Stríð í sjö ár
Stríðið í Sýrlandi hófst þann 15. mars 2011, eða fyrir sjö árum.
SOS Barnaþorpin hafa sinnt umfangsmiklu neyðar- og mannúðarstarfi í stríðinu auk þess að annast og sjá um framfærslu munaðarlausra og yfirgefinna barna, líkt og samtökin hafa gert í Sýrlandi í áratugi.
Stríð taka alltaf sinn toll af saklausum börnum. Sýrlandsstríðið er ekki undantekning. Það þekkir starfsfólk SOS Barnaþorpanna sem starfað hefur á vettvangi og séð afleiðingarnar.
„Börnin horfa á mann tómum og sorgmæddum augum. Öll börn sem ég hef spurt í Sýrlandi hvað þau vilja gera í framtíðinni segja bakari, læknir eða kennari. Allt eru þetta störf sem fyrir þeim eru ekki til í landinu, því börnin sjá ekki þessar starfsstéttir,“ segir Andreas Papp yfirmaður neyðaraðstoðar SOS Barnaþorpanna.
Mitt í þessum hörmungum öllum eru SOS Barnaþorpin að undirbúa næsta áfanga neyðaraðstoðarinnar, áfanga 4. Íslendingar hafa verið duglegir að styðja við hjálparstarf samtakanna í landinu. Utanríkisráðuneytið hefur styrkt aðgerðir SOS, sem og fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki. M.a. hefur einn grunnskóli í Aleppo verið endurnýjaður fyrir íslenskt fé, en skólinn fór illa út úr sprengingum og átökum og var m.a. notaður sem fangelsi á meðan bardagar stóðu sem hæst í borginni.
Margir Íslendingar hafa viljað styrkja börn í SOS Barnaþorpunum þremur í Sýrlandi og eru nú 99 Íslendingar styrktarforeldrar sýrlenskra barna.
Þá eru 316 Íslendingar barnaþorpsvinir SOS Barnaþorpa í Sýrlandi og styrkja þannig framfærslu barna og rekstur þorpanna. Þörf er á fleiri slíkum barnaþorpsvinum. Hér getur þú gerst barnaþorpsvinur.
Nánar um SOS Barnaþorpin í Sýrlandi
Fyrsta SOS Barnaþorpið í Sýrlandi var opnað í Damaskus árið 1981 og það nýjasta, einnig í Damaskus, í október 2017. Barnaþorpið í Aleppo, sem tekið var í notkun 1998, var rýmt árið 2012 vegna harðra bardaga í borginni og börnin flutt til Damaskus.
Neyðaraðstoð SOS í Sýrlandi fer fram í Aleppo, Damaskus og Tartous. Samtökin hafa opnað barnvæn svæði, bráðabirgðaheimili fyrir foreldralaus börn, sinnt heilbrigðisþjónustu og menntun auk þess að dreifa matvælum og öðrum nauðsynjum til nauðstaddra.
SOS Barnaþorpin hafa starfað með bæði sýrlenskum og alþjóðlegum samtökum við að lina þjáningar barna og veita þeim umönnun, t.d. þeim sem misst hafa foreldra sína í stríðinu eða orðið viðskila við þá.
Erfitt er að tilgreina nákvæmlega hve mörg börn hafa notið góðs af neyðaraðstoð SOS Barnaþorpanna í stríðinu í Sýrlandi en áætlað er að þau séu um 93.000.
Nýlegar fréttir
Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan
Þúsundir Íslendinga hafa lagt neyðarsöfnunum SOS Barnaþorpanna lið á árinu með smærri og stærri framlögum. Nú í október barst rausnarlegt framlag frá félagsskap nokkurra kylfinga í Golfklúbbnum Oddi, ...
Sjáðu Eva Ruzu ræða við Sonam Gangsang um árin í SOS barnaþorpi
Íslenskum SOS-foreldrum gafst á dögunum tækifæri á að hitta Sonam Gangsang frá Tíbet sem ólst upp í barnaþorpi. Eva Ruza ræddi við Sonam og birtum við hér upptöku frá viðburðinum.