Kópahvoll - upplýsingar
Sólblómaleikskólinn Kópahvoll
Kópahvoll og Kevin Josías
Leikskólinn Kópahvoll gerðist sólblómaleikskóli í byrjun ársins 2019. Í kjölfarið gerðist leikskólinn styrktarforeldri ungs drengs í Paragvæ. Það þýðir að leikskólinn styrkir framfærslu drengsins með árlegu framlagi sem börn og starfsfólk leikskólans hjálpast að við að safna.
Kevin Josías flutti í barnaþorpið í Asunción vegna þess að hann átti ekki foreldra sem gátu annast hann. Í barnaþorpinu hefur Kevin Josías fengið nýtt upphaf hjá SOS mömmu sinni sem veitir honum ást og umhyggju. Þar er öllum grunnþörfum hans er mætt og hann fær að ganga í skóla.
Börnin í Kópahvoli fá reglulega fréttir og myndir af Kevin Josíasi og geta sent honum bréf og myndir. Kevin Josías talar annað tungumál, býr í öðru landi og við aðrar aðstæður en þau sjálf.
Nýjar fréttir af Kevin Josíasi 2025
(eldri fréttir má finna neðar á síðunni)
Kevin Josías kláraði síðasta skólaár með stæl og er nú byrjaður í 4. bekk í sama skóla. Hann er í skólanum frá kl. 8-15 á daginn. Uppáhaldsfagið hans í skólanum er Guarani tungumálið en stærðfræði er minnst í uppáhaldi því honum finnst hún aðeins erfiðari. Josiasi finnst gaman að fara í skólann, ekki bara til að læra heldur til að leika við vini sína og bekkjarfélaga í frímínútunum. Þeir spila saman fótbolta í pásunum og í leikfimi eftir að þeir hafa klárað það sem þeir eiga að gera í tímanum.
Kevin Josías á leið heim úr skólanum
Skósveinn í nokkra klukkutíma
Kevin Josíasi finnst líka gaman að taka þátt í alls konar viðburðum í skólanum eins og til dæmis hæfileikakeppninni sem haldin er árlega í september. Hver bekkur undirbýr sýningu þar sem nemendur dansa, syngja, leika eða sýna listir sínar. Á síðasta ári var bekkurinn hans Josí með Skósveina dans (Minions dans) á sýningunni. Krakkarnir voru með hatta, stór gleraugu eins og skósveinarnir nota, í gulum bolum og bláum stuttbuxum. Kennararnir þeirra kenndu þeim sporin og krakkarnir stóðu sig mjög vel. Sumir reyndu meira að segja að tala eins og skósveinar og það fannst Josí fyndið.
Kevin Josías, eða Josi, eins og allir kalla hann, er afar líflegur íþróttastrákur. Hann er alltaf á ferðinni í leit að nýju ævintýri. Þú finnur hann yfirleitt á íþróttavellinum. Þar lærir hann eitthvað nýtt tvisvar í viku með íþróttakennaranum sínum og öðrum börnum.
Josi finnst gaman í íþróttum í þorpinu
Fjörugur íþróttastrákur
Josi vill aldrei missa af æfingu. „Við æfum frjálsar íþróttir, hlaup, langstökk og síðan í fyrra höfum við líka verið að spila hokkí, en uppáhaldsíþróttin mín er alltaf fótbolti,“ segir Josi. Josi og vinir hans spila líka fótbolta með þýskum sjálfboðaliða sem hefur búið í þorpinu síðastliðið ár. Josi fer á fótboltaæfingu tvisvar í viku í InterCampus fótboltaskólanum. Fótboltaskólinn er rétt hjá þorpinu og þá daga sem fótboltaæfingarnar eru, þá er Josi í æfingatreyjunni sinni allan daginn. Honum finnst skemmtilegast að fara í aðrar borgir til að keppa við önnur lið. Í fyrra voru þeir meistarar í sínum flokki.
