Fréttayfirlit 13. júlí 2022

Söfnuðu 155.000 krónum fyrir SOS í útskriftarverkefni

Söfnuðu 155.000 krónum fyrir SOS í útskriftarverkefni

SOS Barnaþorpunum á Íslandi barst í sumar 155.000 króna framlag til neyðarsöfnunar fyrir börn í Úkraínu frá tveimur unglingsstúlkum. Á bak við framlagið er mikil vinna og metnaðarfull hugmynd sem frænkurnar Thelma Ósk Eiríksdóttir og Brynhildur Anna Gunnarsdóttir komu í framkvæmd.

Thelma og Brynhildur útskrifuðust úr Langholtsskóla í vor og ákváðu þær að lokaverkefnið sitt yrði að hanna og handsauma poka sem þær svo seldu til styrktar SOS í Úkraínu.

„Krakkarnir máttu gera hvað sem er í lokaverkefninu sem snerti áhugamál þeirra. Sumir gerðu eitthvað með tónlist og íþróttir en við vildum safna fyrir neyðarsöfnununina," segir Brynhildur sem sá um saumamennskuna en Thelma fékk hugmyndina og útfærði hana. „Brynhildur er góð í að sauma þannig að við náðum að nýta styrkleika okkar vel."

Sjáðu vídeóviðtal við frænkurnar.

Frá morgni til miðnættis

Saman gerðu frænkurnar heimasíðu þar sem fólk gat lesið sér til um málefnið, keypt pokana og gefið í söfnunina. Hafandi í huga að ekki geta allir gefið pening buðu þær einnig upp á fatasöfnun fyrir flóttafjölskyldur frá Úkraínu á Íslandi. Þær opnuðu sérstakan Instagram reikning og fengu samfélagsmiðlastjörnur með sér í lið til að vekja athygli á söfnuninni.

Thelma og Brynhildur unnu frá morgni til miðnættis í fimm daga við undirbúninginn að söfnuninni og saumemennsku á 32 pokum sem merktir eru sólblómi, þjóðarblómi Úkraínu og áletruninni „діти України" sem þýðir „Börn Úkraínu“. „Kennarinn okkar er frá Úkraínu og hún hjálpaði okkur með stafsetninguna," segir Brynhildur.

Völdu SOS því samtökin eru víðtæk

Frænkurnar völdu SOS Barnaþorpin vegna þess að þær þekkja vel til samtakanna og treysta þeim. Þær segja að það hafi legið beinast við að nota framtakið til að hjálpa börnum. „Það var svo mikið af upplýsingum. Við erum sjálfar börn og við gætum ekki ímyndað okkur að vera í þessari stöðu," segir Thelma. „Okkur leist best á SOS Barnaþorpin aðallega út af hvað þau eru víðtæk.“

Þetta er ástæðan fyrir því að við gerðum þetta. Ég fór næstum að gráta. Thelma

Pokarnir seldust upp

Pokarnir 32 seldust upp og ásamt öðrum fjárframlögum söfnuðust 155.000 krónur sem frænkurnar hafa nú komið til SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Þær eru himinlifandi með viðbrögðin sem þær fengu en finnst vænst um skilaboð sem þær fengu frá móður manns sem er giftur úkraínskri konu. Thelma las skilaboðin upp.

Hjartnæm skilaboð

„Sonur minn er giftur konu frá Úkraínu og foreldrar hennar eru komnir til Íslands núna. Mig langar að gefa þeim poka til minningar um fallegan hug íslenskra unglinga sem lögðu þessa vinnu á sig fyrir fólk sem þeir hafa aldrei hitt en þarf á hjálp að halda."

Þessi skilaboð bræddu hjörtu Thelmu og Brynhildar. „Þetta er ástæðan fyrir því að við gerðum þetta. Ég fór næstum að gráta," segir Thelma og Brynhildur bætir viðþ „Þetta hitti beint í hjartað."

SOS Barnaþorpin á Íslandi þakka Thelmu og Brynhildi af öllu hjarta fyrir þetta einstaka framtak. SOS Barnaþorpin á Íslandi þakka Thelmu og Brynhildi af öllu hjarta fyrir þetta einstaka framtak.

Nýlegar fréttir

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
10. sep. 2024 Almennar fréttir

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi

SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.

Yfir 19 milljónir barna í Súdan ganga ekki í skóla
5. sep. 2024 Almennar fréttir

Yfir 19 milljónir barna í Súdan ganga ekki í skóla

Framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Súdan segir neyðarástandið í landinu eiga eftir að skilja eftir ör á sál landsmanna. Milljónir eru á flótta vegna borgarastríðs og daglega verða yfir hundrað manns...