síðan. Hassan hóf nám í nýjum skóla en dvölin þar var heldur stutt. „Ég var í skólanum og það komu frímínútur. Ég fékk að vera inni þar sem ég var með svo mikinn höfuðverk. Skyndilega sprakk sprengja á skólalóðinni og allir vinir mínir dóu," segir Hassan.

Barn gengur fyrir framan rústir í SýrlandiEftir tvö ár ákvað Hassan ásamt bróður sínum og ömmu að fara aftur að gamla heimilinu. „Ég var mjög spenntur að sjá húsið og skólann ásamt því að hitta vini og nágranna," segir Hassan. „Ég sá þó fljótt að húsið var ónýtt og skólinn líka. Vinir mínir og nágrannar voru allir farnir. Annað hvort voru þeir fluttir burt eða dánir. Eða horfnir eins og mamma."

Þegar Hassan labbaði um hverfið rifjaðist ýmislegt upp. „Ég stóð á veginum þar sem pabbi dó. Hvað varð um líkið? Ætli hann hafi verið jarðaður? Eða lá líkið á jörðinni í margar vikur eins og maður heyrir um í fréttunum?"

Hassan og yngri bróðir hans eru nú í umsjá SOS Barnaþorpanna. Leit stendur yfir að ættingjum sem geta tekið drengina að sér. Ef það gengur ekki eftir munu þeir áfram vera í umsjá SOS.

„Ég hef ekki grátið síðan pabbi dó. Nú kyngi ég bara tárunum," segir þessi ungi drengur sem hefur upplifað ansi margt á stuttri ævi.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og veitir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði