Fréttayfirlit 4. maí 2018

Yfir sjö milljónir Venesúelamanna á vergangi

Talið er að yfir sjö milljónir Venesúelamanna hafi hrakist frá heimilum sínum vegna ólgunnar sem ríkir í landinu samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Fólk er ýmist á vergangi í landinu eða flýr yfir landamærin, flest til Kólumbíu og Brasilíu. Angela Maria Rosales, framkvæmdastjóri SOS barnaþorpanna í Kólumbíu, segir að samtökin séu vel í stakk búin til að hjálpa flóttafjölskyldum en verkefnið sé erfitt og hjálparþörfin aukist með degi hverjum.

Þúsundir manna fara yfir landamærin á hverjum degi og talið er að um ein milljón Venesúelamanna búi nú í Kólumbíu. Um ein og hálf milljón manns flúði stigvaxandi ofbeldi í landinu á síðasta ári og fjölmörg dæmi eru um að börn verði viðskila við foreldra sína. Þetta er mesti straumur flóttamanna í latnesku Ameríku í áratugi og jafnvel þó lengra sé litið aftur í tímann. Efnahagsástand Venesúela er í molum vegna óstjórnar á undanförnum árum. Vegna óðaverðbólgu eiga almennir borgarar ekki í sig og á og innviðir samfélagsins eru að grotna niður.

„Sumir hafa fundið vinnu og húsnæði en mikill meirihluti kom til Kólumbíu nánast aðeins með fötin sem fólk klæddist. Í sumum borgum nálægt landamærunum býr fólk í görðum við ekkert öryggi. Sum börn hafa fengið aðgang að skólum en eru án búsetu og algerlega óvarin umhverfinu. Börn og konur eru að leiðast í auknum mæli út í vændi og gríðarleg aukning á því veldur okkur miklum áhyggjum.“ segir Rosales.

SOS barnaþorpin í Kólumbíu hafa áhyggjur af börnum flóttafjölskyldnanna sem gengur mörgum illa að finna þak yfir höfuðið og fá aðgang að heilbrigðisþjónustu. SOS barnaþorpin hafa hjálpað mörgum þessarra fjölskyldna en þörfin fyrir hjálpinni fer vaxandi.

Mæður gefa börn sín af ást

Foreldrar grípa í auknum mæli til þeirra örþrifaráða að senda börn sín á munaðarleysingjahæli eða skilja þau eftir á opinberum stöðum, þar sem þeir geta ekki brauðfætt þau. Fólk gerir þetta af því það elskar börn sín að sögn félagsráðgfjafa eins og greint var frá í ítarlegri umfjöllun í Speglinum á RÚV.

Starfsemi SOS barnaþorpanna í Kólumbíu hófst árið 1968. Þar eru sjö barnaþorp með 54 SOS fjölskyldum, 238 fósturfjölskyldum, 14 ungmennabúðir og 10 fjölskyldueflandi þjónustumiðstöðvar sem einblína á að sameina fjölskyldur á ný og koma í veg fyrir að börn verði viðskila við foreldra sína. 37 þúsund manns nutu aðstoðar SOS barnaþorpanna í Kólumbíu á síðasta ári.

Nýlegar fréttir

Héldum að við yrðum drepin
8. jún. 2023 Almennar fréttir

Héldum að við yrðum drepin

Í apríl sögðum við frá rýmingu barnaþorps í höfuðborg Súdan vegna blóðugra átaka í nágrenni þess. Í kjölfarið var þorpið svo hertekið af vopnuðum sveitum og haldar þær enn til í barnaþorpinu.

Umbætur hjá SOS í kjölfar rannsóknarskýrslu
7. jún. 2023 Almennar fréttir

Umbætur hjá SOS í kjölfar rannsóknarskýrslu

Árið 2021 greindum við frá því að niðurstöður tveggja óháðra rannsókna hafi leitt í ljós ýmsa misbresti í stjórnun SOS Barnaþorpanna á alþjóðavísu og í einstaka löndum. SOS Barnaþorpin á Íslandi áttu ...