SOS sögur 22.september 2016

Fæðing á flótta

Ljupka Pavlovic, hjúkrunarfræðingur SOS Barnaþorpanna, mun seint gleyma föstudagskvöldi fyrr á árinu þegar hún tók á móti barni á flóttamannaleið í Serbíu.

„Ég kom í vinnuna til að taka yfir næturvakt á barnvæna svæðinu sem SOS Barnaþorpin reka, segir hin 32 ára Ljupka. „Um það bil klukkutíma síðar, um klukkan 23, heyrði ég mikil læti, hálfgert uppþot. Ég heyrði lækninn í næsta herbergi kalla „hún er að fara að fæða! Ég þarf ljósmóður!“

Rétt manneskja á réttum tíma

Ljupka dreif sig til læknisins og bauð fram aðstoð sína sem tekið var fagnandi. „Vatnið var farið og þegar við höfðum komið móðurinni í rúmið og klætt hana úr fötunum gat ég þá þegar séð höfuð barnsins. Ég beið í tvær til þrjár sekúndur, og þegar móðirin fékk næstu hríðir ýtti ég varlega á maga hennar. Barnið kom beint út.“

Tvöföld blessun

Ljupka á sjálf tvo drengi og var í fyrstu hrædd við hugmyndina um að vinna með flóttafólki. „Það er eitt að vera hjúkrunarfræðingur undir venjulegum kringumstæðum, á almennilegri heilsugæslu. Hér eru margar áskoranir. Fyrsta daginn var ég mjög smeyk en eftir því sem dagarnir liðu varð starfið auðveldara.“

Börn í erfiðum aðstæðum

Barnvæna svæðið sem Ljupka vinnur á er við hvíldarsvæði sem heitir Adasevci, þar sem rútur sem flytja flóttafólk bíða eftir að landamæri Króatíu opnast. Starfsemin er í yfirgefnu gistiheimili sem hefur ekkert rennandi vatn.

„Hreinlæti er stórt vandamál, sérstaklega fyrir börn og mæður. Þegar við þurfum að baða verðum við að hita vatn í potti. Það er ekkert heitt vatn,“ segir Ljupka. „Mörg barnanna sem koma hingað eru með vírusa, hósta mikið og eru með hita.“

Hvíldarstöðin Adasevci hefur pláss fyrir um 500 manns. Eina heilsugæslustöðin á staðnum er rekin af Læknum án landamæra. Í neyðartilfellum er sjúkrabíll frá Sid, heimabæ Ljupku, notaður.

„Þessa nótt var stúlkubarnið fyrr á ferðinni en sjúkrabíllinn,“ segir Ljupka og brosir við. Læknar fóru með móðurina og barnið á næstu mæðradeild og stuttu seinna fékk Ljupka að vita að móðir og barn brögguðust vel.

Barnið er sjötta barn móðurinnar sem er frá Írak og var, ásamt börnum sínum, á leið til eiginmanns síns í Þýskalandi. Það var heppni að konan eignaðist barnið þar sem hún gat fengið viðeigandi umönnun fyrir sig og börnin sín. SOS Barnaþorpin útveguðu konunni sjálfboðaliða sem fylgdi fjölskyldunni til Slóveníu og við vonum að þau hafi komist heil á leiðarenda.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og veitir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Viljir þú styrkja barn í tilteknu landi, t.d. í Króatíu, skrifar þú einfaldlega „Króatía" í dálkinn fyrir athugasemdir.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði