SOS sögur 26.janúar 2016

14 mánaða og vó aðeins 6 kíló

Stephen fæddist í Kamerún árið 2008 en móðir hans var mikið fötluð. Hún lést árið 2009, þá aðeins 28 ára gömul og var Stephen litli þá sendur til aldraðar langömmu sinnar.

Gamla konan var með fjögur barnabörn á sínu framfæri og átti afar erfitt með að sjá fyrir þeim. Þau bjuggu á götunni og reyndi hún eftir fremsta megni að útvega þeim mat og aðrar nauðsynjar. Hún sá hinsvegar ekki fram á að geta fætt öll börnin og ákvað því að fara með þau í SOS Barnaþorp sem staðsett var í nágrenninu.

Vel var tekið á móti börnunum fjórum í SOS Barnaþorpinu í Mbalmayo þar sem þau búa í dag. SOS móðir Stephens og systkina hans, Aline, tók persónulega á móti Stephen þegar langamma hans kom með hann í þorpið. Stephen kom nokkrum dögum á undan systkinum sínum vegna þess hve líkamlegt ástand hans var slæmt.

„Ég man vel eftir deginum sem Stephen kom fyrst til okkar. Langamma hans kom með hann ásamt félagsráðgjafa SOS og hún gat varla hætt að gráta. Hún sagði litla drengnum aftur og aftur að hún væri ekki að hafna honum og myndi koma að heimsækja hann, sem hún hefur svo reglulega gert,“ segir Aline.

tpa-picture-52594.JPGAline segir litla drenginn hafa verið í kjól sem upphaflega var hvítur en var í raun orðinn brúnn vegna óhreininda. Þá var hár hans litarlaust og litli líkami hans afar vannærður. „Við gáfum honum strax næringardrykk fórum svo með hann á spítalann þar sem hann var greindur með mikla vannæringu og sýkingu. Hann var vigtaður og litla greyið vó aðeins 6 kíló, þá 14 mánaða gamall,“ segir Aline.

Stephen þurfti að dvelja á spítalanum í eina viku en fór svo aftur í barnaþorpið. Hann þurfti þó fara í skoðun einu sinni á dag og fylgdi að sjálfsögðu sérstakri næringaráætlun. „Þegar hann snéri aftur voru systkini hans einnig komin og það voru því miklir fagnaðarfundir.“

Aline segir öll systkinin hafa þroskast mikið á fyrstu vikum sínum og mánuðum í þorpinu. Að fá góða næringu, komast í skóla og vera innan um önnur börn gerði kraftaverk fyrir þau. „Stephen náði sérstaklega góðum bata á skömmum tíma. Eftir tvo mánuði var hann byrjaður að ganga og eftir þrjá mánuði kunni hann að segja nöfnin á öllum fjölskyldumeðlimum sínum,“ segir Aline stolt.

Stephen hélt áfram að gera SOS móður sína stolta því hann fékk leyfi frá læknum til að byrja á leikskóla átján mánuðum eftir að hann kom í þorpið, þá tæplega þriggja ára gamall. Sex ára gamall byrjaði hann svo í skóla og stendur sig afbragðsvel. „Ég er stolt af öllum börnunum mínum en vegferð Stephens hefur verið ótrúleg. Hann segist ætla að vera kennari og ég get vel ímyndað mér að hann láti þann draum rætast,“ segir Aline um son sinn.  

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði