Afreksfólk í SOS Barnaþorpi
Þrjú börn sem búa í SOS Barnaþorpinu Khajuikalan á Indlandi munu keppa á heimsleikum fatlaðra í sumar en þeir fara fram í Suður Kaliforníu í lok júlí. Ungmennin sem leggja land undir fót í sumar heita Dolly, Shruti og Vijay og eru þau öll með sama lífsmottóið. „Aldrei gefast upp“, segja þau í kór og hlæja.
Dolly er 16 ára og er andlega fötluð. Hún er með áberandi brunasár í andlitinu eftir atburð sem hefur haft mikil áhrif á líf hennar en hún missti móður sína eldsvoða. Dolly kom í barnaþorpið árið 2007 og þurfti SOS móðir hennar, Lila, að hlúa vel að henni. „Dolly þurfti á mikilli andlegri aðstoð að halda. Hún vildi ekki hitta fólk og hafði í raun einangrað sig mikið. Með mikilli hvatningu, ást og umhyggju kom Dolly smám saman út úr skelinni,“ segir Lila.
Dolly hóf að æfa fyrir heimsleikana fyrir rúmum tveimur árum og er afar einbeitt. Hún keppir í hjólreiðum og hefur sett sér skýr markmið. Hún mætir á æfingar á hverjum morgni klukkan sex og borðar hollan og góðan mat.
„Á hverjum degi ímynda ég mér að ég sé komin til Los Angeles að keppa. Og ég vinn keppnina! Þá líður mér sko vel,“ segir Dolly brosandi.
Shruti er 15 ára og er andlega og líkamlega fötluð. Hún er mál- og heyrnarlaus og er í fimmta bekk í sérskóla. Shruti keppir líka í hjólreiðum og ætlar sér að vinna gullið. Dagurinn hennar byrjar og endar á hjólatúr og er hún afar einbeitt á æfingum og í keppnum.
Vijay er orkumikill andlega fatlaður 19 ára drengur. Snemma kom í ljós hversu hæfileikaríkur hann var í knattspyrnu og árið 2013 tók hann þátt í stóru alþjóðlegu fótboltamóti fatlaðra og var þar valinn besti leikmaðurinn. Hann æfir nokkrum sinnum á dag og ætlar sér að ná langt á heimsleikunum í sumar.
Við sendum þessum flottu krökkum óskir um gott gengi á heimsleikunum!
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.