Fréttayfirlit 29. ágúst 2019

Við erum ekki stofnun

Við erum ekki stofnun

Afstofnanavæðing - Fjölskylda í stað hælis

SOS Barnaþorpin voru stofnuð til að sjá börnum án foreldraumsjár fyrir móður og fjölskyldu og koma þannig í veg fyrir að munaðarlaus börn þyrftu að fara á munaðarleysingjaheimili (eða –hæli eins og þau voru oft kölluð). Frá upphafi samtakanna 1949 hafa SOS Barnaþorpin bjargað börnum frá slíkum stofnunum og séð þeim í staðinn fyrir góðum og kærleiksríkum heimilum.

Nú er það þó svo að sumir vilja líta á SOS fjölskyldur sem stofnanir og vilja jafnvel ganga svo langt að barnaþorpum verði lokað.

Margir áratugir eru síðan fyrst fóru að heyrast þær raddir að hvorki börn né fullorðnir ættu að þurfa að búa á stofnunum, enda væri fátt við slíka staði sem minnti á fjölskyldu eða heimili. Þessar raddir urðu mjög háværar undir lok síðustu aldar og þá einkum er varðaði stofnanir fyrir börn, t.d. í A-Evrópu. Internetið og sjónvarpið sýndu okkur hörmulegar aðstæður munaðarlausra barna á köldum og illa búnum stofnunum. Baráttan fyrir afstofnanavæðingu var hafin.

Sérfræðingar stigu fram og lýstu þeim neikvæðu áhrifum sem dvöl á slíkum stofnunum geta haft fyrir sálarlíf barna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kom að góðum notum við að tala máli barna og vekja athygli á réttindum þeirra.

Mikilvægi foreldra

Þessi vitundarvakning leiddi til þess að opna augu fólks fyrir mikilvægi foreldra í lífi barna. Fjölskyldan var réttilega sett í forgang og auknar kröfur voru gerðar til þeirra sem tóku að sér að annast börn þar sem foreldrar eða nánir ættingjar voru ekki til staðar. SOS Barnaþorpin voru þar ekki undanskilin.

Árið 2005 hófst vinna á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) við að semja viðmið fyrir umönnun þeirra barna sem ekki njóta foreldraumsjár. SOS Barnaþorpin voru eðlilega fengin að borðinu og tóku þátt í þeirri vinnu, sem tók fimm ár, ásamt öðrum sérfræðingum frá stofnunum SÞ og félagasamtökum. Þær viðmiðunarreglur eru aðgengilegar hverjum sem vill.

SOS barnaþorpinu í Hawassa í Eþíópíu. SOS barnaþorpinu í Hawassa í Eþíópíu.

Vilja loka SOS barnaþorpum

Ljóst var á þessum tímapunkti að ákveðnir aðilar t.a.m. innan SÞ litu á SOS Barnaþorpin sem stofnun og vildu setja SOS heimili, þar sem uppeldismenntuð SOS móðir stofnar til fjölskyldu með nokkrum munaðarlausum eða yfirgefnum börnum, í sama flokk og stór munaðarleysingjaheimili þar sem tugir eða hundruð barna bjuggu við félagslega og tilfinningalega einangrun.

SOS Barnaþorpin hafa alltaf staðið gegn því að börn séu vistuð og „alin upp“ á stofnunum þar sem réttindi þeirra eru fótum troðin. Samtökin hafa átt mjög farsælt samstarf við yfirvöld í flestum löndum heims og þekkja yfirvöld víðast hvar þá nálgun sem SOS Barnaþorpin hafa unnið eftir með góðum árangri. Því kann það að koma einhverjum á óvart að sérfræðingar innan stofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar og nokkurra félagasamtaka skuli hafa viljað flokka fjölskyldur í SOS Barnaþorpum sem stofnanir.

Reynt að sundra fjölskyldum

Nýleg dæmi eru um lönd þar sem yfirvöld, undir þrýstingi frá Sameinuðu þjóðunum og einstaka félagasamtökum, hafa í nafni afstofnanavæðingar viljað loka SOS Barnaþorpum og senda öll börnin heim til nánustu ættingja sem finnast. Sem betur fer tókst að stöðva þá þróun, enda var þar verið að sundra SOS fjölskyldum sem lifðu góðu lífi og senda börn til ættingja sem þau hvorki þekktu né vildu búa hjá. Það sorglega við það mál er að hvorki fulltrúar Sameinuðu þjóðanna né viðkomandi félagasamtaka þáðu boð um að heimsækja SOS Barnaþorpin og kynna sér það fjölskyldulíf sem þar fer fram.

