SOS sögur 23.desember 2018

Jón gaf 10 milljónir: „Þetta er svo gefandi.“

Hér hjá SOS Barnaþorpunum erum við reglulega minnt á þá miklu hjartahlýju og góðmennsku sem manneskjan getur búið yfir. Við eigum í samskiptum við fjölda styrktaraðila sem allir eiga það sameiginlegt að vilja hjálpa umkomulausum börnum og veita þeim sömu tækifæri í lífinu og önnur.

ÉG VIL STYRKJA SOS BARNAÞORPIN

Akureyringurinn Jón Pétursson hefur um árabil látið sig varða málefni barna og frá árinu 1991 hefur hann verið SOS styrktarforeldri alls átta barna í Brasilíu. Jón var sjómaður og skipstjóri í 40 ár. Nú er hann 84 ára og flutti nýlega inn á dvalarheimili eftir að hafa selt íbúðina sína. Hann greiddi upp eftirstöðvar húsnæðislánsins, bjó svo þannig um hnútana að hann ætti nóg fyrir sjálfan sig í ellinni og gaf svo SOS Barnaþorpunum á Íslandi 10 milljónir króna.

Ég á nóg eftir fyrir jarðarförinni

„Ég hef í rauninni ekkert við þessa peninga að gera. Ég er ekki að fara að kaupa mér neitt. Þó ég hafi gefið þarna 10 milljónir þá á ég nóg eftir fyrir jarðarförinni. Gamla fólkið hafði alltaf áhyggjur af því í gamla daga. Ég er í góðum lífeyrissjóði og mig mun ekkert vanhaga.“ segir Jón sem á enga afkomendur sjálfur en fjölmörg systkinabörn.

„Systkini mín eiga svo mörg börn að það er alveg nóg fyrir mig. Þau hafa það öll mjög gott svo ég þarf ekkert að hugsa um þau.“ Sjálfur var Jón giftur í 33 ár. „Við skildum fyrir mjög mörgum árum og ég hef aldrei verið í neinu kvenmannsstandi síðan. Ég sá alltaf eftir henni.“

Nýkominn í land og sá auglýsingu frá SOS

Jón sótti fyrst um að styrkja tvö börn í SOS barnaþorpinu Santa Maria í Suður-Brasilíu árið 1991. „Ég var nýkominn í land og sá auglýsingu frá SOS Barnaþorpunum. Ég gerðist strax styrktarforeldri og hef verið það síðan.“ Hann var í reglulega bréfasambandi við SOS móður barnanna og sendi þeim oft gjafir. Eftir að Jón fór á eftirlaun um aldamótin ákvað hann að heimsækja börnin til Brasilíu þangað sem hann fór alls fjórum sinnum.

Hann heimsótti alls þrjú þorp, þar af þorpið í Santa Maria tvisvar. „Það var mjög gaman og yndislegt að koma í barnaþorpin. Það er alveg einstaklega vel hugsað um börnin. Fyrsta ferðin var vikulöng með leiguflugi frá Íslandi en í hin skiptin dvaldi ég allt upp í einn og hálfan mánuð. Ég ferðaðist upp og niður Brasilíu, meðal annars lengst inn í Amazonfrumskóginn.“

Lærði portúgölsku

Jón var meðal annars staddur í barnaþorpinu í Santa Maria á afmælisdegi sínum og sungu börnin þá afmælissönginn fyrir hann. Hann átti einnig fleiri ánægjulegar stundir þar. „Ég var viðstaddur skólaútskrift og ég borðaði með börnunum. Það var mjög gaman og ánægjulegt. Ég fór á tungumálanámskeið í portúgölsku til að geta talað eitthvað við börnin. Það tala fáir ensku þarna og ég notaðist við orðabók þegar mig vantaði orð og ég gat bjargað mér þannig. Börnin kunnu líka smá í ensku og svo kynntist ég konu sem var enskukennari þarna og hún hjálpaði mér mikið. Hún heitir Lisanna og ég hef alltaf verið í sambandi við hana.“

Hvort „styrktarbarn“ fær tvær milljónir króna

Börnin sem Jón styrkti fyrst eru systkini sem nú eru uppkomin, fædd 1986 og 1989. Af 10 milljóna króna framlagi Jóns fær hvort þessara fyrrverandi styrktarbarna hans tvær milljónir króna. Afgangurinn af styrknum fer til barnaþorps þeirra í Santa Maria og hins vegar til SOS á Íslandi. Þess utan greiðir Jón mánaðarlega styrki en hann er þó ekki lengur styrktarforeldri neins ákveðins barns.

„Ég hef bara fylgst með þessum börnum og þeim hefur vegnað nokkuð vel held ég. Atvinnumálin í Brasilíu eru óörugg. Það eru tveir fletir á landinu; þarna er mjög ríkt fólk og svo er mjög mikið um fátækt.“

Þetta er svo gefandi

Jón segir að það sé alltaf jafn gefandi að styrkja SOS Barnaþorpin. „Það er svo gefandi að veita börnunum möguleika á að komast áfram í lífinu. Það sá ég þarna í Santa Maria. Þarna voru börn komin langt í námi þau þetta hafi verið misjafnt eftir börnum eins og gengur og gerist. Þau eru líka látin taka virkan þátt í húsverkunum, fá svolitla ábyrgð og annað sem býr þau undir fullorðinsárin.“

Ég hef ekki yfir neinu að kvarta

Jón unir sér vel á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. „Ég nýt lífsins hér. Það er mjög gott að vera hérna og virkilega vel hugsað um mig á allan hátt.“ Heilsuna segir hann ekki mikið meira en „sæmilega“ en ber sig engu að síður mjög vel. „En ég hef það bara mjög fínt. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta.“ segir þessi geðþekki maður sem vill senda Íslendingum eftirfarandi skilaboð.

„Við höfum það svo gott á Íslandi að okkur munar ekkert um að styrkja þessi börn. Ég hvet Íslendinga til að styrkja SOS Barnaþorpin. Það þarf ekki að vera mikið. Þetta er svo gefandi.“

[Eftir Hans Steinar Bjarnason]

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði