Fréttayfirlit 5. maí 2021

88% segja lífsgæði sín betri

88% segja lífsgæði sín betri

88% skjólstæðinga okkar í fjölskyldueflingu í Eþíópíu segja lífsgæði sín betri eftir að verkefnið, sem fjármagnað er af SOS á Íslandi, hófst árið 2018. Markmið fjölskyldueflingar SOS er að hjálpa barnafjölskyldum upp úr sárafátækt svo þær geti staðið á eigin fótum. Þannig komum við í veg fyrir að börn missi foreldraumsjón með því að efla foreldrana svo þeir geti hugsað um börnin sín.

Nú er þremur árum lokið af fjórum í verkefni okkar á Eteya svæðinu í Eþíópíu. Þar hjálpum við 560 foreldrum og 1562 börnum þeirra að komast upp fyrir fátæktarmörk og standa á eigin fótum. Við útvegum fólkinu það sem það þarf til að geta aflað sér tekna með það að markmiði að geta staðið á eigin fótum. Má þar m.a. nefna hráefni, tæki og tól til ýmis konar framleiðslu, nautgripi til ræktunar, skólagögn, greiðslu skólagjalda, foreldrafræðslu og heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt nýrri matsskýrslu er sannarlega ástæða til að gleðjast yfir árangri en á sumum sviðum hefur hann ekki verið eftir væntingum. Könnun sem gerð var meðal skjólstæðinga okkar leiðir þó í ljós að 88,2% foreldranna segja lífsgæði sín betri eftir að verkefnið hófst árið 2018. Hins vegar gengur ekki nógu hratt fyrir sig að hjálpa fjölskyldunum að verða sjálfbærar og verður áhersla nú lögð á að bæta úr því.

* 71,1%  búa við bættari fjárhag

* 52,9% foreldra geta mætt grunnþörfum barna sinna

* 85,3% barna sóttu grunnskóla áður en verkefnið hófst

* 98,2% barna sóttu grunnskóla fyrir Covid-19

* 75% barna hafa verið skráð aftur til skólagöngu eftir lokanir

* 96,7% barna ná viðunandi námsárangri

* 35,3% fullorðinna geta lesið og skrifað

Meðallaun fimm þúsund krónur á mánuði

Covid-19 faraldurinn hefur sett strik í reikninginn. Aðeins 70% barnanna hafa verið skráð fyrir endurkomu þegar skólahald hefst á ný. Þá hafa áætlanir um aðgengi að neysluvatni ekki gengið eftir og og margir foreldrar ná ekki endum saman milli mánaðarmóta. Meðallaun voru tæplega fimm þúsund krónur á mánuði en meðalútgjöld 66,7% heimila í verkefninu eru 6.300 krónur á mánuði.

Börnin eiga leið út úr vítahring

Þrátt fyrir þetta bakslag er útlit fyrir að það náist að útskrifa stóran hluta skjólstæðinga okkar fyrir lok árs 2021. Þessar barnafjölskyldur hafa komist frá þeim slæma stað að eiga ekki fyrir mat eða skólagöngu barnanna. Nú eru foreldrarnir farnir að skapa sér tekjur, læra að spara og borga til baka af vaxtalausum lánum sem þeim býðst í gegnum fjölskyldueflinguna. Þetta fólk getur m.ö.o. lifað mannsæmandi lífi og börnin fá menntun. Börnin eiga því möguleika á brjótast út úr hring fátæktarinnar þegar fram líða stundir, nokkuð sem hefur verið foreldrum þeirra og forfeðrum ómögulegt. 

Félagsleg arðsemi er 66-föld

Verkefnið hefur jákvæð áhrif á allt svæðið í Eteya og nágrenni því fræðsla og framkvæmdagleði smitast út í samfélagið. Reiknað hefur verið út að félagsleg arðsemi sambærilegra verkefna (Social return of investment) í Eþíópíu er 66-föld.

Fjölskylduefling SOS á Eteya svæðinu er styrkt af utanríkisráðuneytinu og styrktaraðilum SOS, það er SOS-fjölskylduvinum.

Nýlegar fréttir

Bersýnilegur árangur af íslensku verkefni fyrir þolendur í Tógó
26. feb. 2024 Almennar fréttir

Bersýnilegur árangur af íslensku verkefni fyrir þolendur í Tógó

Bersýnilegur árangur hefur náðst í íslensku verkefni gegn kynferðislegri misnotkun á börnum í Tógó. Verk­efn­ið hef­ur náð til 257 stúlkna sem eru þo­lend­ur kyn­ferð­is­brota, fjölgað slíkum málum á ...

Fékkstu sím­tal frá SOS?
20. feb. 2024 Almennar fréttir

Fékkstu sím­tal frá SOS?

Nú í febrúar 2024 eru SOS Barnaþorpin á Íslandi að hringja í fólk og óska eftir stuðningi við neyðaraðgerðir samtakanna á Gaza í Palestínu. Haf­ir þú hins veg­ar feng­ið sím­tal „frá okk­ur" sem þér f...