Þrátt fyrir þær kjöraðstæður sem SOS Barnaþorpin bjóða upp á og hafa bjargað svo mörgum börnum frá volæði og vanlíðan vilja sumir enn líta á þau sem stofnanir og setja þær undir sama hatt og munaðarleysingjaheimili. Fyrir okkur sem þekkjum hvernig SOS Barnaþorpin vinna og hvernig fjölskyldur í barnaþorpunum virka eins og hverjar aðrar fjölskyldur, er erfitt að skilja áðurnefnd sjónarmið.

Fjölskylda í SOS barnaþorpi Fjölskylda í SOS barnaþorpi

SOS aðlagast breytingum

Þó verður að taka inn í myndina og viðurkenna að á þeim 70 árum sem SOS Barnaþorpin hafa starfað hafa börn komið í barnaþorpin sem ekki hefðu átt að koma þangað. Þ.e.a.s. börn sem áttu foreldra á lífi sem hefðu, með smá aðstoð, getað annast börn sín sjálfir. Samtökin eru meðvituð um þetta og hafa lært af þessu og er Fjölskylduefling SOS dæmi um það. Samtökin breytast með samfélaginu og eru nýjustu barnaþorpin t.d. frábrugðin þeim eldri að því leyti að húsin/heimilin eru ekki byggð í þyrpingu heldur á víð og dreif um ákveðið hverfi og því ekki eins sýnileg.

Í dag á ekkert barn að flytjast í SOS Barnaþorp nema foreldraumsjá sé alls ekki möguleg. Eigi barnið foreldra á lífi viljum við frekar hjálpa foreldrunum til að hafa barnið hjá sér og það gerum við með Fjölskyldueflingu SOS (styrkt af Fjölskylduvinum) en skjólstæðingar hennar eru um 500.000 börn og fjölskyldur þeirra. En eigi barnið ekki foreldra og flytji í barnaþorp bíður þess algjörlega nýtt tækifæri með fjölskyldu sem lætur sig annt um hag þess og mun fylgja því í gegnum allt lífið – eins og góðar fjölskyldur gera.

Erum ekki stofnun

SOS Barnaþorpin eru eins langt frá því að vera stofnun og hugsast getur, eða það segja a.m.k. börnin sem alast hafa upp í barnaþorpunum. En það er á okkar ábyrgð að upplýsa þá sem halda annað og sýna þeim það. Fjöldi Íslendinga og styrktarforeldra frá öðrum löndum hafa heimsótt SOS Barnaþorp og séð hvernig SOS fjölskyldan virkar eins og samheldin fjölskylda sem fer saman í gegnum gleði og sorg og undirbýr barnið fyrir sjálfstætt líf fullorðinsáranna.

Við erum styrktaraðilum okkar ævinlega þakklát fyrir að standa við bakið á því merka starfi sem fram fer í SOS Barnaþorpunum um víða veröld.

*Um er að ræða það ferli þegar unnið er að lokun stofnana sem sinna uppeldi barna, en flestar þeirra eru stór heimili þar sem börnin fá ekki öllum grunnþörfum sínum mætt.

Nýlegar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu
23. apr. 2024 Almennar fréttir

Á þriðja tug milljóna króna til SOS í Palestínu

SOS Barnaþorpin á Íslandi senda á næstu dögum tíu milljónir króna til SOS í Palestínu vegna neyðaraðgerða á Gaza. Rúmar átta milljónir króna hafa safnast í söfnun SOS á Íslandi sem hófst í febrúar og ...

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024
22. apr. 2024 Almennar fréttir

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna 2024

Boðað er til aðalfundar SOS Barnaþorpanna mánudaginn 13. maí kl.17:30 í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Hábraut 1a (gegnt Gerðasafni). Til þess að félagi geti nýtt félagsleg réttindi sín á aðalfundi s...