Þegar Josias er ekki að spila fótbolta langar hann til þess að horfa á teiknimyndir heima hjá sér eða leika með leikföngin sín. Uppáhalds sjónvarpsþátturinn hans er Teen Titans og Transformers. Stundum horfir hann líka á bíómyndir í tölvunni. Hann og systkini hans horfa stundum saman á Shrek eða aðrar bíómyndir. Uppáhalds myndin hans er Ísöld.
Góð tengsl
Josías á í mjög góðu sambandi við SOS fjölskyldu sína og honum finnst alltaf gaman þegar fjölskyldan kemur saman við hátíðleg tilefni. Hann á mjög traust og kærleiksríkt samband við Lauru, umönnunaraðila sinn. Hann bíður spenntur eftir jólum og áramótum því þá fær hann að fara með Lauru að hitta fjölskyldu hennar. Þar hittir hann ættingja Lauru sem hann hefur fengið að kynnast og þar eru margir vinir sem hann getur leikið við. Honum finnst alltaf mjög gaman þar. Þá er líka alltaf svo góður matur og eftir miðnætti þá safnast fjölskyldan saman til að horfa á flugeldana.
Fréttir af Kevin Josíasi 2024
Þolinmæði og æfingin skapa meistarann
Kevin gekk mjög vel í 2. bekk. Hann á enn í smá erfiðleikum með stafina en kennarinn hans hjálpar honum að æfa sig og honum fer fram á hverjum degi. Hann er nú farinn að lesa. Kevin finnst gaman að teikna og lita. Hann varð mjög glaður þegar hann fékk liti og litabók að gjöf. Hann byrjaði strax að lita.
Kevin Josías elskar að teikna og passar vel upp á litina sína
Dans og leikur í skólanum
Kevin tók þátt í mörgum hátíðum á vegum skólans. Í lok árs 2023 tók hann þátt í íþróttahátíð skólans. Á fjölskyldudeginum klæddi hann sig upp í hefðbundinn paragvæskan búning, svartar buxur, hvíta skyrtu og stráhatt, og sýndi paragvæskan dans með bekkjarfélögum sínum. Honum fannst líka gaman á degi barnsins. Þá fékk hann að hoppa í hoppukastala með vinum sínum og í lok dags fengu allir köku og heitt súkkulaði.
Skemmtilega byrjun á deginum
Þriðjudagar og fimmtudagar eru uppáhalds dagar Kevins því þá kemur íþróttakennari í þorpið og kennir Kevin og vinum hans fótbolta. Kevin hefur mjög gaman af íþróttum og leggur sig allan fram. Hann hefur líka verið að læra hokkí en honum finnst það ekki jafnskemmtilegt, hann hefur meira gaman af fótbolta. „Þegar ég verð stór langar mig til að verða fótboltamaður og spila fyrir uppáhalds liðið mitt, Olimpia“, segir Kevin.
Kevin finnst gaman að prófa sig áfram með vatnsliti
Myndlistarnámskeið
Kevin var svo heppin að hann fékk að fara á myndlistarnámskeið síðastliðið sumar. Þar var meðal annars kennt hvernig ætti að nota vatnsliti. Kevin finnst skemmtilegast að teikna hús og tré. Og talandi um tré, Kevin er mjög hrifin af trjám og afar duglegur að klifra upp í þau. Þar nýtur hann þess að borða ávexti eins og mangó og gúava.
Kevin finnst líka mjög gaman að leika á leikvellinum með vinum sínum. Þeir skemmta sér vel við að róla og keppa stundum í því hver getur stokkið lengst úr rólunum eða hver getur rólað hæst. En honum finnst líka gaman að leika í sandkassanum, grafa djúpar holur og byggja sandkastala.
Kevin og litli bróðir
Kevin varð 8 ára í október 2023 og þá hélt hann upp á afmælið sitt. Hann bauð nokkrum vinum heim og þeir skemmtu sér vel. „Við fengum alls konar góðgæti og auðvitað stóra köku líka“, sagði Kevin.
Það eru sterk tengsl milli Kevins og systkina hans, sérstaklega hans og Carlito*, yngsta bróður hans, sem hann elskar að leika við. Þeir horfa líka á teiknimyndir saman í tölvunni. „Ég elska bróðir minn mjög mikið. Hann hlær alltaf með mér“, segir Kevin.
