SOS sögur 29.nóvember 2021

„Hét því að láta draum Vals rætast í gegnum mig“

„Hét því að láta draum Vals rætast í gegnum mig“

Valur Guðmundsson lést þann 29. desember 2020, skömmu fyrir áttræðisafmæli sitt 9. janúar. Sá draumur hafði bærst innra með Val að ættleiða barn á lífsleiðinni en aldrei varð af því. Sólveig systir Vals vildi láta þennan draum hans rætast á einhvern hátt og úr varð að hún gerðist SOS-foreldri tveggja barna í SOS barnaþorpi í Nepal, í nafni bróður síns.

Það kom mér svolítið á óvart að það bjó í hjarta hans. Þá hét ég því að láta þennan draum Vals rætast í gegnum mig og í hans nafni. Sólveig

Það er vormorgunn á skrifstofu SOS Barnaþorpanna í Kópavogi. Þetta er hefðbundinn dagur hjá starfsfólkinu og hljóðlátur ómur af símhringingu blandast við smelli á lyklaborð og samtöl. Hingað hringja reglulega styrktaraðilar með ýmis erindi og fólk með almennar spurningar. Í símanum er Sólveig Guðmundsdóttir í Reykjavík með óvenjulegt en hjartnæmt erindi sem hefur bærst innra með henni í nokkurn tíma. Hún vill athuga hvort hún geti framfylgt ósk látins bróður síns, Vals Guðmundssonar, með því að skrá hann sem SOS-foreldri og styrkja þannig barn í SOS barnaþorpi. Valur lést 29. desember 2020, skömmu fyrir áttræðisafmæli sitt 9. janúar.

Valur og Sólveig árið 1996 Valur og Sólveig árið 1996

Kom á óvart að þetta bjó í hjarta hans

„Valur eignaðist ekki börn sjálfur en hann átti sér þann draum að ættleiða barn, eins og hann orðaði það. Hann sagði mér það seint á ævinni, þá vel fullorðinn. Það kom mér svolítið á óvart að það bjó í hjarta hans,” sagði Sólveig þegar undirritaður heimsótti hana í sumar til að taka þetta viðtal. Tölvukerfi SOS Barnaþorpanna býður ekki upp á að skrá látið fólk fyrir stuðningi við börn en hér leyfum við tölvum ekki að segja „nei”. Upp kom því sú hugmynd að Sólveig skráði sig sem SOS-foreldri og heiðraði á einstakan hátt minningu Vals bróður hennar.

„Meðan hann var á lífi hafðist ekki að koma því í framkvæmd. Því miður. Þegar hann lést lét hann mér eftir nokkurt fé. Þá hét ég því að láta þennan draum Vals rætast í gegnum mig og í hans nafni. Ég valdi SOS Barnaþorpin og fékk þar samband við svo ágætt fólk. Ég ætlaði mér í fyrstu að vera aðeins milliliður og fékk þá hugarvissu um leið að börnin ættu að vera tvö. Helst systkin og það rættist.“

Systkinin tvö í barnaþorpinu í Nepal, Sandesh tveggja og hálfs árs, og Lila, fimm ára. Sólveigu finnst drengurinn minna sig mikið á Val. Systkinin tvö í barnaþorpinu í Nepal, Sandesh tveggja og hálfs árs, og Lila, fimm ára. Sólveigu finnst drengurinn minna sig mikið á Val.

Merkileg tenging barnanna við Sólveigu

Sólveig vildi styrkja systkin með búsetu á sama stað og fór Katrín þjónustufulltrúi hjá SOS að skoða möguleikana. „Meðan á þeirri leit stóð gerðist það hjá mér að nafnið Nepal fer að klingja í höfði mér. Sífellt. Ég bæði skildi það og skildi það ekki. Næst gerist það í símtali að Katrín tjáir mér spennt að hún sé búin að finna systkini á þremur stöðum, Bangladesh, Litháen og Nepal. Þá klingdi bjöllum og ég vissi að Nepal var hið rétta.” Í júní var gengið frá skráningunni og Sólveig fékk senda möppu með myndum og upplýsingum um börnin, tvö systkini í SOS barnaþorpinu í Sanothimi í Nepal.

„Það var magnað alveg og ég svo glöð með það. Hún gaf mér upp nöfn þeirra og aldur, tæplega fimm ára stúlka, Lila Maya, og tveggja og hálfs árs drengur, Sandesh. Ég tók fljótt eftir því að nöfn stúlkunnar líkjast nöfnum tveggja ömmubarna minna sem eru Lilja og Maja. Eftir á fór ég að hugsa, gæti verið að drengurinn, Sandesh, ætti afmæli í sama mánuði og Valur heitinn bróðir minn? Og jafnvel að Lila Maja ætti afmæli í sama mánuði og ég? Ég var svo spennt fyrir þessu atriði. Jæja, þegar mál skýrðust kom í ljós að drengurinn var fæddur þann 11. janúar en Valur bróðir þann 9. janúar. Stúlkan, Lila Maya var fædd 8. september en ég 8. ágúst. Sem mér fannst merkilega ánægjulegt.”

Valur var vinnusamur og listrænn. Hann var menntaður bifreiðasmiður og vann við það framan af ævi. Valur var vinnusamur og listrænn. Hann var menntaður bifreiðasmiður og vann við það framan af ævi.

Valur kynntur sem styrktarforeldrið

Ákveðið var að Sólveig myndi kynna aðkomu Vals og sinn þátt með sendibréfi til barnanna. Ánægja hennar með þróun mála jókst með hverjum degi eftir að hún fékk ljósmyndir af börnunum og upplýsingar um þau. „Ég varð svo hrifin og glöð að sjá systkinin á myndum að ég samdi eitthvað líkt ljóði, eða einskonar ljóð um þau og til þeirra á ensku. Það kom mér á óvart hvað drengurinn Sandesh minnti mig mikið á Val. Krúttleg ásýndin, dökka hárið og brún augu. Ég hafði á tilfinningunni að ég hefði þekkt þessi börn alla tíð,” segir Sólveig sem skrifaði bréf og ljóð til barnanna sem verða lesin fyrir þau þegar þau hafa aldur til. Einnig fylgdu með myndir af Val sem er hið eiginlega styrktarforeldri þeirra á Íslandi.

Við gerðum þetta saman, Valur og ég. Sólveig

Allt eins og átti að verða

„Allt fannst mér ganga upp eins og átti að vera. Allt ferlið frá upphafi hefur einkennst af því að allt hafi verið ákveðið fyrirfram, frá upphafi til enda. Rétt eins og æðri máttur hafi verið að verki. Þannig að allt gerðist í fullri sátt. Allt er eins og átti að verða og ég gæti best óskað mér, Val og börnunum. Ég er afar sátt og glöð við gang mála og lendingu þess og alveg viss um að hann Valur er það einnig. Við gerðum þetta saman, Valur og ég.”

Sólveig Guðmundsdóttir - viðtal: Hans Steinar Bjarnason Sólveig Guðmundsdóttir - viðtal: Hans Steinar Bjarnason
SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði