Fréttayfirlit 9. september 2015

Starfsmenn Marel hlaupa og hjóla til Afríku

Alþjóðlegi fjáröflunardagurinn Tour de Marel verður haldinn föstudaginn 11.september næstkomandi. Í ár munu starfsmenn Marel hlaupa og hjóla vegalengdina frá Íslandi til Fílabeinsstrandarinnar, samtals 6.500 kílómetra og safna áheitum til styrktar SOS Barnaþorpum þar í landi.

Tour de Marel er sameiginleg fjáröflun starfsmanna Marel víðs vegar um heiminn. Starfsmenn taka þátt með því að hlaupa, hjóla eða taka þátt í ýmis konar uppákomum og sjálfboðastarfi til að safna áheitum sem renna til SOS. Í tilkynningu frá Marel kemur fram að margir starfsmenn Marel eru styrktarforeldrar barna sem dvelja í SOS Barnaþorpum og þekkja því af eigin raun hversu vel samtökunum hefur tekist að umbylta aðstæðum barna víða um heim til hins betra.

Byggja bókasafn

Í ár safna starfsmenn Marel í þriðja sinn styrkjum fyrir SOS Barnaþorpin í Yamoussoukro á Fílabeinsströndinni. Undanfarin tvö ár hafa starfsmenn Marel víðsvegar um heim safnað 150.000 evrum sem samsvarar um 22 milljónum króna sem hafa verið nýttar til að byggja nýjan grunnskóla í Yamoussoukro sem 210 börn á aldrinum 6-13 ára sækja. Tilkoma skólans, sem var byggður frá grunni, hefur gjörbreytt aðstæðum þessara barna til náms og aukið möguleika þeirra á sjálfstæðri og bjartri framtíð.

Í ár ætla starfsmenn Marel að halda áfram uppbyggingu á innviðum Yamoussoukro og verður öllu fé sem safnast í Tour de Marel í ár varið í að byggja bókasafn sem mun ekki aðeins nýtast nemendum við skólann heldur einnig 3 þúsund börnum í Yamoussoukro samfélaginu. Með þessum hætti leggja starfsmenn Marel sitt lóð á vogarskálarnar í þeirri viðleitni að bæta menntun í alþjóðasamfélaginu og hjálpa þeim sem eru í vanda staddir.

Eins og fyrr segir munu starfsmenn Marel á Íslandi ásamt fjölskyldu og vinum hlaupa og hjóla vegalengdina til Fílabeinsstrandarinnar, samtals 6.500 km á einum sólarhring og sýna þannig börnunum í Yamoussoukro að þeir standi þétt við bakið á þeim þrátt fyrir að þau séu langt í burtu. Hlaupið verður 5 km hringur og hjólaður 16 km hringur í Heiðmörk. Ræst verður í hlaupið og hjólreiðarnar klukkan 11:00 föstudaginn 11. september og stendur það yfir í sólarhring. Rásmarkið er við höfuðstöðvar Marel að Austurhrauni 9 í Garðabæ.

Starfsmenn Marel hvetja alla til að koma og taka hring til stuðnings góðu málefni. Einnig er hægt að heita á þátttakendur á síðunni tourdemarel.com. Tekið verður á móti áheitum til 30.september. Áhrif söfnunarinnar verða tvöföld í ár þar sem Marel ætlar að jafna öll áheit sem safnast.

Nýlegar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS
15. maí 2024 Almennar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna á Íslandi var haldinn mánudaginn 13. maí og urðu þá breytingar á stjórn samtakanna. Ingibjörg E. Garðarsdóttir og Anna Bjarney Sigurðardóttir voru kjörnar í stjórnina til ...

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn
14. maí 2024 Almennar fréttir

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn

Ástandið á Gaza er sérstaklega viðkvæmt núna og SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á svæðinu sem taka að sér fylgdarlaus börn. Þessi frétt er uppfærð reglulega með nýjustu fréttum frá SOS ...