Fréttayfirlit 30. maí 2016

Ulla Magnússon - minning

Ulla Magnússon, fyrrum stjórnarformaður SOS Barnaþorpanna á Íslandi, er látin. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 27. maí síðastliðinn eftir stutt veikindi. Ulla var fyrsti formaður og starfsmaður samtakanna og var starfandi stjórnarformaður allt þar til í apríl síðastliðinn.

Undir lok níunda áratugarins sendu SOS Barnaþorpin i Danmörku fulltrúa sína til Íslands í því skyni að stofna samtökin hér á landi. Þeir fengu ábendingar um aðila í Reykjavík sem mögulega gætu aðstoðað,  líkt og forystumenn í viðskiptalífi og fólk sem menntað var frá Danmörku. Meðal þessa fólks var ung íslensk blaðakona sem þekkti til Ullu Magnússon sem fædd var í Danmörku, átti danska móður en íslenskan föður og bað hana um að mæta á fund. Ulla ólst að mestu upp á Íslandi eftir að foreldrar hennar fluttu hingað til lands þegar hún var níu ára gömul.

Á undirbúningsfundi um málefni SOS Barnaþorpanna í Reykjavík kom í ljós að þeir Íslendingar sem mættu voru velviljaðir málefninu en vildu þó ekki taka að sér forystu um stofnun samtakanna hér á landi. Ulla var aldrei þekkt fyrir annað en að taka við áskorunum og úr varð að hún tók að sér forystuna en hún hafði starfað víða í viðskipta- og atvinnulífinu og bjó yfir mikilli reynslu á því sviði.  Hún hafði meðal annars mikið unnið að markaðsmálum fyrir Álafossverksmiðjuna en var ekki föst í stórum verkefnum á þessum tíma.       

Hófst nú Ulla handa af sínum alkunna dugnaði og skipulagshæfileikum að koma SOS Barnaþorpunum á fót hér á landi. Margir af þeim sem komu að samtökunum í upphafi drógu sig smám saman í hlé en Ulla stóð ávallt vaktina. Hún safnaði saman öflugum stjórnar- og stuðningsmönnum en sjálf var hún fjárhagslega sjálfstæð og gat fórnað verkefninu miklum tíma. Fyrst og fremst kom þó í ljós hve miklum skipulagshæfileikum, heiðarleika, trausti og dugnaði Ulla var búin. Með öflugum stuðningi SOS Barnaþorpanna í Danmörku sem bæði lögðu fram þekkingu og fjármuni á fyrsta stigi,  tókst Ullu að markaðssetja hugsjónina undir íslenska kjörorðinu við söfnum foreldrum.

Ulla vakti mikla athygli hjá alþjóðasamtökum SOS Barnaþorpanna  fyrir skýran og einarðan málflutning er hún kvaddi sér þar hljóðs, enda djörf og óhrædd að standa fyrir máli sínu á erlendum vettvangi. Í því samhengi má nefna að Ulla var lengst af bæði stjórnarformaður og framkvæmdastjóri samtakanna hér á landi og þótti starfsfólki alþjóðasamtakanna það heldur óvenjulegt að sami aðili gegndi báðum störfum. Árið 2009 var Ulla sæmd heiðursorðu alþjóðasamtakanna fyrir framúrskarandi störf í þágu samtakanna.

Með árunum stækkaði starfsemi SOS Barnaþorpanna hratt á Íslandi og um þessar mundir eru um átta þúsund íslenskir styrktarforeldrar. Ulla varð hið trausta andlit samtakanna en hún lagði alla tíð áherslu á að halda fremur lágum og traustum prófíl í málefnum SOS Barnaþorpanna fremur en að eyða peningum í miklar auglýsingar. Þá gætti hún þess einnig vel að borga sjálfri sér sem allra lægstu laun. Þannig skapaði hún samtökunum traust um að framlögin skiluðu sér í réttar hendur.

Fyrst og fremst er velgengni SOS Barnaþorpanna fagurri mannúðarhugsjón, dugnaði og útsjónarsemi Ullu að þakka. Hún var frá upphafi potturinn og pannan í starfsemi SOS Barnaþorpanna á Íslandi og mun svo sannarlega vera sárt saknað.

Ásgeir Jóhannesson aðstoði við skrif þessarar greinar. Við sendum honum bestu þakkir fyrir það.

Nýlegar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS
15. maí 2024 Almennar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna á Íslandi var haldinn mánudaginn 13. maí og urðu þá breytingar á stjórn samtakanna. Ingibjörg E. Garðarsdóttir og Anna Bjarney Sigurðardóttir voru kjörnar í stjórnina til ...

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn
14. maí 2024 Almennar fréttir

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn

Ástandið á Gaza er sérstaklega viðkvæmt núna og SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á svæðinu sem taka að sér fylgdarlaus börn. Þessi frétt er uppfærð reglulega með nýjustu fréttum frá SOS ...