Framfleytir 10 manna fjölskyldu á 10 þúsund krónum á mánuði
Fjölskylduefling okkar á Filippseyjum er þriggja ára verkefni sem kosta mun samtals um 60 milljónir króna á þremur árum og hófst sl. vor. 1.800 börn og sárafátækir foreldrar þeirra fá sérsniðna aðstoð til að draga úr líkunum á að fjölskyldurnar sundrist vegna fátæktar. Auk þess styðjum við samfélagið á verkefnastöðunum tveimur, Tacloban og Calbayog, almennt til að sinna málefnum barna og barnafjölskyldna betur, t.d. með því að endurmennta kennara og með fræðslu um réttindi barna.
Verkefnið er að fullu fjármagnað af Íslendingum og kemur 80% kostnaðar frá Utanríkisráðuneytinu. 20% kostnaðar er svo fjármagnaður með framlögum Fjölskylduvina ásamt frjálsum framlögum héðan. Þessi aðkoma okkar Íslendinga leggur þá ábyrgð á okkar herðar að fylgjast náið með framkvæmd verkefnisins og að það sé unnið í samræmi við áætlanir.
Fer vel af stað
Í nýafstaðinni eftirlitsferð okkar kom í ljós að verkefnið er á áætlun og gengur vel. Allt starfsfólk þess er mjög hæft og áhugasamt og allir samstarfsaðilar (skólar, bæjarfélög, stofnanir og samtök) ánægðir með verkefnið og til í að leggja sitt af mörkum til að árangur þess megi verða sem bestur. Þá eru um 150 sjálfboðaliðar verkefnisins vel þjálfaðir en þeir heimsækja skjólstæðinga, fræða þá og styðja.
Eftirlitsheimsóknir okkar til nokkurra fjölskyldna sem njóta stuðnings verkefnisins staðfestu hve bág kjör þær búa við og hve mikilvægt er að styðja þær til sjálfshjálpar. Heimsóknin leiddi í ljós nokkra minniháttar hnökra og byrjunarerfiðleika sem verða lagfærðir í góðu samráði við heimamenn.
Þessi 10 manna fjölskylda á meðfylgjandi mynd býr í Tacloban. Heimilisfaðirinn þénar 10 þúsund krónur á mánuði sem þurfa að duga fyrir 10 manna fjölskyldu. Hann er fimmtugur og konan hans er þrítug. Með þeim á heimilinu eru 6 börn, eitt tökubarn og ein amma. Með þeim á myndinni er Ragnar Scrham, framkvæmdastjóri SOS á Íslandi sem gerði úttekt á verkefninu.
Við erum þakklát öllum þeim sem koma að því að fjármagna þetta verkefni og bæta þannig kjör og framtíðarhorfur 1.800 barna og nærsamfélaganna.
Nýlegar fréttir
Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan
Þúsundir Íslendinga hafa lagt neyðarsöfnunum SOS Barnaþorpanna lið á árinu með smærri og stærri framlögum. Nú í október barst rausnarlegt framlag frá félagsskap nokkurra kylfinga í Golfklúbbnum Oddi, ...
Sjáðu Eva Ruzu ræða við Sonam Gangsang um árin í SOS barnaþorpi
Íslenskum SOS-foreldrum gafst á dögunum tækifæri á að hitta Sonam Gangsang frá Tíbet sem ólst upp í barnaþorpi. Eva Ruza ræddi við Sonam og birtum við hér upptöku frá viðburðinum.