Fréttayfirlit 8. mars 2023

Opnað á brottvikningu Rússlands

Opnað á brottvikningu Rússlands

Á fundi alþjóðastjórnar SOS Barnaþorpanna þann 2. mars var ákveðið að hefja undirbúning að tímabundinni brottvikningu SOS Barnaþorpanna í Rússlandi úr alþjóðasamtökunum. Þá hafa öll framlög til SOS Barnaþorpanna í Rússlandi verið fryst, þ.m.t. framlög frá íslenskum styrktaraðilum.

Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna hafa áhyggjur vegna þeirra frétta að rússnesk stjórnvöld kunni að hafa numið úkraínsk börn á brott frá heimalandi sínu og flutt þau til Rússlands. Slíkar aðgerðir gætu verið brot á alþjóðlegum mannréttindalögum og flokkast sem stríðsglæpir.

Samkvæmt okkar upplýsingum hafa 13 börn frá Úkraínu fengið skjól í tveimur SOS Barnaþorpum í Rússlandi.  Við vitum að börnin koma frá Úkraínu og eru í tveimur rússneskum fósturfjölskyldum í sitthvoru SOS Barnaþorpinu í Rússlandi. Rússnesk barnaverndaryfirvöld réðu fósturforeldrana og greiða fyrir framfærslu þessara barna. SOS Barnaþorpin í Rússlandi hafa, að beiðni yfirvalda, skotið skjólshúsi yfir þessar fósturfjölskyldur og veita þeim sálfræðistuðning.

Engar vísbendingar eru um það að SOS Barnaþorpin í Rússlandi hafi komið að umræddum flutningum á börnum frá Úkraínu.

SOS Barnaþorpin eiga samstarf við yfirvöld í öllum þeim fjölmörgu löndum sem samtökin starfa í. Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna hafa þó alvarlegar áhyggjur af samstarfi SOS Barnaþorpanna í Rússlandi við barnaverndaryfirvöld þar í landi, nú þegar sömu yfirvöld eru sökuð um umfangsmikil brot á réttindum barna.

SOS Barnaþorpin virða réttindi barna og vernda þau um allan heim. Eitt af okkar helstu verkefnum er að koma í veg fyrir að börn alist upp án foreldraumsjár. Það er skylda okkar að vernda og tala fyrir réttindum barna – hvar sem er og hvenær sem er.

Nýlegar fréttir hafa sýnt okkur að stjórnvöld í Rússlandi hafa nýtt sér barnaþorpin okkar í landinu til pólitísks áróðurs. Alþjóðasamtökin komust fyrst á snoðir um þetta í fjölmiðlum. Slík misnotkun er brot á 2. grein samþykkta alþjóðasamtaka SOS Barnaþorpanna, þar sem segir að samtökin séu óopinber og ópólitísk frjáls félagasamtök sem starfa óháð trúfélögum.

SOS Barnaþorpin eru andvíg því að börn séu notuð í pólitískum tilgangi. Við höfum kannað þær ásakanir um pólitískan áróður sem komið hafa fram í fjölmiðlum og tengjast SOS Barnaþorpunum og getum staðfest að þær ásakanir eiga við rök að styðjast.

Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna hafa um margra mánaða skeið reynt að fá ítarlegar upplýsingar um starfsemi SOS Barnaþorpanna í Rússlandi, einnig áður en fréttir tóku að berast af þessum flutningum barna frá Úkraínu til Rússlands. Eftir að stríðið braust út hefur orðið mun erfiðara að fá upplýsingar frá Rússlandi en áður og mörgum spurningum er ósvarað.

SOS Barnaþorpin í Rússlandi eru að mestu fjárhagslega sjálfstæð. Aðeins um 6% kostnaðar við rekstur samtakanna koma frá öðrum löndum. Því gerum við ráð fyrir því að starfsemi samtakanna geti haldið áfram í Rússlandi og þau séð áfram fyrir þeim 600 börnum sem búið hafa í SOS Barnaþorpum í Rússlandi frá því fyrir stríðið, þrátt fyrir frystingu erlendra greiðslna.

Nýlegar fréttir

Framboð til stjórnar SOS Barnaþorpanna
12. apr. 2024 Almennar fréttir

Framboð til stjórnar SOS Barnaþorpanna

Aðalfundur samtakanna verður haldinn mánudaginn 13. maí kl. 17:30 í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Tilnefningarnefnd SOS Barnaþorpanna óskar nú eftir tillögum um framboð til stjórnar.

Að gefnu tilefni vegna Heru Bjarkar
4. apr. 2024 Almennar fréttir

Að gefnu tilefni vegna Heru Bjarkar

Nokkuð hefur verið um það undanfarið að SOS Barnaþorpin á Íslandi fái skilaboð frá fólki sem lýsir vanþóknun sinni á samstarfi samtakanna við söngkonuna Heru Björk Þórhallsdóttur og þess jafnvel krafi...