Kevin er mjög hress og hrífandi strákur. SOS mamma hans þarf að fylgjast vel með honum því hann er alltaf að klifra í trjám. Hann á sér líka nýtt áhugamál, að henda öllu sem hann finnur á jörðinni, steinum, greinum og stundum plastflöskum. Mamma hans minnir hann á að þetta geti verið hættulegt.
Hokkí kennsla í barnaþorpinu
Jólabréfið 2024
Hvað gerði Kevin í vetrarfríinu sínu í júlí? Hann gerði það sem honum finnst skemmtilegast, spilaði fótbolta. Fyrstu dagana í fríinu var þó frekar kalt svo þau vörðu meiri tíma inni við. Þar horfðu þau saman á bíómyndir og systur hans æfðu dans. Þegar veðrið skánaði kom íþróttakennari í þorpið á hverjum degi í eina viku og kenndi þeim mismunandi íþróttir, hokkí, blak og auðvitað fótbolta. Þau kepptu líka á móti sem þau skipulögðu sjálf. “Það var uppáhalds parturinn af fríinu mínu”, sagði Kevin.
Fréttir af Kevin Josíasi 2023
Kevin Josías með litla bróður
Fullkominn dagur fyrir Kevin Josías.
Kevin Josías hefur stækkað mikið og er fjörugur og heilbrigður strákur. Hann hélt upp á 7 ára afmælið sitt (2022) á veitingastað og fannst það alveg frábært. SOS mamma hans, Estela, fór með hann og systkini hans á veitingastað þar sem hann fékk uppáhaldsmatinn sinn, hamborgara og franskar. Hann fékk líka afmælispakka.
Framfarir
Kevin kláraði 1. bekk með stæl og fannst gaman að fara aftur í skólann. Honum þótti einstaklega skemmtilegt að fá að vera í bekk með Jonasi, besta vini sínum sem býr í næsta húsi. Kevin gengur vel í skólanum og hann er duglegur nemandi. Hann kann að telja upp á 60 og uppáhaldsfagið hans er spænska (því þá fær hann að æfa sig í tölvunni). Kevin semur vel við bekkjarfélaga sína og skemmtir sér ævinlega vel á skemmtunum í skólanum.
Kevin Josías litar
Fótbolti og klifur
Kevin Josías æfir nú fótbolta tvisvar í viku. Hann segir hreykinn frá því að á síðasta ári hafi þeir sigrað úrslitaleikinn og orðið meistarar, hann hafi meira að segja skorað mark. En ástríða hans fyrir að klifra í trjám hefur ekki minnkað. Hann elskar að klifra í trjám og þar nær hann sér í guava ávöxt. Mamma hans segir að það sé óhjákvæmilegt fyrir hann að klifra í trjám. En hún biður hann um að fara varlega og fylgist vel með honum.
Áhugi á tækni
Kevin er mjög áhugasamur um tölvur. Hann spyr margra spurninga um hvernig hlutirnir og takkarnir virka í tölvunni. Hann er áhugasamur um tæknimál og tölvan er uppáhalds dótið hans núna. Það er borðtölva í stofunni sem hann getur spilað leiki á og horft á uppáhalds þáttinn sinn, Dragon Ball. Kevin er líka duglegur að teikna.
Litli bróðir
Kevin Josíasi líður vel hjá SOS fjölskyldu sinni og er mjög glaður því nú hefur hann eignast lítinn bróður, Christofer, sem hann elskar að leika við. „Það er svo gaman að leika við hann“, segir Kevin. „Hann hleypur í burtu þegar maður eltir hann og svo þegar ég næ honum þá kitla ég hann“.
Fréttir af Kevin Josias 2022
Kevin Josias eða Josi eins og fjölskylda hans kallar hann, hélt upp á 6 ára afmælið sitt í október á síðasta ári (2021). Hann bauð vinum sínum í smá afmælispartý þar sem hann bauð upp á veitingar, límónaði, fullt af nammi og dýrindis köku. Þau fóru í leiki og kepptu í tölvuleikjum. Josi er heilbrigður, líflegur strákur sem dafnar vel í barnaþorpinu.
