SOS sögur 11.ágúst 2015

Kom í barnaþorpið alvarlega hjartveikur

Bakary er fimm ára gamall en hann eignaðist nýtt heimili í SOS Barnaþorpinu í Bakoteh í Gambíu árið 2012. Þegar hann kom fyrst í þorpið var hann illa haldinn vegna hjartagalla sem gerði það að verkum að súrefnismettun hans var mjög lág.

Líffræðileg móðir Bakery yfirgaf hann í skýli fyrir börn í Bakoteh sem rekið er af yfirvöldum í Gambíu. Ekki var hægt að hafa uppi á henni né föður Bakary og því var haft samband við SOS Barnaþorpin. SOS móður Bakary, Therese, brá verulega þegar félagsráðgjafi frá ríkinu kom með litla drenginn. „Ég sagði við hann að þetta barn væri veikt en hann vildi meina að drengurinn væri bara með smá hita,“ segir hún. „Þá rétti hann mér astmalyf þar sem Bakary væri líklegast með astma.“

Aðgerðin ekki framkvæmd í Afríku

„Daginn eftir fór ég með drenginn á SOS heilsugæsluna þar sem hann var skoðaður. Læknarnir þar vildu senda hann í frekari rannsóknir og að lokum kom í ljós hvert vandamálið var. Þeir sögðu að hann væri hjartveikur og þyrfti að fara í flókna aðgerð sem ekki væri framkvæmd í Afríku. Ég grátbað þá um að hjálpa syni mínum,“ segir Therese og tárin renna niður kinnarnar.

Ákveðið var að senda Bakary á annan spítala í Gambíu en þar áttu sérfræðingar frá Frakklandi að skoða hann. Á þeim fáu dögum sem liðu á milli skoðana versnaði ástand Bakary mikið. „Hann svaf ekki á nóttunni og átti í miklum erfiðleikum með að anda. Hann gat ekki setið eða staðið heldur lá hann bara allan daginn. Ég var mjög hrædd um hann og vakti yfir honum allar nætur,“ segir Theresa.

Mæðginin fóru svo að hitta frönsku sérfræðingana ásamt SOS hjúkrunarfræðingi og framkvæmdastjóra SOS Barnaþorpsins í Bakoteh. „Ég hélt á honum inn á sjúkrahúsið og okkur var bent á biðstofuna sem var full af fólki. Þá kemur læknir auga á okkur og sér hvað Bakary er illa haldinn. Hann sagði okkur að koma strax. Eftir langa og ítarlega skoðun er okkur tilkynnt að hjartagallinn sé mjög alvarlegur. Ég hélt á þessum tímapunkti að ég myndi missa son minn,“ segir Theresa.

Bannað að fara til Frakklands

Theresa og Bakary voru send heim með viðeigandi lyf sem bættu heilsu Bakary verulega. Þó var aðgerðin nauðsynleg og bauðst franskur læknir til að framkvæma hana í Frakklandi. Hins vegar var ferlið stoppað af yfirvöldum þar sem lög í Gambíu banna börnum að ferðast yfir landamæri án foreldra (líffræðilegra).

Í tvö ár voru SOS Barnaþorpin í viðræðum við yfirvöld í þeirri von um að fá þau til að samþykkja förina og tókst það að lokum í byrjun þessa árs.

6. febrúar síðastliðinn fór Bakary til Frakklands og gekkst undir aðgerðina þann 18. febrúar. Aðgerðin tókst vel og hefur Bakary nú náð sér að fullu. Theresa er að vonum afar ánægð með bata sonar síns. „Ég gæti ekki verið hamingjusamari. Það er dásamlegt sjá hann leika sér og hlaupa um með SOS systkinum sínum. Það versta er að nú vill hann aldrei stoppa. Þegar ég bið hann um að hvíla sig þá segist hann bara vilja leika,“ segir Theresa og hlær.

 

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði