Bjó á götunni en varð hjúkrunarfræðingur
Þegar Kamala Tapa var þriggja ára bjó hún á götunni í Katmandú, höfuðborg Nepal. Í dag er hún 26 ára hjúkrunarfræðingur í SOS barnaþorpinu í Sanathimi í Katmandú.
Við byrjum þessa frásögn á sjúkrastofunni í SOS barnaþorpinu. Þar situr tíu ára drengur á stól og er í skoðun hjá Kamölu. Eitthvað bjátar á og drengurinn er skelkaður. „Þetta verður allt í lagi. Ég er bara að athuga hvort ég sjái hvað veldur sársaukanum," segir Kamala og sest niður. Hún heldur á vasaljósi með annarri höndinni en tekur utan um annað eyra drengsins með hinni höndinni. Vinir hans fylgjast spenntir með.
Kamala þekkir öll börnin í barnaþorpinu mjög vel. Hún hefur unnið á sjúkrastofunni í þrjú ár og á hverjum degi bíða börn fyrir utan sjúkrastofuna þegar hún mætir. Líka heimilislausi hundurinn sem fylgir henni út um allt. Börnunum líður vel í návist Kamölu því hún skilur þau. Hún hefur líka misst foreldri eins og þau.
Strákar æðri en stelpur
Kamala fæddist árið 1994 í venjulegri lítilli fjölskyldu í litlu þorpi. Hún átti móður, föður og stóra systur. Þegar Kamala var 9 mánaða gömul veiktist hún af lungnabólgu en af því að hún er stelpa fékk hún hvorki lyf né mjólk. „Það er mjög mikið gert upp á milli stráka og stúlkna í Nepal. Kannski ekki mjög svo í borgunum lengur en meira úti í sveit. Þar vilja foreldrar frekar eignast stráka heldur en stúlkur. Mér líka það ekki," segir Kamala.
Erfitt fyrir konur án menntunar
Víða í Nepal, sérstaklega í dreifbýli þar sem gamlar hefðir einkenna samfélagið, er það enn þannig að strákar eru álitnir æðri en stúlkur. Það er ekki óalgengt að faðir yfirgefi fjölskyldu sína ef hann á ekki son. Algengt er að karlmennirnir starfi sem farandverkamenn erlendis til að geta framfleytt fjölskyldunni en það er líka algengt að þeir láti lífið við störf í hættulegum aðstæðum. Þá stendur eiginkonan eftir ein á báti með börnin, án vinnu og menntunar í samfélagi þar sem félagsþjónusta er vanþróuð. Það er því ekki óalgengt að móðirin yfirgefi börnin líka til að hefja nýtt líf.
Ég var þriggja ára þegar faðir minn yfirgaf okkur vegna þess að mamma gat ekki fætt honum strák. Kamala
Á götunni eftir að faðirinn hvarf
Líf Kamölu breyttist þegar faðir hennar yfirgaf fjölskylduna. „Ég var þriggja ára þegar faðir minn yfirgaf okkur vegna þess að mamma gat ekki fætt honum strák." Eftir stóð móðir Kamölu ein með tvö börn og algerlega tekjulaus. Hún tók þá ákvörðun um að fara með dætur sínar til Katmandú að freista gæfunnar og finna starf. Þangað komu mæðgurnar allslausar og bjuggu þær berskjaldaðar á götunni í einni menguðustu borg heims.
Við tóku fjögur ár sem Kamala segir þau erfiðustu sem hún hefur upplifað. Hún minnist þess hversu hrædd hún var á næturnar en hún fann fyrir öryggi af flækingshundum sem þær gáfu að borða og voru hjá þeim meðan þær sváfu. „Ég man að ég var alltaf svöng. Það var erfiðast að eiga aldrei fyrir grunnþörfum okkar. Við áttum sjaldan pening og ég komst ekki í skóla sem mér fannst einstaklega miður því mig langaði svo að læra," segir Kamala.
Vonleysi verður að von
Ástand mæðgnanna var komið að þolmörkum þegar litla systir Kamölu fæddist. Þá var Kamala komin að hluta til í skóla og skólastjórinn þekkti starfsmann hjá SOS Barnaþorpunum í nágrenninu sem hann kom þessari brothættu fjölskyldu í samband við. Leiðin út úr vonleysinu var fundin. SOS Barnaþorpin hjálpuðu fjölskyldunni fjárhagslega og allar systurnar byrjuðu í skóla. Ekki leið á löngu þangað til Kamala var færð upp um bekk því hún var fljót að læra. „Ég dýrkaði lærdóminn. Ég var svo fróðleiksfús að ég las meira að segja námsbækur eldri systur minnar þegar ég hafði tíma.
Kamala var fljótt farin að taka þátt í félagslífinu og varð formaður nemendaráðs auk þess sem hún tók þátt í dans- og tungumálakeppnum. Það sem skömmu áður virtist vonlaust var nú orðið að veruleika, þökk sé skólastjóranum, SOS Barnaþorpunum og styrktaraðilum þeirra annarsstaðar í heiminum.
„Ég er svo stolt en umfram allt þakklát fjölskylduáætlun SOS sem hjálpaði okkur að komast þangað sem við erum í dag. Vonandi mun saga mín verða til þess að fleiri styrki SOS Barnaþorpin því það eru líka börn utan barnaþorpanna sem þurfa á hjálp að halda," segir Kamala.
Fjölskylduaðstoð barnaþorpanna er keimlík fjölskyldueflingu SOS og gengur út á að hjálpa illa stöddum barnafjölskyldum til sjálfbærni. Auk þess að reka tíu barnaþorp hafa SOS Barnaþorpin í Nepal hjálpað hundruðum fjölskyldna á þennan hátt frá árinu 1994.
Aftur á sjúkrastofuna
Við erum komin aftur á sjúkrastofu Kamölu í barnaþorpinu í Sanothimi þar sem þessi frásögn hófst. Hún er búin að skoða eyrað á drengnum og allt er í himnalagi. Einhver aðskotahlutur var fastur sem Kamala er búin að fjarlægja. Fyrir utan bíða ennþá mörg börn eftir því að komast í skoðun enda búa 160 börn í barnaþorpinu í Sanothimi. Ef eitthvað amar að, líður þeim alltaf betur eftir að Kamala hefur skoðað þau.
298 börn í SOS barnaþorpum í Nepal eiga SOS-foreldra á Íslandi.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.