Ný Fjölskylduefling í Rúanda
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa hrundið af stað nýrri fjölskyldueflingu í Rúanda. Þetta er fimmta fjölskyldueflingarverkefnið frá upphafi sem er á ábyrgð SOS á Íslandi. Undirbúningur hófst um sl. áramót og hefst verkefnið formlega í byrjun apríl n.k. Það er til fjögurra ára eða út árið 2025.
Fjölskylduefling SOS er forvarnarverkefni. Markmið hennar er að forða börnum frá aðskilnaði við illa stadda foreldra sína í sárafátækt með því að styðja fjölskyldurnar til fjárhagslegs sjálfstæðis. SOS á Íslandi rekur tvö önnur slík verkefni, eitt í Eþíópíu og annað í Malaví.
Hvar við hjálpum og hverjum
Verkefnið okkar í Rúanda er í Nyamiyaga hlutanum í Gicumbi héraði og eru skjólstæðingar þess um 1.400 börn og ungmenni og foreldrar þeirra í 300 fjölskyldum sem búa við sárafátækt. Af 21 þúsund íbúum þessa svæðis búa yfir 6.200 þeirra við örbirgð. Þjóðarmorðin árið 1994 lögðu áður veikbyggða innviði landsins í rúst og glímir þjóðin enn við afleiðingar þeirra.
Fjögur SOS barnaþorp eru í Rúanda og í þeim eru 47 börn sem eiga SOS-foreldra á Íslandi. Verkefnasvæðið okkar er nálægt barnaþorpinu í Byumba, höfuðborg Gicumbi hérðs. Þar búa 12 börn sem eiga SOS-foreldra á Íslandi.
Sjá líka: 39% búa við fátækt
Mikið ofbeldi gegn börnum
Yfirskrift verkefnisins er Uburumbuke Iwacu eða Velsæld í fjölskyldum og samfélagi. Markmið þess er að ráðast á rót helstu vandamála sem ógna velferð barna á svæðinu og má þar helst nefna háa tíðni ofbeldis gegn börnum, vanrækslu, yfirgefin börn og sundrungu í fjölskyldum. Vandamálin sem verkefnið mun ráðast gegn eru m.a. örbirgð og vannæring, takmörkuð þekking á réttindum barna, færni í jákvæðu uppeldi, barnavernd, heilbrigðisþjónustu, hreinlæti, kynjajafnrétti, vernd gegn HIV og kynbundið ofbeldi.
Svona hjálpum við
Fjölskylduefling SOS hefur verið í Rúanda í 15 ár og mun þetta verkefni okkar byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem þarna hefur skapast. Það sem skilar árangri í fjölskyldueflingu SOS er m.a. að
- innleiða hugarfarsbreytingu,
- efla þekkingu í fjármálum,
- veita aðgengi að vaxtalausum lánum,
- auka aðgengi að næringarríkum mat,
- gera landbúnað sjálbæran,
- hjálpa foreldrunum að koma á laggirnar tekjuaflandi rekstri
- og síðast en ekki síst verknám sem hefur reynst sérstaklega árangursríkt í þessum verkefnum.
Eins og í öllum verkefnum á vegum SOS er rík áhersla lögð á valdeflingu kvenna og kynjajafnrétti. Þolendum kynbundins ofbeldis er veitt sálfræði- og lögfræðiþjónusta.
Fjármögnun
Fjölskylduefling okkar í Rúanda er fjármögnuð af íbúðaleigufyrirtækinu Heimstaden að mestu leyti. Heimstaden fjármagnar fyrsta verkefnisárið að fullu en 90% síðustu þrjú árin. Mótframlag SOS er sem fyrr fjármagnað af styrktaraðilum, SOS-fjölskylduvinum. Heildarkostnaður þess er um 715.000 evrur.
Verkefnin okkar í Eþíópíu og Malaví eru að stærstum hluta fjármögnuð með stuðningi Utanríkisráðuneytisins en mótframlag SOS á Íslandi sem fyrr með framlögum SOS-fjölskylduvina.
Fimmta verkefnið hjá SOS á Íslandi
Þetta er fimmta fjölskyldueflingarverkefnið frá upphafi sem er á ábyrgð SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Við höfum áður verið með verkefni í Gíneu Bissá og Filippseyjum auk núverandi verkefna okkar í Rúanda, Eþíópíu og Malaví.
Nýlegar fréttir
SOS neyðarvinur - ein styrktarleið fyrir alla neyðaraðstoð SOS
Neyðin í heiminum hefur sjaldan verið meiri og útbreiddari og neyðaraðgerðum SOS Barnaþorpanna fer fjölgandi. SOS á Íslandi hefur því ákveðið að sameina framlög til neyðaraðgerða samtakanna undir eina...
Skrifstofa SOS lokuð milli jóla og nýárs
Skrifstofa SOS Barnaþorpanna verður lokuð milli jóla og nýárs og við opnum aftur 2. janúar. Þurfirðu að koma á framfæri erindi til okkar bendum við á netfangið sos@sos.is og við svörum þér strax og sk...