Fréttayfirlit 27. júní 2019

15 milljóna króna arfi til SOS hefur verið ráðstafað

15 milljóna króna arfi til SOS hefur verið ráðstafað

Þann 1. júlí 1993 gekk rúmlega fimmtug kona, Anna Kristín Ragnarsdóttir, inn á skrifstofu sýslumannsins í Reykjavík. Hún var ógift og barnlaus en hafði styrkt munaðarlausan dreng í Asíu í gegnum SOS Barnaþorpin. Þar sem hún átti enga skylduerfingja gerði hún erfðaskrá og ráðstafaði eigum sínum þannig sjálf.

Umræddan dag í júlí 1993 mætti hún sem sagt til sýslumannsins með erfðaskrá þar sem skýrt var kveðið á um að eignir hennar, fastar og lausar (að undanskyldu innbúi og persónulegum munum) skyldu renna til SOS Barnaþorpanna og nýtast í þágu barna. Erfðaskráin var skráð hjá sýslumanni og var í hans vörslu þar til Anna lést árið 2010. Í kjölfarið fengu SOS Barnaþorpin litla íbúð hennar á Spáni og lausafé, samtals um 15 milljónir króna.

Anna óskaði eftir því að stofnaður yrði sjóður í hennar nafni, hann ávaxtaður og úthlutað úr honum eftir ákvörðunum stjórnar SOS í þágu barna. Það hefur nú verið gert í þremur úthlutunum í samræmi við óskir hennar eins og þær koma fram í erfðaskránni.

    1. 1,5 m.kr. var varið í að hjálpa sárafátækum barnafjölskyldum í Níkaragva til sjálfshjálpar í gegnum Fjölskyldueflingu SOS þar í landi.
    2. 1,7 m.kr. var varið til lóðakaupa og byggingar á húsi fyrir einstæða sex barna móður í Gíneu Bissá. Hún var skjólstæðingur Fjölskyldueflingar SOS.
    3. Að lokum var síðustu 10 milljónunum úthlutað í fjármögnun á byggingu heimilis fyrir SOS mæður á eftirlaunum í Hojai á Indlandi. Með þessu framlagi vilja SOS Barnaþorpin stuðla að velferð þeirra fyrrverandi SOS mæðra sem þar fá heimili á efri árum sínum og sýna SOS-mæðrum sem nú starfa við uppeldi barna í barnaþorpinu að þær þurfi ekki að hafa áhyggjur af húsnæðismálum eftir að þær hætta að vinna. Langflestir styrktarforeldrar á Íslandi styrkja börn í barnaþorpum á Indlandi. 

Anna Kristín er ekki ein um að vilja láta skjólstæðinga SOS Barnaþorpanna njóta góðs af ævistarfi sínu. Mikill fjöldi einstaklinga um allan heim ánafnar SOS eignir sínar að hluta til eða öllu leyti eftir sinn dag og þannig getum við hjálpað mun fleiri börnum en ella. Þannig rætast líka óskir þess sem erfðaskrána gerði.

Það er auðvelt að gera erfðaskrá og bendum við áhugasömum á að hafa samband við sýslumann eða lögmann. SOS Barnaþorpin á Íslandi geta bent á lögmenn sem aðstoða við gerð erfðaskráa.

Finna má ítarlegar upplýsingar um fyrirkomulag erfðagjafa hér á heimasíðu okkar.

Nýlegar fréttir

Söfnuðu rúmlega milljón fyrir börn í neyð á Gaza
10. jún. 2024 Almennar fréttir

Söfnuðu rúmlega milljón fyrir börn í neyð á Gaza

Nemendur Kársnesskóla héldu sinn árlega góðgerðardag nú á dögunum þar sem þeir söfnuðu rúmlega milljón fyrir börn í neyð á Gaza. Nemendur og starfsfólk skólans höfðu undirbúið daginn vel og buðu upp á...

Börn og starfsfólk yfirgefa SOS barnaþorpið í Rafah
30. maí 2024 Almennar fréttir

Börn og starfsfólk yfirgefa SOS barnaþorpið í Rafah

Þann 28. maí hófu SOS Barnaþorpin flutning barna og fullorðinna frá barnaþorpinu í Rafah vegna stóraukinnar öryggisáhættu á staðnum þar sem barnaþorpið er.