SOS sögur 15.desember 2016

Flúði með eins dags gamalt barn

Salma er 21 árs þriggja barna móðir frá Aleppo í Sýrlandi. Hún á tvær dætur á aldrinum fimm og tveggja ára og einn son sem fæddist fyrir fimmtán dögum. Salma og eiginmaður hennar eru á flótta og hafa nú fengið aðstoð frá SOS í Sýrlandi.

Ungu hjónin bjuggu í gamla bænum í Aleppo þar sem þau ólust bæði upp. Eiginmaður Sölmu var þekktur söngvari en rétt áður en stríðið hófst fæddist fyrsta dóttir þeirra.

„Tíminn sem við þrjú áttum fyrir stríð er dýrmætur,“ segir Salma. „Ég man hvernig við sátum saman fyrir framan arininn þegar það var kalt úti. Við horfðum á snjóinn úti, maðurinn minn söng fyrir okkur og gleðin fyllti heimilið.“

Árið 2013 hófust átökin af miklum krafti í gamla bænum. Fjölskyldan ákvað þá að flýja heimili sitt og stefndu á öruggari stað í Aleppo. Nokkrum dögum eftir að þau fóru, lenti sprengja á húsinu þeirra sem eyðilagðist.

Í nokkur ár bjó fjölskyldan í litlu húsi í úthverfi Aleppo en sprengingarnar náðu að lokum þangað. Eiginmaður Sölmu særðist í einni sprengjuárásinni og á enn í dag erfitt með gang. „Sprengingarnar voru stöðugar og börnin voru mjög hrædd. Yngri dóttir mín hefur verið hrædd alla ævi,“ segir Salma grátandi.

Þriðja barnið

Í byrjun árs 2016 komst Salma að því að hún ætti von á þriðja barninu. „Það var ekki planið. Ég vildi ekki eignast fleiri börn í þessu ástandi,“ segir hún. Síðustu tveir mánuðir meðgöngunnar voru mjög erfiðir þar sem Aleppo var undir stöðugum sprengingum og hafði Salma ekki aðgang að mat né þurrmjólk fyrir yngri dótturina.

„Ég gat varla hugsað um barnið sem ég bar undir belti. Ég grét í hvert sinni sem ég hugsaði um hvernig ég ætlaði að næra hann eða hlýja honum.“ Fyrir tæpum tveimur vikum fæddi hún svo drenginn og ákvað að fara strax af stað í leit að öruggari stað. „Daginn eftir að hann fæddist héldum við af stað. Við þurftum að gera það ef við ætluðum að halda lífi. Ég hélt að við myndum deyja á leiðinni. Við sáum þúsundir fjölskyldna á leiðinni en líka mörg börn sem voru ein á ferð og ég hugsaði þá til minna barna. Hvað yrði um þau ef ég og maðurinn minn myndum deyja?“

Hjálp frá SOS

Að lokum komst fjölskyldan í neyðarskýli SOS Barnaþorpanna. Dætur Sölmu voru gríðarlega þreyttar og svangar en það leið yfir yngri dótturina í skýlinu þar sem hún hafði ekki borðað í sólarhring.

„Starfsfólk SOS eldaði heita máltíð fyrir okkur og litli drengurinn minn fékk þurrmjólk. Ég get ekki lýst því með orðum hversu mikilvæg þessi aðstoð er. Ég er ekki viss um að við værum enn á lífi ef við hefðum ekki komist í skjól hjá SOS. Börnunum mínum er núna kalt en þau eru örugg. Ég sé líka að þau verða sterkari með hverjum deginum og lífið í augunum er að koma aftur. Ég vona að þessum hörmungum fari að ljúka," segir þessi hugrakka kona að lokum.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði