35 milljónir í neyðarverkefni SOS Barnaþorpanna
-Fimm milljónir til Suður-Súdan þar sem hungursneyð hefur verið lýst yfir.
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að senda 35 milljónir til neyðarverkefna samtakanna í sex löndum. Um er að ræða lönd þar sem neyðin er mikil; Suður-Súdan, Írak, Mið-Afríkulýðveldið, Ekvador, Nígería og Níger. Fimm milljónir fara til hvers lands nema til Írak, þangað fara tíu milljónir.
Hungursneyð var lýst yfir í Suður-Súdan á dögunum en ástæður hennar eru ekki síst stríðsátök sem hafa staðið yfir í rúm þrjú ár. Átökin hafa hindrað matvælaframleiðslu og búskap ásamt því að neyða fjölskyldur til að flýja heimili sín. Staða barna í landinu er slæm en barnaþrælkun, kynferðisofbeldi á börnum og annað ofbeldi er því miður algengt. Helstu verkefni neyðaraðstoðar SOS eru matvælaaðstoð, sálræn aðstoð, heilbrigðisþjónusta, sameining fjölskyldna, barnavernd og menntun ásamt því að samtökin hafa komið upp neyðarskýlum og barnvænum svæðum.
Níger er eitt fátækasta ríki heims og var í neðsta sæti vísitölunnar um þróun lífsgæða árið 2012. Vegna þurrka og tíðra náttúruhamfara hefur fæðuöryggi verið lítið undanfarin ár. Þá hafa hryðjuverkasamtökin Boko Haram ráðist til atlögu í Níger en einnig hafa tugþúsundir flóttamanna frá Nígeríu og Malí komið til landsins. Neyðaraðstoð SOS í landinu felur í sér úthlutun matvæla, heilbrigðisaðstoð, sálræna aðstoð og menntun ásamt því að komið hefur verið upp barnvænum svæðum og neyðarskýlum.
Boko Haram hefur valdið miklum skaða í Nígeríu en neyðarástandi hefur verið lýst yfir í þremur héruðum landsins. Samkvæmt IOM (Alþjóða fólksflutningastofnunin) eru rúmlega tvær milljónir manna á flótta í landinu. Þar af ein milljón barna. SOS Barnaþorpin hafa komið upp neyðarskýlum og barnvænum svæðum ásamt því að veita matvælaaðstoð, heilbrigðisaðstoð og menntun.
Árið 2014 náði Íslamska ríkið yfirráðum yfir stórum hluta Íraks sem hefur síðan þá valdið mikilli neyð. Fólksflótti hefur aukist gríðarlega en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru tíu milljónir manna í þörf fyrir neyðaraðstoð í landinu. Fólk af Jasida trúarhópnum er í mikilli hættu þar sem Íslamska ríkið hefur herjað sérstaklega á þann hóp. SOS Barnaþorpin hafa komið upp nokkrum barnvænum svæðum í Írak fyrir börn í neyð. Önnur verkefni neyðaraðstoðarinnar eru dreifing matvæla, sálræn aðstoð, heilbrigðisþjónusta, lögfræðiaðstoð og menntun.
Blóðug styrjöld hefur geisað í Mið-Afríkulýðveldinu síðan árið 2013. Talið er að hálf þjóðin, eða rúmar tvær milljónir manna, þurfi á neyðarðastoð að halda. Aðskilnaður barna og foreldra er stórt vandamál í landinu en talið er að ein og hálf milljón barna sé í hættu. SOS í landinu hafa komið upp fjölda neyðarskýla og barnvænna svæða ásamt því að dreifa matvælum, útvega menntun og heilbrigðisþjónustu. Mikil áhersla er lögð á aðstoð við börn og mæður.
Stór jarðskjálfti reið yfir Ekvador í apríl á síðasta ári sem hafði gríðarlega eyðileggingu í för með sér. Talið er að yfir áttatíu þúsund Ekvadorar séu heimilislausir. Strax í kjölfar skjálftans hófu SOS Barnaþorpin neyðaraðstoð sem er enn í gangi. Ári eftir hamfarirnar er áhersla lögð á starfsemi barnvænna svæða, aðstoð við fjölskyldur sem búa í neyðarskýlum og barnvernd.
SOS Barnaþorpin eru staðsett í 134 löndum um allan heim og eru samtökin því í mjög góðri stöðu til að hefja neyðaraðstoð þegar þörf er á. Hægt er að styðja við neyðaraðstoð samtakanna með frjálsum framlögum inn á reikning 334-26-52075, kt. 500289-2529 en einnig nýtast valkröfur í heimabanka í slík verkefni.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.