SOS sögur 28.ágúst 2019

Bogi hefur verið styrktarforeldri Ísaks í 17 ár

Bogi hefur verið styrktarforeldri Ísaks í 17 ár

Bogi Ágústsson, fréttamaður hjá RÚV, hefur verið SOS-styrktarforeldri í 17 ár og fylgst með uppvexti styrktarsonar síns í SOS barnaþorpi í Eþíópíu frá því barnið var eins árs. Bogi kveðst ekki hafa gert ráð fyrir að fylgjast með uppvexti piltsins, sem nú er orðinn 18 ára, en þegar myndir og bréf með fréttum af honum fóru að berast hafi stuðningurinn til SOS orðið persónulegri.

Myndir af Boga: Sigtryggur Ari Jóhannsson
Viðtal: Hans Steinar Bjarnason

Danskur fréttamaður fræddi Boga um SOS

Það var árið 2002 sem Bogi og eiginkona hans, Jónína María Kristjánsdóttir, kennari, ákváðu að gerast SOS-styrktarforeldrar. Bogi hafði þá lengi vitað af tilvist SOS Barnaþorpanna án þess þó að gera sér ítarlega grein fyrir starfsemi samtakanna. Henni kynntist hann nánar gegnum góðvin sinn hjá danska ríkisútvarpinu sem hætti í starfi fréttamanns þar til að gerast upplýsingafulltrúi hjá SOS Barnaþorpunum í Danmörku.

Bogi

Ætluðu ekki að fylgjast með styrktarbarninu

Bogi segir að þau hjón hafi lengi haft áform um að gerast SOS-styrktarforeldrar áður en þau létu loks verða af því árið 2002. „Við höfðum engar óskir um hvort það yrði strákur eða stelpa eða í hvaða landi. Við létum það algerlega í hendur SOS Barnaþorpanna sem völdu lítinn strák í Eþíópíu fyrir okkur og við höfum síðan fylgst með honum,“ segir Bogi en það var reyndar ekki ætlun þeirra hjóna að fylgjast nánar með þessari ráðstöfun á mánaðarlegum styrk þeirra til SOS.

„Ég sagði upphaflega við SOS; þið þurfið hvorki að eyða frímerkjum, pening eða tíma í að láta mig vita. Ég treysti ykkur fullkomlega fyrir þessu litla mánaðarlega framlagi. Ég vil bara að sá peningur nýtist sem allra best.“

ÍsakBréfin og myndirnar gera stuðninginn persónulegri

En svo fóru Boga að berast myndir af stráknum, Ísaki, og bréf með fréttum af uppvexti hans í barnaþorpinu. „Það gerir þetta að sjálfsögðu persónulegra. Í stað þess að styrkja samtök þá hefurðu það á tilfinningunni að þú sért að styrkja einstakling. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki einu styrktarforeldrar hans en við vitum að okkar litla framlag skiptir máli þegar það er komið alla leið til Eþíópíu. Það gildir um langflest lönd þar sem SOS barnaþorp eru. Þetta eru fátæk ríki og íslenska krónan sem margir segja að sé mikill aumingi, hún er risi þarna.“

Handskrifuð kort frá Ísaki

Eftir því sem árin liðu fékk Bogi handskrifaðar kveðjur í jólakortum frá Ísaki og það hefur fært þeim hjónum mikla ánægju að fylgjast með uppvexti hans. „Það hefur verið mjög ánægjulegt. Honum hefur gengið vel í skóla og er kominn í menntaskóla núna. Það hefur verið mjög gaman að því að fylgjast með honum vaxa úr grasi og verða þessi myndarpiltur.“

Hengir upp mynd af Ísaki eins og sínum eigin börnum og barnabörnumÍsak

Börn þeirra Boga og Jónínu hafa alltaf verið meðvituð um að foreldrar þeirra séu að styrkja barn úti í heimi. „Þau hafa séð myndir af honum, ég hef stillt upp myndum af honum og er með eina slíka í vinnunni hjá mér, eins og af mínum eigin börnum og barnabörnum,“ segir Bogi og bætir við að það sé sýnileg áminning um að það séu margir sem hafi það miklu verra en Íslendingar.

Ísland í forréttindastöðu

„Auðvitað veit ég að það eru margir á Íslandi sem búa ekki við nægilega góðar aðstæður en við sem þjóð erum hin heppnu. Við erum meðal þessarra ríku 5 prósenta í heiminum. Við búum við kjör sem 95% í heiminum myndu gjarnan vilja búa við. Okkur sem erum svo heppin að geta það ber beinlínis skylda til að láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá nýtist hún afskaplega vel þegar hún er komin á áfangastað.“

Bogi lætur ekki staðar numið við að vera SOS-styrktarforeldri og notar fleiri tilefni til að veita umkomulausum börnum ástríkt heimili, fjölskyldu og bjarta framtíð í gegnum SOS Barnaþorpin.

Vill að greiðslur fyrir ræðuhöld renni til SOS Barnaþorpanna

„Ég hef stundum verið beðinn um að flytja kveðjur eða gamanmál við ýmis tækifæri hjá fólki sem ég þekki ekki, kannski í brúðkaupum eða fermingarveislum. Stundum hefur fólk boðið mér greiðslu fyrir en ég tek ekki greiðslu fyrir það. Í stað þess að þiggja hana bendi ég fólki á að greiða upphæð að eigin vali til SOS Barnaþorpanna. Ég legg það frekar í hendur hvers og eins hvað hann er til í að greiða fyrir það. Ég tek ekki greiðslu fyrir það. Mér finnst peningunum miklu betur varið hjá einhverjum sem þarf á þeim að halda.“

Bogi

Yljar manni um hjartarætur

Að lokum vill Bogi ítreka við landsmenn að þó hér búi ekki allir við allsnægtir þá búum við í allsnægtasamfélagi sem við eigum að vera þakklát fyrir. „Við eigum að þakka fyrir hvað við höfum það gott. Það yljar manni um hjartarætur að vita það að þessi litla upphæð kemur að gagni og hjálpar öðrum.“

Myndskeið með viðtali við Boga má sjá hér fyrir neðan.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði