SOS sögur 1.febrúar 2022

Fyrrverandi SOS barn tók heimsfræga ljósmynd

Fyrrverandi SOS barn tók heimsfræga ljósmynd

Amul Thapa ólst upp í SOS barnaþorpinu í Kavre í Nepal þar sem 19 börn búa sem eiga SOS-foreldra á Íslandi (feb 2022). Hann starfar sem blaðaljósmyndari hjá nepölsku dagblaði og vakti ein ljósmynd hans eftir jarðskjálftann árið 2015 gríðarlega athygli. Myndin er af ungabarni sem bjargað var úr rústum heimilis fjölskyldu barnsins og var birt í mörgum fjölmiðlum víðsvegar um heiminn. Amul var þá 26 ára. Við ræddum við Amul um myndina, jarðskjálftann og SOS Barnaþorpin. 

Hvernig var að alast upp í SOS Barnaþorpinu í Kavre?

Mér fannst ég fá annað tækifæri í lífinu. Ég missti líffræðilega móður mína þegar ég var níu ára og átti afar erfitt uppdráttar eftir það. SOS móðir mín stóð alltaf með mér, hvatti mig áfram og elskaði mig skilyrðislaust. Hún var manneskjan á bak við velgengni mína en hún lést fyrir nokkrum árum. Orðin hennar munu fylgja mér alla tíð: „Ef þú leggur þig 100% fram og trúir á sjálfan þig, eru þér allir vegir færir.“ SOS faðir minn og systkini stóðu einnig þétt við bakið á mér og gera enn þann dag í dag. Ég er afar heppinn að hafa eignast þessa góðu fjölskyldu og á henni margt að þakka.

Hvað varð til þess að þú fékkst áhuga á blaðaljósmyndun?

Sem barn hafði ég mikinn áhuga á íþróttum og oftar en ekki hitti ég blaðamenn á íþróttakappleikjum. Mér fannst mjög gaman að tala við þá og fannst starfið þeirra áhugavert og ákvað í kjölfarið hvað mig langaði að starfa við í framtíðinni. Ég kláraði BA nám í blaðamennsku og er nú í MA námi. Með námi starfa ég sem blaðaljósmyndari á dagblaðinu Naya Patrika. Mér þykir svo skemmtilegt að heyra frásagnir fólks og held að besta leiðin til að deila sögum þeirra sé með ljósmyndun.

Hvar varstu þegar jarðskjálftinn reið yfir í Nepal?

Ég var að vinna. Skrifstofan er staðsett á þriðju hæð í sjö hæða húsi. Byggingin hristist mikið og ég skreið undir borð. Til allrar lukku hélt húsið og ég komst út þegar skjálftanum lauk. Þegar ég var kominn út á götu blöstu við mér húsarústir og lík á götunum. Ég tók nokkrar myndir en reyndi eins og ég gat að aðstoða þá sem þurftu.

Myndin sem þú tókst af ungabarninu, sem bjargað var úr rústunum, var birt um allan heim. Geturðu sagt okkur frá augnablikinu?

Þetta var morguninn eftir jarðskjálftann. Ég sá nokkra hermenn vera að grafa ofan í rústir og fór til þeirra til að aðstoða. Þá heyrði ég barnsgrátinn. Við vissum að barnið væri þarna undir, en höfðum ekki hugmynd um hvar eða hvernig við ættum að ná því. Ég stoppaði alla umferð nálægt og bað fólk um að halda sig fjarri til að við gætum greint hljóðið betur og hvaðan það kæmi. Að lokum fannst barnið en þá hafði það legið í rústunum í yfir fimm klukkutíma. Ég tók upp myndavélina og náði þessu magnaða augnabliki þegar að því er lyft upp. Stuttu síðar sameinaðist barnið móður sinni og það var einnig afar áhrifaríkt augnablik.

Þessi saga var fyrst birt á heimasíðu SOS árið 2016.

Kraftaverkadrengurinn 6 ára í dag

Barnið sem bjargaðist er drengur að nafni Sonish Awal sem er nú á sjöunda aldursári. Hann gengur undir nafninu Kraftaverkadrengurinn enda lifði hann af að vera fastur undir húsarústunum í 22 klukkustundir. Hús fjölskyldunnar eyðilagðist og hefur enn ekki verið endurbyggt.

Sonish býr ásamt foreldrum sínum og stóru systur í herbergi og drengurinn spyr ítrekað hvenær húsið þeirra verður endurbyggt. Foreldrar hans hafa ekkert svar við því þar sem þau eru efnalítil og tekjur fjölskyldunnar hafa dregist saman í heimsfaraldrinum.

Hér má sjá umfjöllun Nepali Times um Sonish of fjölskyldu hans og einnig í þessu sjónvarpsinnslagi.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði