Fréttayfirlit 19. september 2016

SOS Barnaþorpin veita íbúum Aleppo læknisaðstoð

29 ára læknirinn Fadi* hóf störf fyrir SOS Barnaþorpin í lok ágúst. Hann veitir íbúum Aleppo læknisaðstoð fjóra daga í viku. Sökum þess hve margir eru hræddir við sjúkrahús, sem oft verða fyrir sprengjuárásum, veitir Fadi oft skjólstæðingum sínum læknisþjónustu á þeirra eigin heimili.

SOS í Sýrlandi ætlar að veita 12.500 manns í Aleppo grunnlæknisþjónustu og ráðgjöf. Fadi segir frá vinnu sinni í viðtali við starfsmann SOS í Sýrlandi:

Hvaða helstu heilsufarsógnum mæta börn og fullorðnir sem eru á flótta og búa í tímabundnum athvörfum?

Áhættan er mikil. Þar sem fólk býr þétt saman og hefur takmarkaðan aðgang að rennandi vatni er hætta á smiti afar mikil.

Ég hef séð marga algenga sjúkdóma meðal barna undanfarið, svo sem ælupest og næringaskort. Hjá konum má oft sjá fósturgalla vegna ungs aldurs og jafnvel sifjaspells. Við höfum að auki séð tilfelli blóðskorts, háþrýstings, lúsar, maurakláða og fleiri húðsjúkdóma.

Hversu mikilvægt er að veita vegalausum einstaklingum, sérstaklega þunguðum konum og börnum, læknisaðstoð?

Læknisaðstoð til verðandi mæðra gefur af sér heilbrigðari meðgöngu, eðlilega fæðingu og heilbrigt barn.

Þegar kemur að börnum er mikilvægast að halda þeim heilsuhraustum og tryggja að þau séu bólusett. Reglulegar læknisskoðanir hjálpa mikið til við að uppgötva vandamál snemma og veita lyf þegar þörf er á.

Hvernig er að veita læknisaðstoð í Aleppo?

Að vinna í sjúkrahúsum og heilsugæslum í Aleppo á tímum stríðsins hefur breytt sýn minni á lífið. Það er mjög erfitt fyrir mig að hugsa ekki um skjólstæðinga mína. Ég get ekki sleppt því að hugsa stöðugt um þá, þarfir þeirra og hvernig ég get útvegað þeim lyf.

 

*Nafni hefur verið breytt vegna persónuverndar

Nýlegar fréttir

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan
8. okt. 2024 Almennar fréttir

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan

Þúsundir Íslendinga hafa lagt neyðarsöfnunum SOS Barnaþorpanna lið á árinu með smærri og stærri framlögum. Nú í október barst rausnarlegt framlag frá félagsskap nokkurra kylfinga í Golfklúbbnum Oddi, ...

Sjáðu Eva Ruzu ræða við Sonam Gangsang um árin í SOS barnaþorpi
29. sep. 2024 Almennar fréttir

Sjáðu Eva Ruzu ræða við Sonam Gangsang um árin í SOS barnaþorpi

Íslenskum SOS-foreldrum gafst á dögunum tækifæri á að hitta Sonam Gangsang frá Tíbet sem ólst upp í barnaþorpi. Eva Ruza ræddi við Sonam og birtum við hér upptöku frá viðburðinum.