Nær dauða en lífi við komuna á SOS sjúkrahúsið
Cali var varla með meðvitund þegar hann kom ásamt móður sinni á SOS spítalann fyrir mæður og börn í Mogadishu í Sómalíu. Þá var hann 20 mánaða en hafði verið alvarlega veikur í þrjá mánuði. Cali hafði þá mikið kastað upp og einnig verið með niðurgang en móðir hans, Amina, þurfti að ferðast langa vegalengd til að fá aðstoð á SOS spítalanum.
„Cali var nær dauða en lífi þegar hann kom hingað,“ segir Abdullahi Said, læknir á SOS spítalanum. Hann var með vannæringu á hæsta stigi.“
Amina horfði á son sinn þjást í þrjá mánuði en var algjörlega ráðalaus. Hún átti enga peninga til að kaupa rútuferð á spítalann en að lokum lánaði nágranni Aminu henni smá upphæð þar sem honum leist ekki á blikuna. Amina tók næstu rútu og var tvo tíma á leiðinni en ekki mátti miklu muna þar sem Cali var í afar slæmu ástandi.
„Cali var strax fluttur á gjörgæsluna,“ segir Abdullah. „Hann fékk vökva í æð en eftir tvo daga var hann farinn að geta borðað og drukkið sjálfur.“
Eftir fimm daga á gjörgæslu var Cali fluttur á almenna deild og fór í sérhæfða meðferð fyrir vannærð börn. En til þess að Cali gæti útskrifast af spítalanum þurfti Amina að sýna fram á að hún gæti séð fyrir barninu. Þá kom í ljós að Amina átti níu önnur börn heima og átti mjög erfitt með að sjá fyrir þeim. Ákveðið var að taka fjölskylduna hennar inn í Fjölskyldueflingarverkefni SOS á svæðinu.
Ástandið í Sómalíu hefur verið afar erfitt undanfarin ár vegna þurrka en talið er að um 200 þúsund börn í landinu, undir fimm ára aldri, þjáist af mjög alvarlegri vannæringu. 137 af hverjum 1000 börnum í Sómalíu deyja áður en þau ná fimm ára aldri.
„Við fáumst við um 140 svona alvarleg tilvik á mánuði. Cali var heppinn og nær sennilega fullum bata,“ segir Abdullah.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.