Fréttayfirlit 7. september 2020

Hindranir í Eþíópíu en engin smit

Hindranir í Eþíópíu en engin smit

Til fjölskylduvina SOS Barnaþorpanna á Íslandi!

Framlag þitt skiptir svo sannarlega máli í aðstoð okkar við barnafjölskyldur í sárafátækt í gegnum fjölskyldueflingu SOS og fyrir það viljum við færa þér innilegar þakkir. Með aðstoð þinni og utanríkisráðuneytisins fjármögnum við tvö fjölskyldueflingarverkefni, á Filippseyjum og í Eþíópíu.

Við hjá SOS Barnaþorpunum á Íslandi sinnum eftirliti með þessum verkefnum og eigum reglulega fjarfundi með stjórnendum þeirra.

Góðar og slæmar fréttir frá Eþíópíu

Við vorum að fá í hendurnar árangursskýrslu fyrir fyrri hluta þessa árs í verkefninu á Tulu Moye svæðinu í Eþíópíu og viljum upplýsinga þig um gang þess. Fyrst viljum við færa þér þær góðu fréttir að engin kórónuveirusmit hafa greinst, hvorki meðal starfsfólks né skjólstæðinga í fjölskyldueflingunni.

560 foreldrar og 1599 börn þeirra fá aðstoð í gegnum fjölmargar leiðir í fjölskyldueflingunni í Eþíópíu og nú er talsverð reynsla komin á verkefnið sem hófst í janúar 2018. Árangurinn fyrstu tvö árin stóðst væntingar okkar og áætlanir en það verður að segjast eins og er að kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn á þessu ári.

Allir skólar lokaðir

Neyðarástandi var lýst yfir af stjórnvöldum í Eþópíu og þar af leiðandi eru samgöngu- og samkomutarkmarkanir í gildi. Allir skólar eru lokaðir og börn fá enga kennslu. Mörg þeirra eru því aftur komin í sama gamla farið og áður, að vinna til að afla fjölskyldum sínum aukinna tekna.

Góðu fréttirnar eru þó þær að það tókst að ljúka þjálfun kennara áður en skólum var lokað svo kennsla getur hafist af krafti þegar slakað verður á samkomutakmörkunum. Einnig náðist að ljúka námskeiði fyrir nemendur til eflingar námshæfileika þeirra. Samstarf er við skóla á svæðinu svo fjölskyldueflingin nýtist því ekki bara skjólstæðingum okkar heldur öllu samfélaginu.

Þá náðist einnig að útvega hin ýmsu skólagögn sem bíða tilbúin eftir því að kennsla hefjist að nýju.

Öryggisnet fyrir fjölskyldur í kröggum

Eitt af markmiðum verkefnisins var að kenna foreldrum að spara pening ásamt því að veita þeim lán á lágum vöxtum til atvinnusköpunar og hefur það borið góðan árangur. Reynsla verkefnisins hefur sýnt að það var svo sannarlega þörf á að innleiða sparnaðarmenningu í samfélagið og langflestir standa skil á lánunum sínum.

Vegna Covid-19 hefur hins vegar orðið bakslag hjá nokkrum barnafjölskyldum sem áður voru á góðri leið með að geta staðið á eigin fótum. Gengið hefur á sparnaðinn og nokkuð er um að fólk eigi í vandræðum með að greiða af lánum sínum. Brugðist var við því með auknu fé til lánafyrirtækja verkefnisins og hefur það hjálpað fjölskyldunum mikið í erfiðum aðstæðum.

Mataraðstoð og vannæring

Tekist hefur að draga úr neikvæðum áhrifum Covid-19, m.a. með matargjöfum til 156 fjölskyldna í viðkvæmri stöðu og íbúar í dreif- og strjálbýli voru styrktir um nautgripi. Brugðist var við vannæringu 43 barna undir fimm ára aldri og var foreldrum þeirra útveguð fæðubótarefni fyrir börnin. Vitundarherferð um hreinlæti var hrundið af stað og hreinlætisvörum dreift til fólks. Þá hefur aðgengi að hreinu vatni verið aukið til muna.

Börn vernduð fyrir heimilisofbeldi

Þá er barnavernd ofarlega á baugi því heimilisofbeldi hefur aukist síðan heimsfaraldurinn skall á. Samstarf er við FM útvarpsstöð á Tulu Moye svæðinu þar sem öllum mikilvægum upplýsingum er komið á framfæri. Útvarpshlustun er mikil á svæðinu og hefur þetta átak því reynst vel.

Verkefnastjórn í góðum höndum

Þrátt fyrir fyrrnefndar áskoranir getum við hér á Íslandi ekki annað en verið sátt við hvernig starfsfólk vefkefnisins í Eþíópíu tekur á þeim. Það er ljóst að verkefnastjórnin er í góðum höndum.

Við vonum að þessi samantekt gefi þér góða sýn á það mikilvæga starf sem felst í fjölskyldueflingu okkar í Eþíópíu. Hafir þú einhverjar spurningar sem þú getur ekki fundið svör við í þessari yfirferð er  þér meira en velkomið að hafa samband við okkur.

Innilegar þakkir fyrir stuðning þinn við barnafjölskyldur í sárafátækt með því að vera SOS-fjölskylduvinur. Fjölskylduefling SOS hefur gert fjölmörgum foreldrum í sárafátækt kleift að sjá fyrir börnum sínum og forðað þeim frá aðskilnaði.

Nýlegar fréttir

Börnin í Líbanon heil á húfi
16. okt. 2024 Almennar fréttir

Börnin í Líbanon heil á húfi

SOS Barnaþorpin í Líbanon hafa staðfest að öll börn og ungmenni á framfæri samtakanna í landinu eru heil á húfi. Stríðsástandið í landinu hefur þó áhrif á börnin sem áfram er hlúð vel að.

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan
8. okt. 2024 Almennar fréttir

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan

Þúsundir Íslendinga hafa lagt neyðarsöfnunum SOS Barnaþorpanna lið á árinu með smærri og stærri framlögum. Nú í október barst rausnarlegt framlag frá félagsskap nokkurra kylfinga í Golfklúbbnum Oddi, ...