Sólblómaleikskólar

Sólblómaleikskólar SOS Barnaþorpanna er samstarfsverkefni milli SOS Barnaþorpanna og leikskóla á landinu. Um er að ræða verkefni þar sem leikskólabörnin fá tækifæri til að fræðast um börn í öðrum löndum, fá að kynnast menningu þeirra og aðstæðum ásamt því að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað.


Öll börn eiga sömu réttindi, sama hvar þau búa. Börn um allan heim fæðast með sömu getu og hæfileika til að blómstra en stundum hefur umhverfið sem þau alast upp í áhrif á tækifæri þeirra. SOS Barnaþorpin ásamt Sólblómaleikskólum landsins tryggja að enn fleiri börn heimsins fái tækifæri til að blómstra.

Hugmyndin að verkefninu kemur frá SOS Barnaþorpunum í Noregi og varð sólblómið valið sem tákn verkefnisins, enda eru sólblóm og börn ekki svo ólík, þau þarfnast bæði umhyggju og næringar til að vaxa og dafna.

Margir Sólblómaleikskólar hafa valið eina af eftirfarandi leiðum til að styðja við starf SOS Barnaþorpanna:

  • Með því að gerast styrktarforeldrar (Þá styrkja þeir eitt ákveðið barn í SOS Barnaþorpi)
  • Með því að gerast þorpsvinir (styrkja eitt ákveðið barnaþorp)
  • Með söfnun þar sem peningarnir eru nýttir í neyðarverkefni á vegum SOS Barnaþorpanna

Fræðsluefni Sólblómaleikskóla Bosnía-Hersegóvína 2022-2023

Myndböndin 2022-2023

  

Fræðsluefni Sólblómaleikskóla Víetnam 2020-2021

Myndböndin 2020-2021

Veggspjöldin 2020-2021

Hér er hægt að nálgast öll veggspjöldin á power point formi

Svona eru Sólblómaleikskólar

Hér fyrir neðan má sjá sjónvarpsumfjöllun Hringbrautar um Sólblómaleikskóla SOS. Farið var í heimsókn í leikskólann Álfaheiði í Kópavogi sem er fyrsti Sólblómaleikskólinn á Íslandi. Hér má svo lesa frétt okkar sem skrifuð var upp úr innslaginu.

Fræðsluefni

Sólblómaleikskólar fá tilbúið fræðsluefni frá SOS Barnaþorpunum sem þeir geta nýtt til að fræða leikskólabörnin um önnur lönd og aðra menningarheima og hversu mikilvægt það sé að bera virðingu fyrir öðrum þó svo að lifnaðarhættir og aðstæður séu öðruvísi en þau þekkja sjálf.

Fræðsluefnið er í formi veggspjalda og myndbanda þar sem mismunandi lönd eru kynnt og saga ákveðinna barna í barnaþorpum sögð. Farið er yfir réttindi barna og börnunum gefst svo tækifæri til að ræða saman um efnið. Einnig er hægt að nálgast uppskriftir og leiki frá ýmsum löndum sem hægt er að kenna börnunum.

SOS Barnaþorpin bjóða einnig upp á kynningar í Sólblómaleikskólum (bæði fyrir börn og starfsfólk/foreldra) og geta einnig tekið þátt í hátíðum og söfnunum sem leikskólinn stendur fyrir.

Sólblómagleði og Sólblómahátíð

Á hverju ári standa SOS Barnaþorpin fyrir Sólblómahátíð sem öllum Sólblómaleikskólum gefst kostur á að taka þátt í. Leikskólarnir fá sendan til sín hátíðarpakka sem hver leikskóli getur notað til að halda sína eigin Sólblómahátíð. Þá gera leikskólabörnin og starfsmenn leikskólans sér glaðan dag, kynna sér mismunandi menningarheima, mat eða hvað svo sem börnum og starfsfólki dettur í hug.

Það geta allir leikskólar orðið Sólblómaleikskólar! Reynslan með verkefninu hefur sýnt fram á að þátttaka í því hefur jákvæð áhrif á börnin, þau læri um ólíka menningarheima og venjur og sjá að fjölskyldur geta líka verið mismunandi.

Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Hjördísi fræðslufulltrúa á hjordis@sos.is eða í síma 564-2910.

Grunnskólar

Kynningar í grunnskólum

SOS Barnaþorpin bjóða grunnskólum landsins upp á kynningu á starfsemi samtakanna, löndunum sem við störfum í, börnunum sem þar búa og réttindum þeirra. Einnig er hægt að hafa samband ef þið hafið sérstakar óskir.

Hægt er að bóka kynningu í síma 564 2910 eða á hjordis@sos.is.

SOS Barnaþorpin standa einnig fyrir Öðruvísi jóladagatali á hverju ári þar sem grunnskólum býðst að taka þátt. Nánar er hægt að lesa um dagatalið í sérstökum kafla.