Josi bjó til þetta jólatré úr klósettrúllum. Hann límdi þær saman, málaði og skreytti.
Skólastrákur
Josi er nú einn af „stóru strákunum“ því hann byrjaði í skóla á árinu, í 1. bekk. Þar kynnist hann nýjum skólafélögum. Hann útskrifaðist úr leikskólanum sínum og getur nú skrifað nafnið sitt sjálfur. SOS mamma hans, Estela, segir að hann sé mjög klár strákur og sé fljótur að læra en geti þó líka verið svolítið hávær :)
Leikur og tómstundir
Josi er mjög fjörugur strákur sem finnst gaman að leika sér. Honum finnst skemmtilegast að verja deginum úti með vinum sínum Jonas og Wilson sem eru báðir jafn fjörugir og Josi. Þeir fara í feluleik og í „löggu og bófa“. Josi vill alltaf leika lögguna því hann langar til að verða lögreglumaður þegar hann verður stór og eltast við alvöru bófa.
Josi finnst mjög gaman að spila fótbolta og verður mjög glaður þegar þjálfarinn kemur í barnaþorpið hans til að æfa með þeim. Hann skorði mark í síðasta leik og tileinkaði það mömu sinni. Josi segir að það sé líka boðið upp á Taekwondo en honum finnst það ekki alveg jafn skemmtilegt og horfir bara á hina æfa.
Josi með köttinn sinn Tom sem hann elskar að leika við, knúsa og klappa.
Fjölskyldulífið
Josi finnst auðvitað líka gaman að horfa á sjónvarpið, sérstaklega Teen Titans Go! Hann hefur gaman af ofurhetjum og uppáhlads ofurhetjan hans er Köngulóarmaðurinn. Uppáhalds fótboltaliðið hans er Olimpia.
Josi semur mjög vel við SOS fjölskyldu sína. Hann og eldri systir hans Fio rífast þó stundum eins og systkini gera oft en þau ná líka fljótt að sættast og halda áfram að leika. Josi segir okkur frá síðust ferð sem hann fór með fjölskyldunni. Þá fóru þau í verslunarkjarna en fyrst fengu þau hamborgara og franskar. Í verslunarkjarnanum er stór leikvöllur þar sem hann skemmti sér konunglega.
Hvað stóð upp úr 2022?
Þegar Kevin Josias var spurður hvað honum hefði fundist skemmtilegast á árinu þá svaraði hann: „Það sem mér fannst skemmtilegast á árinu var þegar við héldum upp á Barnadaginn (Children´s Day). Ég skemmti mér vel með öllum vinum mínum, við fórum í marga skemmtilega leiki og borðuðum fullt af nammi.“
Kevin Josías
Kevin Josías er mjög orkumikill og ljúfur drengur. Hann elskar að klifra upp í tré og leika við systkini sín og vini. Hann er mjög náinn SOS mömmu sinni og er duglegur að teikna fyrir hana fallegar myndir. Uppáhalds maturinn hans eru núðlur og vori vori sem er paragvæsk kjúklingasúpa með maís og ostakúlum. Honum finnst mjög gaman að leika sér með litla leikfangabíla og Spiderman er í miklu uppáhaldi.
Sólblómaleikskóli SOS Barnaþorpanna
Sólblómaleikskólar eru samstarfsverkefni milli SOS Barnaþorpanna og leikskóla á landinu þar sem leikskólabörn fá tækifæri til að kynnast börnum frá öðrum löndum, fræðast um aðstæður þeirra og menningu ásamt því að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað.
Á hverju ári fá leikskólarnir nýtt fræðsluefni í formi veggspjalda og myndbanda þar sem mismunandi lönd eru kynnt og saga ákveðinna barna í barnaþorpum sögð. Börnin fræðast einnig um réttindi barna út frá Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Sólblóm er tákn verkefnisins enda eru sólblóm og börn ekki svo ólík, bæði þurfa umhyggju og næringu til að vaxa og dafna.