SOS sögur 7.desember 2021

Jólagjöfin var styrktarbarn

Jólagjöfin var styrktarbarn

Þegar fólk ákveður að gerast SOS-styrktarforeldri er það ekki bara að gefa af sér til bagstaddra barna og veita þeim bjarta framtíð. Það er nefnilega líka gefandi fyrir styrktarforeldrana að láta gott af sér leiða á þennan hátt eins og Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV, sagði frá í forsíðuviðtali í fréttablaði SOS í desember 2020.

Einar fékk óvæntan glaðning í jólagjöf frá eiginkonu sinni Birnu Ósk Hansdóttur og börnum um jólin 2010. Gjöf sem hann segist muna betur eftir en öllum öðrum gjöfum sem hann hefur fengið. Pakkað inn í gjafapappír var umslag frá SOS Barnaþorpunum á Íslandi sem í var upplýsingamappa með bréfi og mynd af tveggja ára gömlum dreng í SOS barnaþorpinu Gitega í Búrúndí.

Þessir veraldlegu hlutir sem maður hugsaði meira um á yngri árum, og margir hugsa ennþá allt of mikið um, skipta þegar upp er staðið engu máli. Einar Örn

Jólagjöf sem ég man alltaf eftir

„Þetta er auðvitað miklu betri gjöf en einhver peysa sem eyðileggst eða veraldlegt rusl. Þetta er gjöf sem gefur áfram eftir að einstaklingurinn flytur úr þorpinu og maður hættir að styrkja. Þetta er jólagjöf sem maður man eftir alla ævi og er ennþá að gefa,” segir Einar sem á afmæli milli jóla og nýárs. „Þau gáfu mér líka afmælisgjöf en ég man ekkert hvað það var. Ég man ekki einu sinni hvað ég fékk í afmælisgjöf í fyrra en ég man eftir þessari jólagjöf 2010.”

Styrktu börn í Rúmeníu

Einar hefur lengi þekkt vel til SOS Barnaþorpanna eða frá því hann bjó í foreldrahúsum. Hann minnist hörmungarástandsins í Rúmeníu í upphafi tíunda áratugarins þegar þúsundir heimilislausra barna voru á vergangi í landinu og öll munaðarleysingjahæli voru yfirfull.

„Þegar munaðarleysingjakrísan var í Rúmeníu styrktum við tvo stráka þar hjá SOS og ég hafði hugsað það í mörg ár að gerast SOS-foreldri eftir að ég fór sjálfur að búa. Ég var alltaf með það á bak við eyrað að byrja að styrkja aftur en það skorti bara drifkraftinn í að láta verða af því. Svo kom að því að Birna og börnin gáfu mér þessa jólagjöf.”

Þá hafði Birna skráð Einar fyrir styrktarbarni hjá SOS og umslag með hans nafni og upplýsingum um Don-Brillant ásamt mynd af honum leyndust í jólapakkanum. „Þetta er svona gjöf sem gefur áfram í hjartanu. Maður finnur hvað það er í rauninni skiptir máli. Þessir veraldlegu hlutir sem maður hugsaði meira um á yngri árum, og margir hugsa ennþá allt of mikið um, skipta þegar upp er staðið engu máli.”

Enginn vissi nafn drengsins

Fyrstu upplýsingar um styrktarbarnið voru af skornum skammti en oft er það þannig að starfsfólk barnaþorpanna veit ekki mikil deili á börnunum þegar þau koma þangað. „Það fylgdi ekki sögunni hvað hann hafði gengið í gegnum áður en hann kom í barnaþorpið, en það hafði verið eitthvað. Lífið hafði ekki farið vel með hann og mig grunar að framtíð hans hefði verið nokkuð myrk ef hann hefði ekki komist í barnaþorpið,” segir Einar og bætir við að enginn hafi vitað raunverulegt nafn drengsins. Í barnaþorpinu var  honum gefið nafnið, Don-Brillant sem merkir „Skínandi gjöf.”

Vinkournar líka með styrktarbörn

Börn Einars og Birnu eru Agnar Daði, 17 ára, og Elísabet Ása, 13 ára og þau hafa fylgst með uppvexti Dons upp sína æsku. „Ég hef verið meðvitaður um Don síðan ég var lítill því við settum alltaf myndirnar af honum á ísskápinn. Vinir mínir voru forvitnir um hver þetta væri svo þeir vita að við eigum „SOS-bróður” í Búrúndí,” segir Agnar Daði.

Elísabet Ása er of ung til að muna þegar fjölskyldan byrjaði að styrkja Don en hún man alltaf eftir myndunum á ísskápnum. „Vinkonur mínar tóku líka eftir myndunum og einhverjar þeirra eru líka að styrkja barn hjá SOS,” segir Elísabet Ása sem er einu ári eldri en Don.

Lífið hafði ekki farið vel með hann og mig grunar að framtíð hans hefði verið nokkuð myrk ef hann hefði ekki komist í barnaþorpið Einar Örn

Taka eftir Búrúndí í heimsfréttum

Fjölskyldan fær bréf tvisvar á ári frá barnaþorpinu með fréttum af Don, nýrri mynd af honum einu sinni á ári og lífinu í barnaþorpinu. Ef Búrúndí er í heimsfréttunum þá kemur Don alltaf til tals á heimilinu. „Ég les alltaf upp úr bréfunum fyrir þau það sem er að frétta af Don og þorpinu,” segir Einar og fjölskyldan fylgdist t.a.m. sérstaklega vel með þegar ófriður í Búrúndi var í fréttunum. „Einhvern tímann var slæmt ástand í Búrúndí og þá kom fram í einu bréfinu að það væru einhverjar róstur.”

Í bréfunum eru líka lýsingar á Don og hans högum og áhugamálum. „Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á fótbolta. Hann er mikill náms- og lestrarhestur og gengur mjög vel í náminu. Honum er líka lýst þannig að hann sé mjög háður SOS-mömmu sinni og hefur myndað sterk tengsl við hana.”

Við þurfum í raun að gera mjög lítið og hjálpin sem Don fær er svo margfalt meiri en það sem við leggjum fram. Einar Örn

Gerir mikið fyrir fjölskylduna að styrkja drenginn

Hvert barn í barnaþorpi á að meðaltali fimm styrktarforeldra og Einar segir það gera mikið fyrir fjölskyldu sína að eiga þátt í því að Don fái kærleiksríkt uppeldi og möguleika á bjartri framtíð.

„Það er kannski smá sjálfhverft að hugsa þannig en það eykur vellíðan okkar að að vita af því að við erum að hjálpa barni sem hefði jafnvel ekki fengið hjálp annarsstaðar. Við þurfum í raun að gera mjög lítið og hjálpin sem Don fær er svo margfalt meiri en það sem við leggjum fram. Framlögin okkar eru svo margfalt meira virði í fátækari ríkjum."

Einar heyrir oft áþreifanlegar sögur af aðstæðum barna víða annarsstaðar í heiminum. „ Það minnir mig á hvað við höfum það gott á Íslandi. Það munar okkur engu styrkja eitt barn. Að láta gott af sér leiða er sjálfsagður hlutur. Það eitthvað svo borðleggjandi.”

-

Viðtal: Hans S. Bjarnason
Myndir: Valgarður Gíslason

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði